10.3.2009 | 21:48
Mesta íþróttaafrekið ?
Það er kannski rétt fyrir mig að fara örlítið fyrr í háttinn en venjulega vegna þess að ég er beðinn um að koma á Morgunvaktina á RUV í fyrramálið og rifja upp hið magnaða afrek Guðlaugs Friðþórssonar fyrir réttum 25 árum þegar hann synti í ísköldum sjó 5,5 kílómetra til lands eftir að vélbáturinn Hellisey sökk.
Ef sund Grettis úr Drangey var eitt af mestu íþróttaafrekum Íslandssögunnar var afrek Guðlaugs enn meira. Ég mun rifja upp viðtalið við Guðlaug fyrir 25 árum og kynni mín af honum síðar í eftirminnilegri ferð með honum og Árna Johnsen út í Surtsey. Ég held að sund Guðlaugs sé mesta líkamlega afrek sem nokkur Íslendingur hefur unnið.
Einnig reikna ég með því, ef tími vinnst til, að fjalla um örlagaríkasta sund Grettis, sem hann synti í Noregi um hávetur suður af Stað til að ná í eld í land.
Það sem gerðist í þeim leiðangri Grettis leiddi hann til útlegðar. Ég hef komið á staðinn þar sem þetta gerðist og einnig í NIðarós (Þrándheim) þar sem Gretti mistókst að vinna eiðinn sem hefði getað bjargað honum frá útlegðardómi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2009 | 18:22
Annað hvort eða...
Annað hvort verður að standa almennilega að rannsókn á efnahagshruninu eða sleppa því alveg. Þetta hefur legið fyrir frá upphafi sem og það að vegna tengsla, vensla og hagsmunaárekstra í okkar litla samfélagi verður sá sem hefur yfirstjórn rannsóknar með höndum að vera algerlega óháður innviðum íslensks samfélags og hafa um rannsóknina úrslitavald og bera á henni ábyrgð.
Sem þýðir helst erlendan sérfræðing og tugi rannsóknarmanna. Þetta verður auðvitað dýrt en ef það verður ekki gert af alvöru er bara miklu betra að sleppa þessu alveg.
Síðan er það athyglisvert að Bretar, sem hlúa að mesta skattaskjóli og spillingarneti heims skuli hafa sett hryðjuverkalög á okkur.
![]() |
Gagnrýnir fámenna rannsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.3.2009 | 13:18
Færeysk innrás í annað sinn.
Fyrir rúmum 50 árum horfði til vandræða á íslenska fiskiskipaflotanum vegna manneklu. Það varð til bjargar að allmargir Færeyingar komu til Íslands og björguðu málum. Margir þeirra ílentust hér.
Þegar ég vann verkamannavinnu við lagningu hitaveitu í Reykjavík var einn helsti samverkamaður minn Færeyingur að nafni Leifur Grækarisson, vænn maður og skemmtilegur.
Frumraun mín í ræðustóli á Sal Menntaskólans var ræða, þar sem ég lagði meðal annars fram nýstárlegar hugmyndir um að námsmenn fengju fræðslu í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og fengju greitt svonefnt "sementskaup" fyrir, en ég hafði kynnst þeim launakjörum þegar ég vann við uppskipun á sementi við Reykjavíkurhöfn, sem var bæði erfið og heilsuspillandi.
Nú koma Færeyingar enn til skjalanna og höfðu áður orðið fyrstir þjóða til að bjóða okkur hjálp vegna efnahagshrunsins. Sannast hið fornkveðna að "ber er hver að baki nema sér bróður eigi."
![]() |
Vilja kaupa tryggingafélag hér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2009 | 12:24
Verkamannavinna unglinga fyrr á tíð.
Í DV um helgina var því slegið upp sem forsíðufyrirsögn að maður nokkur hefði unnið erfiðisvinnu 14 ára gamall við Reykjavíkurhöfn. Greinilegt var að blaðamaðurinn, sem tók viðtalið, taldi þetta það merkilegasta sem kom fram í viðtalinu og alveg einstakt. En það var ekkert einstakt við þetta hér fyrr á tíð.
Blaðamaðurinn er líklega það ungur að hann veit ekki að þetta var nokkuð algengt á árum áður, til dæmis á uppvaxtarárum mínum.
Þrettán ára gamall var ég kaupamaður í sveit í fjóra mánuði um sumarið, vann þar öll bændastörf og fékk greitt fyrir. Þetta var mikil vinna en samt var þetta besta og mest gefandi sumar sem ég hef lifað.
Fjórtán ára hóf ég að vinna við Reykjavíkurhöfn í jólafríi og síðan sumarið eftir. Þetta var erfiðisvinna og þýddi ekkert að draga af sér. Það voru ekki margir unglingar sem komust í þessa vinnu enda kröfurnar og vinnuharkan oft mikil.
En það var borgað fullorðinskaup fyrir þetta og kom sér vel. Ég naut þess að afi minn þekkti aðalverkstjórann sem gaf mér færi á að sanna mig.
Sérstaklega var uppskipun á sementi erfið og í raun heilsuspillandi vegna hins mikla sementsryks, sem þyrlaðist upp við það að henda til 50 kílóa sementspokum upp úr lest inn á brettin, sem síðan voru hífð upp úr skipunum.
Vegna þessa var borgaður hærri taxti fyrir sementsburðinn og ég man enn hvað maður var rogginn með sig fyrir að komast í hóp hörðustu karlanna í þessu striti. Þetta fór illa með bakið og kannski er ég að gjalda fyrir það nú. Það voru harðsperrur og bakeymsli eftir lengstu tarnirnar.
Sumarfríin voru löng á þessum árum, fjórir mánuðir, og ég og fleiri unglingar stunduðum svona vinnu fram á þrítugsaldur ef við áttum þess kost. Ég var alinn upp við það að vinnan göfgaði manninn.
Mér fannst þessi "barnaþrælkun" svo eðlilegur hlutur að ég mér hefði ekki dottið í hug að minnast á hana sem slíka í viðtali.
En tímarnir hafa breyst eins og sést á því að nú myndi ég ekki mæla með því að leggja svona erfiði á unglinga núna þótt ég vildi sjálfur ekki hafa misst af þeim þroska og lífsreynslu sem ógleymanleg kynni af merkilegum og mörgum stórvel gefnum verkamönnum færðu mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)