"Skoraði af "öryggi" í stöngina og inn..." ???

Í ljósvakamiðlum nú rétt í þessu var sagt að Ryan Giggs hefði skorað af "öryggi" stöngina og inn. Ég hélt satt að segja að þetta væri þveröfugt, að Giggs hefði mátt þakka fyrir þá heppni að boltinn fór inn en ekki aftur út eða framhjá.

Ef flugstjóri lenti 220 farþega þotu þannig að hann gæti ekki stöðvað hana fyrr en nefhjólið stæði nákvæmlega á brautarenda, myndu fyrirsagnirnar í blöðunum þá verða þær að hann hefði lent vélinn af miklu "öryggi" ´

Ég er ansi hræddur um ekki. 


mbl.is Manchester United deildabikarmeistari 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skoraði af öryggi í stöngina og inn..."???

Vísa í blogg á eftir þessu.

Er skollaleikur í gangi ?

"Samfylkingin verður að gera sömu kröfur til sjálfrar sín og hún gerir til annarra" sagði Jón Baldvin Hannibalsson í Silfri Egils nú rétt í þessu og réttlætti með því framboð sitt í forvali flokksins og á landsfundi gegn sitjandi formanni.

En Jón Baldvin sagði líka annað, - og taki menn nú eftir, - að þetta væri háð því að 80 daga stjórnin stæði við það kosningaloforð sitt að breyta kosningalögunum og innleiða persónukjör í kosningunum. 

Sem sagt: Ef þetta loforð verður svikið á Jón Baldvin útgönguleið ef honum líst ekki á gengi sitt í framboðum sínum. Þetta setur þau ummæli hans nýlega í nýtt ljós þegar hann sagði að hann hefði engu að tapa. 

Á borgarafundi í Iðnó í fyrradag kom í ljós að lögfræðingar deila um það hvort 2/3 hluta atkvæða þurfi á Alþingi til að innleiða persónukjör. Ef aukinn meirihluta þarf mun Sjálfstæðisflokkurinn fella frumvarpið ef marka má ummæli Birgis Ármannssonar, sem kom á fundinn sem talsmaður flokks síns.

Það er ekki að sjá að neitt sé í gangi til að úrskurða um það hvort 2/3 hluta atkvæði þurfi. Hvers vegna?

Egill Helgason sleppti gullnu tækifæri til að spyrja Jón Baldvin um það hvað hann myndi gera ef persónukjör yrði ekki innleitt. Ég er búinn að nefna tilgátu þess efnis.

Helgi Hjörvar sagði á borgarafundinum að Samfylkingin myndi bjóða upp á persónukjör ef lögunum yrði breytt og Steingrímur J. Sigfússon sagðist myndu mæla með því við kjördæmaráð síns flokks að gera það. 

Hvers vegna er ekkert í gangi til að reyna að skera úr um þetta lögfræðilega sem allra fyrst?

Er það hugsanlega vegna þess að undirliggjandi samtrygging stjórnmálamanna sé í gangi? Þeir reikni dæmið þannig að vegna óvissu um það að 2/3 reglan gildi muni Sjálfstæðisflokkurinn koma geta komið í veg fyrir innleiðingu persónukjörs og þeir muni í raun vera honum þakklátir fyrir það?

Og er það svo að Jón Baldvin Hannibalsson reikni með þessu líka og sjái þannig útgönguleið fyrir sig ef illa gengur í kosningafyrirkomulagi, sem hann sagði í Silfri Egils að væri sér óhagstætt?

Niðurstaða mín: Það verður nú þegar að leita allra ráða til að skera úr um það hvort einfaldur meirihluti ráði á Alþingi úrslitum um þetta mál eða 2/3 hlutar atkvæða.

Þá er hægt að komast hjá því að spyrja hvort hér sé skollaleikur í gangi af allra hálfu.  


mbl.is Ingibjörg býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðaorlof.

Ef eitthvert eitt atriði ætti að vera efst á námsskránni í skyldunámi er það dauðinn og hvernig eigi að líta á hann og bregðast við dauða sínum og annarra. Af hverju? Af því, að eftir að lífið er byrjað er dauðinn það eina sem er 100% víst að hver manneskja mun þurfa að hlíta.

Áður fyrr upplifðu allir nálægð dauðans á sveitaheimilunum, bæði dauða dýranna og heimilisfólksins. Gamla fólkið lá yfirleitt banaleguna heima hjá afkomendum sínum og fræðsla um hann og viðbrögð við honum komu af sjálfu sér.

Í nútímasamfélagi ríkir firring og þar með fáfræði gagnvart dauðanum. Móðir mín lést svo snögglega fyrirvaralaust að spurningin um viðbrögð fyrir dauða hennar kom ekki upp.

Þegar faðir minn heitinn lagðist banaleguna tíu árum síðar áttaði ég mig á því að ég var algerlega óundirbúinn og fáfróður um það hvernig ég skyldi umgangast hann þennan erfiða tíma þegar við, hin nánustu, skiptumst á að sitja hjá honum dag og nótt.

Hvernig átti að koma fram við hann? Vorkenna honum? Stappa í hann stálinu?

Hið seinna varð fyrir valinu án þess að maður hefði fengið nokkrar leiðbeiningar um þetta og í ljós kom að í hans tilfelli reyndist það vera rétt. Faðir minn háði langa baráttu í banalegunni af hughreysti og reisn sem fáir hefðu búist við að maður með hans meðfæddu eiginleika gæti sýnt.

Um hann áttu orð Þórunnar Elfu Magnúsdóttur leikkonu vel við: Dauðinn er kóróna lífsins.

Það var dapurlegt að kynnast því að hundruð aldraðra heyja síðustu baráttuna meira og minna án nærveru nákominna ættingja. Með samstilltu átaki nánustu ættingja föður míns var hægt að tryggja að hann væri aldrei einn. Hann tók síðustu andvörpin umvafinn af nærveru afkomenda sinna.

Dauði föður míns setti síðustu stundir lífsins í nýtt ljós fyrir mér. Alveg eins og að allt frá fyrstu stundum míns eigin lífs hafði hann verið náinn lífsförunautur og núna hinn eini, sem hafði verið samferða alla leið, og þessar fyrstu stundir því ómetanlegar, einkum fyrir hann, sem mundi eftir þeim, - þannig voru síðustu stundir okkar saman enn mikilvægari fyrir okkur báða.

Því miður var banalega hans svo löng að ég átti erfitt með að láta lungann úr heilu sumri binda mig í næsta nágrenni við hann. Hann sagðist ekki vilja binda neitt okkar svo mikið

Ég fór í eina ferð þetta sumar sem var of löng til þess að ég kæmist til hans með skömmum fyrirvara og því miður fór hann einmitt þá. Ég mun ævinlega harma það. Ég vissi það ekki fyrr en eftir á hvers við báðir höfðum farið á mis.

Því lýk ég þessum pistli með tillögu: Alveg eins og til eru lög um fæðingarorlof til að tryggja umönnun hins nýfædda einstaklings ætti að vera til svipaður möguleiki til að tryggja að sams konar umönnun hinna nánustu sé veitt síðustu dagana sem einstaklingar lifa. Það er ómannúðlegt að heyja hina síðustu erfiðu baráttu í einsemd.


mbl.is Virðing þegar dauðinn nálgast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband