Verkamannavinna unglinga fyrr á tíð.

Í DV um helgina var því slegið upp sem forsíðufyrirsögn að maður nokkur hefði unnið erfiðisvinnu 14 ára gamall við Reykjavíkurhöfn. Greinilegt var að blaðamaðurinn, sem tók viðtalið, taldi þetta það merkilegasta sem kom fram í viðtalinu og alveg einstakt. En það var ekkert einstakt við þetta hér fyrr á tíð.

Blaðamaðurinn er líklega það ungur að hann veit ekki að þetta var nokkuð algengt á árum áður, til dæmis á uppvaxtarárum mínum.

Þrettán ára gamall var ég kaupamaður í sveit í fjóra mánuði um sumarið, vann þar öll bændastörf og fékk greitt fyrir. Þetta var mikil vinna en samt var þetta besta og mest gefandi sumar sem ég hef lifað.

Fjórtán ára hóf ég að vinna við Reykjavíkurhöfn í jólafríi og síðan sumarið eftir. Þetta var erfiðisvinna og þýddi ekkert að draga af sér. Það voru ekki margir unglingar sem komust í þessa vinnu enda kröfurnar og vinnuharkan oft mikil.

En það var borgað fullorðinskaup fyrir þetta og kom sér vel. Ég naut þess að afi minn þekkti aðalverkstjórann sem gaf mér færi á að sanna mig.

Sérstaklega var uppskipun á sementi erfið og í raun heilsuspillandi vegna hins mikla sementsryks, sem þyrlaðist upp við það að henda til 50 kílóa sementspokum upp úr lest inn á brettin, sem síðan voru hífð upp úr skipunum.

Vegna þessa var borgaður hærri taxti fyrir sementsburðinn og ég man enn hvað maður var rogginn með sig fyrir að komast í hóp hörðustu karlanna í þessu striti. Þetta fór illa með bakið og kannski er ég að gjalda fyrir það nú. Það voru harðsperrur og bakeymsli eftir lengstu tarnirnar.

Sumarfríin voru löng á þessum árum, fjórir mánuðir, og ég og fleiri unglingar stunduðum svona vinnu fram á þrítugsaldur ef við áttum þess kost. Ég var alinn upp við það að vinnan göfgaði manninn.

Mér fannst þessi "barnaþrælkun" svo eðlilegur hlutur að ég mér hefði ekki dottið í hug að minnast á hana sem slíka í viðtali.

En tímarnir hafa breyst eins og sést á því að nú myndi ég ekki mæla með því að leggja svona erfiði á unglinga núna þótt ég vildi sjálfur ekki hafa misst af þeim þroska og lífsreynslu sem ógleymanleg kynni af merkilegum og mörgum stórvel gefnum verkamönnum færðu mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við þetta má bæta Ómar, að ég (sem er yngri en blaðamaðurinn) vann erfiðisvinnu í fóðurverksmiðju og við uppskipun frá 14 ára aldri. Þetta var semsé það sama 1992 eins og á þínum uppvaxtarárum. Ég held að þetta hafi breyst í kring um 2000, ekki mikið fyrr.

Ég held að eitt mikilvægasta nám sem ég stundaði á uppvaxtarárunum hafi einmitt verið þessi alvöru vinna, ekki að tína arfa í unglingavinnunni.

Ég held að umræddur blaðamaður hafi hreinlega ekki víðari heimssýn en þetta.

Gunnar G (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 13:33

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Heldur klén er þessi DV-frásögn fyrir Breiðavíkurdrengina.

Sjö ára gamall byrjaði ég að vinna í sveitinni, í heyskap á sumrin og á vetrin tróð ég heyi í poka sem voru mun stærri en undirritaður, sveiflaði þeim upp á herðarnar og bar langar leiðir. Ekkert hús á dráttarvélum á mörgum bæjum og banaslys á börnum talin eðlileg afföll.

Nú greiðir fólk hins vegar háar fjárhæðir fyrir að fá að hreyfa sig á líkamsræktarstöðvum. Ekur þangað á sínum myntkörfubílum.

Þorsteinn Briem, 10.3.2009 kl. 13:46

3 Smámynd: Marinó Óskar Gíslason

Ég er sammála þér þér Ómar. 9 ára gamall var ég sendur í sveit og var látinn moka flórinn. Þurfti að moka mykjunni í hjólbörur og keyra henni svo út og síðan að ausa hlandinu í fötu sem ég bar út. 12 ára fór ég fyrst niðu á Eyri til að vinna og fékk vinnu við uppskipun og vann við það í nokkur sumur, þar til ég fór á sjó 18 ára gamall.

Fyrir mér er þetta ekki nein "barnaþrælkun". Maður lærði að vinna, nokkuð sem stór hluti ungs fólks í dag kann ekki. Og á ég þar við allt "jakkafataklædda banka- og fjármálaliðið", sem aldrei hefur þurft að hafa neitt fyrir hlutunum. Og síðan sænska aðferðin var tekin upp hér á landi að leyfa krökkum ekki að vinna almennilega vinnu, höfum við verið í því að ala upp auðnuleysingja.

Marinó Óskar Gíslason, 10.3.2009 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband