Loksins !

1942 varð að halda tvennar alþingiskosningar vegna breytingar á stjórnarskránni. Sama gerðist aftur 1959. Það var arfavitlaust fyrirkomulag, einkum vegna þess að með því var öllum öðrum málefnum í stjórnmálunum blandað saman við stjórnarskrárbreytingarnar.

Ferleg tregða hefur ríkt gagnvart því sjálfsagða lýðræðisfyrirkomulagi að láta þjóðina taka beint ákvörðun um stór og einföld mál.

Tillögum í upphafi stóriðjuæðisins um þjóðaratkvæðagreiðslur var hafnað og satt að segja mátti halda að tregðan gegn þessu sjálfsagða lýðræði, sem við í Íslandshreyfingunni lögðum til 2007, myndi koma í veg fyrir að svona sjálfsögð bót í lýðræðismálum næmi hér land.

Ég minnist þess nú að í allstóru viðtali við mig í Morgunblaðinu fyrir kosningarnar fannst blaðamanninum, sem viðtalið tók, það merkilegast í mínum málflutningi sem ég sagði um umbótatillögur okkar í lýðræðis- og stjórnskipunarmálum og setti yfir viðtalið fyrirsögnina: "Þjóðin ráði sjálf í stærstu málum" eða eitthvað á þá leið.

Ef samstaða næst hjá öllum flokkum á þingi um að opna þennan glugga er það lítið skref í rétta átt, of lítið að vísu, en samt skref. Loksins !


mbl.is Geta fellt sig við þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt stefna og verðlaunaverð.

Það hefur verið hljótt um borgarstjórn Reykjavíkur miðað við alla þá umfjöllun sem borgarmálin fengu eftir að REI-málið dundi yfir. Síðan í fyrra hafa önnur mál yfirskyggt borgarmálin en líka má nefna það að í borgarstjórn hefur skapast samvinna um meginlínur sem er að mínu mati bæði til sóma fyrir meirihlutann og minnihlutann.

Það hefur verið bent á að málefni sveitarfélaga séu ólík landsmálum að því leyti að í meira en 90% sveitarstjórnarmála séu málavextir þannig að ekki þurfi að koma til ágreinings um þau. Góðu heilli virðast bæði meirihluti og minnihluti hafa tekið saman höndum um að stýra borginnni sem best á þessum erfiðu tímum.

Það vantaði ekki gagnrýni á allt og alla á umbrotatímunum í borgarstjórninni en mér finnst vert að þakka það sem vel er gert.

Það gleður mig sérstaklega að sjá að þrátt fyrir kreppuna eigi ekki að láta miðborgina drabbast niður og að húsin sem svo mjög var deilt um á sínum tíma verði reist. Í því máli var ég sammála Ólafi F. Magnússyni og hans samherjum í því máli.

Síðan er gleðiefni að borgin skuli hafa verið tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna vegna tiltekta og aðgerða undir stjórn röggsams miðborgarstjóra, Jakobs Frímanns Magnússonar.

Það gleður mig líka að sjá þriðja aðilann, sem lagði hönd á plóg og hann ekki svo lítinn við stofnun og í baráttu Íslandshreyfingarinnar, Margréti Sverrisdóttur, láta til sín taka á sviði jafnréttismála sem formaður Kvenréttindasambands Íslands auk starfa á vegum Háskólans og borgarstjórnar.

Og nú verð ég þess áþreifanlega var að Ósk Vilhjálmsdóttir, sem átti ekki svo lítinn þátt í stofnun Íslandshreyfingarinnar kemur sterk inn í starfi í Samfylkingunni.


mbl.is Miðborgin fær andlitslyftingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsýni af tveggja metra dýpi?

IMGP0244IMGP0245IMGP0247IMGP0246Í ráði er að 22ja hektara kirkjugarður komi fyrir ofan Bauhaus-bygginguna vestur af Úlfarsfelli. Mér fannst þetta kalla á að fara á staðinn og líta nánar á þetta. 

Þetta er frábær útsýnisstaður. Efsta myndin, hér til hliðar, sýnir útsýni til norðausturs, til Úlfarsfells og Esju.

Ástæðan til þessa staðarvals mun vera sú, að upphaflegi staðurinn, við Korputorg, þótti slæmur. 

Þeim, sem vilja sjá þetta enn betur, er bent á þann möguleika að stækka myndirnar á tölvuskjánum hjá sér.

 Hér til hægri sést útsýnið til norðurs, yfir Korpúlsstaðaland og Geldinganes. Fjær eru Kjalarnes, Esja og Akrafjall.

Til vinstri á myndinni sést skógræktarreitur og er ein röksemdin fyrir staðarvali kirkjugarðsins sú að gróðurinn í honum muni falla vel að skóginum sem þarna er kominn.

Fyrirhugaður garður á að ná upp undir 100 metra hæð yfir sjó.

Það sýnist mér ekki vera tiltökumál.

Byggð í Reykjavík liggur víða hærra en þetta.

Á hæðinni, sem bíllinn stendur við, er vindpokinn við svifdrekaflugvöll sem þarna er núna og hafa margir átt þar góða daga úti við.

Hér til hægri sést svo hluti af hinum frábæra útsýni yfir mestalla Reykjavík með hina dæmalausu risavöxnu Bauhaus-byggingu í forgrunni, en hún er einn af minnisvörðum "gróðærisins."

Hún mun vera 20 þúsund fermetrar að flatarmáli og inni í henni er EKKERT. 

Sú spurning vaknar hvort ekki hefði glatt fleiri ef íbúðabyggð hefði risið á þeim stað sem við sjáum hér með einhverju besta útsýni yfir Reykjavík og flóann sem völ er á.

Vitað er að útsýni getur verið virt til fjár eins og til dæmis við Sæbrautina vestanverða þar sem það er virt á marga tugi milljóna.

Í okkar kalda og oft hryssingslega landi er það mikils virði í augum margra að njóta fagurs útsýnis, örvar til góðra verka að morgni og gleður sálina þegar sólin sígur í vestri á björtum sumarkvöldum.

Það er ekki ónýtt að hafa sjálfan Snæfellsjökul fyrir augum á góðviðrisdögum en hann sást raunar betur með berum augum en á myndinni hér til hægri. 

Útsýni er alþjóðlegt verðmæti. Þegar ég kom til Chicago var mér ekið um Lake Shore Drive, sem er breiðgata með útsýni sem innfæddir voru að rifna af monti að hafa.

Og hvert var þá þetta mikla útsýni? Jú, út á slétt Michigan vatnið þar sem ekkert sást annað en slétt vatnið. Engin nes, engin sund, engin fjöll, hvað þá eldfjall með jökultindi.   

En hvar væri þá hægt að hafa kirkjugarðinn ef ekki þarna?

Hvað um svæðið við Rauðavatn sem fyrir 37 árum var talið óheppilegt til bygginga á íbúðarhverfi.

Þar er útsýni ekkert í líkingu við það sem er í vesturhlíðum Úlfarsfells.

Fordæmi er fyrir svipaðri ráðstöfun hvað varðar kirkjugarðinn í Kópavogi, sem var settur niður þar sem jarðvegur var djúpur og því dýrt að koma þar fyrir íbúðabyggð.

Auðvitað yrði útsýnið fallegt fyrir þá sem ættu leið um kirkjugarð vestan við Úlfarsfell en það er svo margfalt færra fólk sem myndi njóta þess þar ef þar væri kirkjugarður en ef þar væri íbúðabyggð.

Enginn getur með neinni vissu talað fyrir þá látnu sem liggja munu á tveggja metra dýpi.  

 


Í rétta átt.

Atvikin höguðu því þannig til að fráfarandi formaður VR varð einn af tákngervingum hrunsins. Ég held að hann hafi hvorki skorað vel í sjónvarpsviðtölum né á fjölmennum borgarafundi í Háskólabíói.

Ýmsir höfðu sagt mér að félag hans væri svo lokað í raun og menn þar innmúraðir og innvígðir að engu yrði haggað.
Annað hefur komið á daginn og er það vel.


mbl.is Kristinn kosinn formaður VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta skiptir máli. Þess vegna blysför.

Er það ekki innanflokksmál Samfylkingarinnar hvort Jóhanna Sigurðardóttir tekur að sér að leiða flokkinn eins og ríkisstjórnina? Mitt svar er: Nei. Það er er ekki aðeins innaflokksmál hver leiðir annan af tveimur stærstu flokkum þjóðarinnar, - það kemur allri þjóðinni við.

Nú er það svo að það er svo sannarlega fullt starf að vera í forystu í ríkisstjórn sem glímir við mesta vanda sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir síðan í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. En þegar litið er til annarra landa sjáum við að það er lang algengast að sú persóna sem leiðir ríkisstjórn leiði líka flokk sinn.

Stóru línurnar í þessum kosningum eru þær að í fyrsta sinn í níutíu ár missi Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur meirihluta sinn. Annars verður hér ekkert lát á þeirr landspjalla- og stóriðjustefnu sem enn er keyrð eins hart áfram og raun ber vitni.

Þessir flokkar þurfa á því að halda að vera utan stjórnar næstu fjögur árin til þess að geta komið aftur inn, reynslunni ríkari og með breytta stefnu sem gefur kjósendum raunhæft val.

En til þess að svo megi verða verður liðsskipan núverandi stjórnarflokka að vera eins sterk og heilsteypt og unnt er.
Steingrímur J. Sigfússon nýtur óumdeilanlega mests trausts hjá VG svo að liðskipanin þar er í góðu lagi.

En nú stendur Samfylkingin frammi fyrir vali á nýjum formanni. Að sjálfsögðu er ekkert sem mælir á móti því að kosið verði um formannsefni á komandi landsfundi Samfylkingarinnar.

En þá verður líka að vera hægt að velja á milli þeirra sem mest trausts njóta. Það verður hins vegar ekki mögulegt ef Jóhanna gefur ekki kost á sér. Þess vegna tek ég undir áskorun Jóns Baldvins og ótal annarra til hennar um að hún skorist ekki undan.

Nú er verið að skipuleggja blysför til hennar í kvöld til að efla þessa bón.
Það er þörf á því.
Þetta skiptir máli.


mbl.is Beðið eftir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband