Ábyrgð allrar fyrri ríkisstjórnar. Jón Magg að flytja?

Ég held að það hafi verið rétt sem Jón Magnússon sagði í umræðum á Alþingi í morgun að Jóhanna Sigurðardóttir hefði ásamt allri fyrrverandi ríkisstjórn borið ábyrgð á hruninu í fyrra. Því hefði verið eðlilegast að allir ráðherrarnir hefðu gert það sama og Björgvin Sigurðsson og sagt af sér en óskað þess að forseti skipaði utanþingssstjórn.

Ég hjó eftir því umræðunum í fyrrakvöld að Kristinn H. Gunnarsson talaði fyrir hönd Frjálslynda flokksins. Kristni var vikið úr formennsku fyrir þingflokknum á sínum tíma og Jón Magnússon tók við. Kristinn hefur verið úti í kuldanum í vetur í flokknum og studdi til dæmis ekki vantrauststillöguna á fyrrverandi ríkisstjórn.

Úr því að Jón er orðinn að umtalsefni vil ég víkja að því að í fréttum Bylgjunnar í hádeginu var greint frá því að Jón hefði sagt sig frá Frjálslynda flokknum eða að minnsta kosti frá stuðningi við formann hans og borið við að formaðurinn hefði sýnt siðferðisbrest.

Sú ásökun er ekki ný því að svipaða ásökun hafði Jón uppi í fyrra gagnvart formanninum varðandi það að hann væri búrinn að gera flokkinn að sérstöku athvarfi og valdauppsprettu fyrir sig og vini sína af Vestfjörðum.

Ekkert hefur heyrst af því hvort 5% þröskuldurinn verði afnuminn. Ef hann verður áfram er skiljanlegt að sú leið komi til greina af hálfu Guðjóns Arnars að treysta á það að fylgið vestra skili flokknum þingmanni líkt og í kosningunum 1999 þegar hann fékk 4,4% á landinu öllu, en einn kjördæmakjörinn þingmann vestra og út á það uppbótarþingmann í Reykjavík.

Þessi áhersla á hagmuni í Norðvesturkjördæmi kom vel í ljós þegar Kristinn H. gerði vegamál á sunnanverðum Vestfjörðum að sérstöku umtalsefni í sinni ræðu.

En nú er spurningin: Hvert liggur leið Jóns Magnússonar ? Aftur heim í Sjálfstæðisflokkinn ?


mbl.is Yfirstjórn Seðlabanka gætti ekki hagsmuna þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Held að ég skilji hann vel.

Ég þekki þá ónotatilfinningu sem fer um flugmann þegar vélflugvél breytist óvænt í svifflugu. Tvívegis hefur slíkt leitt af sér nauðlendingu á afllausri flugvél á mínum ferli.

Síðara skiptið var í Öræfasveit fyrir 18 árum. Ég hafði tæmt annan geyminn og stillti yfir á hinn sem var með nægt eldsneyti. En þá kom í ljós að ekkert bensín kom frá honum og kom seinna í ljós að ís stíflaði aðstreymi eldsneytis að hreyflinum úr þessum geymi. Vélin var þá í 2500 feta hæð suðvestur af Hofi.

Skásti nauðlendingarstaðurinn var hringvegurinn við brúna yfir Landsál vestur af Hofi. Í hljóðlausu svifinu þangað inn lenti vélin í niðurstreymi og framhaldið leit ekki vel út því að vélin var með þann galla, sem enginn flugvirki hafði hafði getað fundið orsakir til, að hjólin komu oft ekki niður í fyrstu atrennu. Orsökin fannst raunar ekki fyrr en eftir að vélin hafði verið seld til Ameríku.

Þegar lendingarstaðurinn nálgaðist var ljóst að ekki var hægt að setja hjólin niður fyrr en undir lokin, því að annars myndi loftmótstaðan af hjólunjm valda því að vélin lenti í urð fyrir vestan beygju á veginum rétt fyrir vestan brúna.

Hjólin yrðu að fara niður í fyrstu atrennu 20 sekúndum fyrir lendingu, annars yrði þetta magalending. Annað olli vanda: Ekki var hægt að setja niður vængflapa og hjólin samtímis, annað varð að fara niður á undan hinu. Þess vegna varð að tímasetja þessar aðgerðir þannig að þær virkuðu nákvæmlega á síðustu sekúndunum fyrir lendingu.

Síðustu sekúndurnar voru eftirminnilegar. Hjólin fóru niður en í þeim svifum sem ég hóf að setja flapana niður blasti símalína skyndilega við mér beint fyrir framan mig.

Ég hafði oft á undanfðrnum árum hugsað um það áður en ég fór að sofa hvað réttast væri að gera þegar svona gerðist. Niðurstaðan var sú að ævinlega skyldi frekar fara undir línuna en yfir hana vegna hættu á að vélin ofrisi ef henni væri lyft.

Þetta kom sér vel því að ég hafði ekki tíma til að bæta umhugsun um þetta ofan á annað sem þurfti að leysa á síðustu sekúndum lendingarinnar.

Ég dýfði vélinni því án umhugsunar undir línuna og er enn minnisstætt hvernig hún var komin niður í sömu hæð og vegurinn og brúin þegar vélin sveif yfir ána á hlið við brúna og beygjuna á veginum.

Þá fóru flaparnir að virka og lyftu vélinni upp á veginn til nákvæmari lendingar en ég hefði getað treyst mér til að framkvæma þótt ég hefði vélarafl. Vélin stöðvaðist síðan rétt við vegarskilti.

Eftir að hafa hellt eldsneyti á tóma geyminn gat ég síðan flogið til Reykjavíkur.

í þessu atviki kom sér vel að vera nýbúinn i hæfnisflugi með Orra, vini mínum, sem þá var sigursælasti marklendingaflugmaður landsins. Það hjálpaði áreiðanlega til við að halda ró sinni og framkvæma afdrifaríkustu nauðlendingu ferilsins.

En síðan gerðist það merkilega að hið raunverulega sjokk kom í næsta flugi á þessari flugvél. Þá var búið að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til að losna við hættuna af ísstíflu.

Ég var á leið vestur á firði og fór í loftið til öryggis á "góða" bensíngeyminum og klifraði upp í 11000 feta hæð yfir Akranesi.
Þar skipti ég til reynslu yfir á hinn geyminn og er ekki að orðlengja það að það steindrapst á vélinni!

Þá kom loksins sjokkið sem hafði verið bælt niður við lendinguna í Öræfunum. Hvílíkt sjokk !

Samt var ég í öruggri hæð með svifmöguleika bæði til Reykjavíkur og Keflavíkur og gat þar að auki skipt yfir á "góða" bensíngeyminn, sem ég og gerði.

Hver var skýringin á þessu Kannski var það ráðstöfun óúskýrðra sálfræðilegra viðbragða í undirmeðvitundinni að veita áfallinu útrás þegar það gat ekki haft neinar alvarlegar afleiðingar. Ó, hvað ég skil Sullenberger.


mbl.is Sullenberger: Ætlaði ekki að trúa þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gustaf Vasa Íslands.

Sagan geymir ótal slys þar sem óskeikulleiki manna var talinn hafinn yfir allan vafa. Þetta ofmat hefur oft haft afdrifaríkar afleiðingar.

Skipin Hans Hedtoft og Titanic voru talin ósökkvandi en sukku samt. Enginn átti von á því að geimferjan Challenger spryngi í loft upp skömmu eftir flugtak. Engan óraði fyrir þeim möguleika að eitt fallbyssuskot nægði til að Hood, flaggskip breska flotans, spryngi í loft upp og sykki. Loftskipið Hindenburg fuðraði upp við Lakehurst og þar með endaði dýrðatími loftskipanna.

Herskipið Gustaf Vasa var stolt sænska flotans þegar það lagði frá bryggju, glæsilegra og öflugra en nokkuð annað skip og tilbúið í hörðustu orrustur við erfiðustu aðstæður.

Skipið valt skammt undan landi vegna þess að það þoldi ekki tvær vindhviður. Í þessu tilfelli og öllum fyrrgreindum tilvikum mátti sjá fyrir þá veikleika, sem ollu óförunum.

Til að gera Gusaf Vasa sem öflugast var sett annað fallbyssudekk ofan á það neðra. Þar með varð þyngdarpunktur skipsins svo hár að óhjákvæmilegt var að það ylti fyrr eða síðar.

Íslenska bankakerfið var þessu marki brennt, allt of hátimbruð bygging miðað við undirstöðurnar til að þola vindhviður fjármálalífsins.

Fáa, ef nokkra, hefði fyrirfram órað fyrir að Lehman Brothers myndi hrynja og að aðrir af stærstu bönkum heims þyrftu á stórfelldri ríkisaðstoð að halda.

Mönnum, sem telja sig snillinga eða óskeikula, er oft hættast við stórslysum. Eftir að Hitler var búinn að gera sig að snillingi og ofurmenni í eigin augum , varð það sem betur fer til þess að hann gerði fleiri afdrifarík hernaðarmistök eftir að hann var orðinn æðsti yfirmaður hersins en dæmi eru um í hernaðarsögunni.

Hættulegustu mistök flugmanna eru þau sem eru þess eðlis, að þeir trúa því ekki upp á sjálfan sig að þeir geti gert þau. Þetta fyrirbæri olli á sínum tíma dauða einhvers metaðarfyllsta, nákvæmasta og besta einkaflugmanns sem ég hef kynnst.

Dæmi eru um mannskaða í sjóslysum vegna þess að skipstjórarnir trúðu því ekki að skipin væru að sökkva.

Þekkt er setningin úr sjálfvirka símsvaranum. "Þetta er símsvari fullkomusta tækniundurs veraldar þar sem ekkert getur farið úrskeiðis...farið úrskeiðis....farið úrskeiðis....farið úrskeiðis.....


mbl.is Örlög bankanna réðust með falli Lehman Brothers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í átt til grænna gilda í Mosó.

Ef það er rétt að í Mosfellsbæ eigi að rísa "grænn miðbær" eru það góðar fréttir frá bæjarfélagi þar sem sagan undanfarin ár hefur litast af umdeildum framkvæmdum vegna umhverfisspjalla.

Meirihluti afkomenda minna býr í Mosfellsbæ og mér því málið nokkuð skylt auk þess sem vinafólk mitt í Mosfellsbæ hefur haft samband við mig út af deilum vegna framkvæmda.

Mér er í minni moldrokið úr malargryfjunum og lagning vega bæði ofarlega og neðarlega í bænum. Þéttbýlið í Mosfellsbæ var lengi kallað Mosfellssveit og byggðin nýtur vissrar sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu fyrir það hve dreifbýlisleg hún hefur verið og vinaleg.

Þegar Edvard bróðir minn, borinn og barnfæddur Reykvíkingur, flutti til Reykjavíkur frá Höfn í Hornafirði, saknaði hann umhverfisins í Hornafirði og fannst hann finna milliveg í Mosfellsbæ.

Ég veit fátt skemmtilegra en góðar góðviðrisstundir í vinahópi á flugvellinum á Tungubökkum. Vonandi verður sátt í Mosfellsbæ um að hlúa að grænum gildum bæjarfélagsins.

Það er hefð fyrir deilum um framkvæmdum þarna. Þegar félagsheimilið Hlégarður var reist fyrir meira en hálfri öld voru menn ekki sammála um það hvernig til tókst.

Sagan segir að þrír hagyrðingar hafi átt leið fram hjá húsinu, þegar það var í byggingu. Ekki man ég nöfn tveggja þeirra en sá þriðji var Kolbeinn í Kollafirði.

Einn þeirrabyrjaði: Hús er byggt við héraðsbraut.
Annar bætti við: Hreppur Mosfells á það.
Kolbinn botnaði: Það ætti að standa oní laut
svo enginn þyrfti að sjá það.

Vonandi verða ekki ortar svona vísur um nýja miðbæinn.


mbl.is Nýr miðbær í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljós í myrkrinu.

Reikna megi með því að kreppan hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í heiminum eins og flest annað. Einkum hlýtur slíkt að eiga við í löndum eins og Íslandi sem liggja langt frá öðrum löndum og dýrt er að ferðast til. Á móti kemur að stórfelld veiking krónunnar gerir landið miklu ódýrara ferðamannaland en áður var.

Margoft áður í þessum bloggpistlum hefur verið bent á það hvernig tekist hefur á fjarlægum norrænum slóðum að auka ferðamannastraum allt árið, ekki síst á veturna og Lappland nefnt sem dæmi. Árangurinn hefur náðst af því að menn hafa nýtt sér sérstöðu aðstæðna og náttúru og allir hafa lagst á eitt, stjórnvöld jafnt sem heimamenn, að leggja hönd á plóg.

Hér á landi hafa ruðningsáhrif landspjalla- og stóriðjustefnu í bland við ruðningsáhrif skammgróðabólunnar og hágengisins leitt athyglina frá möguleikum ferðaþjónustunnar.

Þrátt fyrir kreppuna hafa land og þjóð alla burði til að auka hér ferðamannastraum þótt hann minnki annars staðar. Það gæti orðið ljós í myrkri hruns fjármálakerfisins.


mbl.is Gistinóttum í desember fjölgaði um 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband