Hrörnun er persónubundin.

Hrörnun er persónubundin. Langt fram eftir síðustu öld var það viðurkennt að maðurinn næði hámarki líkamlegrar getu um 25 ára aldur en síðan lægi leiðin niður á við. Þetta var byggt á þeirri íþróttagrein þar sem skeiðklukkan er miskunnarlaus dómari og mælikvarði á snerpu, sprengikraft og viðbragðsflýti, en það eru 60-100 metra spretthlaup.

Smám saman molnaði úr þessari kenningu og fljótasti maður heims á sínum tíma, Linford Christie var á hátindi getu sinnar 35 ára og svo viðbragðsfljótur að hann var eitt sinn dæmdur úr leik fyrir að þjófstarta tvisvar í 100 metra hlaupi.

Myndataka sýndi að þetta var ekki rétt og má því segja að Christie hafi verið dæmdur úr leik fyrir að vera of viðbragðsfljótur !

Í hnefaleikum geta þúsundustu hlutar úr sekúndu ráðið úrslitum um það hvort höggi sé komið á andstæðinginn, og einkum er þetta áberandi hjá svonefndum gagnhöggameisturum, hnefaleikurum sem eru fljótastir allra að víkja sér undan höggi og koma á sama sekúndubroti inn höggi í staðinn.

Bernhard Hopkins virtist aldrei betri í þessu en um fertugt og fleiri meistarar hafa haldið sínu fram yfir fertugt, en þá vegna reynslu og útsjónarsemi.

Kastarar halda getu sinni lengur en hlauparar og höggþungir þungavigtarmenn sömuleiðis. George Foreman varð elstur allra heimsmeistara í hnefaleikum þegar hann rotaði Michael Moorer 46 ára gamall með einu höggi.

Muhammad Ali, fljótasti þungavigtarhnefaleikari allra tíma, fór að missa hraðann fyrir þrítugt en vann það upp með útsjónarsemi, kænsku og hugrekki.

Prinz Naseem Hamed var búinn fyrir þrítugt og Roy Jones jr. fljótlega upp úr þrítugu, en báðir þessir hnefaleikarar gátu brotið reglur um vörn með því að nýta sér ofurmannlegan hraða. Um leið og hann dalaði urðu þeir bara ósköp venjulegir og opnir fyrir árásum.

Það er sama hve mikla hraðagetu tölva hefur ef hana skortir efni, upplýsingar og forrit. Líklega er mannshugurinn svipaður og skýringar þar að leita um menn sem halda sínu langt fram á elliár á sama tíma og aðrir eru útbrunnir á unga aldri.

Dæmi er lýsing Guðmundar Ólafssonar á Jóni Baldvini Hannibalssyni þegar hann líkti honum við sjötugan ungling en öðrum ónefndum manni við þrítugan öldung. Samlíkingin var kannski svolítið ósvífin gagnvart hinum efnilega þrítuga manni en fullkomnlega viðeigandi um Jón Baldvin.


Hrörnun er persónubundin.

Vegna mistaka við að tengja þetta blogg við frétt um andlega hrörnun vísa ég til næsta bloggs á undan þessu.

Oftökukynslóð rányrkjunnar.

Eftir að sjálftöku- og oftökumenn hafa leikið lausum hala í efnahagslífinu sjá menn nú enga aðra lausn á vandanum sem þeir skilja eftir sig en að okkar kynslóð gerist oftökukynslóð varðandi orkulindir og náttúruauðlindir landsins.

Við erum á fullu við það að fara um eyðandi eldi um háhitasvæði landins og taka út úr þeim þrefalt meiri orku en þau geta afkastað til frambúðar. Fyrirhuguð álver og komandi not orku fyrir önnur fyrirtæki og samgöngutæki okkar á sjó og landi munu verða til þess að klára orkulindirnar og eyðileggja náttúrugersemar sem eru í hópi mestu undra heims. 

Á sama tíma munum við hæla okkur á heimsvísu fyrir forystuhlutverk í sjálfbærri þróun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.Hugtakið sjálfbær þróun er skilgreint sem þróun (development) (nýting) (framkvæmdir) sem ekki kemur í veg fyrir að komandi kynslóðir geti haft val um sína þróun. (development) (nýtingu) (framkvæmdir).

Þetta heitir rányrkja á íslensku, og skiptir ekki máli hvort verðmætin verða uppurin á 10 árum, 50árum, 100 árum eða 500 árum.

Ef Ólafur Thors, Bjarni Ben, Emil Jónsson og Gylfi Þ. hefðu farið út í virkjanaframkvæmdir fyrir álverið í Straumsvík 1970 á þann hátt að orkan yrði uppurin árið 2020, eftir aðeins einn áratug frá okkar tíma, hefði okkur ekki þótt það standast kröfur um sjálfbæra þróun og endurnýjanlega orku.

Landnámsmenn hófu rányrkju á skógum landsins og þeim var að mestu eytt á 300 árum. Við viljum líkjast þeim að þessu leyti.  


mbl.is Íslands sjálftökumenn hafa leikið lausum hala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var vitað allan tímann.

Stærð bankakerfisins fór ekki hátt í fjölmiðlum í "gróðærinu". Hannes Hólmsteinn Gissurarson minntist að vísu eitthvað á hana í grein sem fór hljótt og þá í mjög jákvæðum tón, - óskaði eftir því að bankakerfið margfaldaðist enn frekar.

Ég hygg að ég fari rétt með að í fyrsta skiptið sem fjölmiðill minntist á stærð bankakerfisins hafi verið þremur vikum fyrir hrunið og það var ekki fyrsta frétt í þeim fréttatíma.

Margfaldaðar skuldir heimila og fyrirtækja voru hins vegar á almanna vitorði allan tímann sem gróðærissápukúlan blés út. En fólki lét sér fátt um finnast, því allir þeir sem eitthvað máttu sín voru á fullu að græða á lánaframboðinu.

Mig minnir að þessu hafi til dæmis verið gerð frábær skil í Áramótaskaupi 2005 þar sem sýnt er í svart-hvítu hvernig fólk kom út frá bankastjórnum niðurlútt og niðurlægt hér fyrr á tíð og síðan var sýnt í lit hvernig bankastjórarnir næstum því báru fólk inn til sín til að þvinga það til að taka lán.

Þeir sem vöruðu við þessu voru nöldrarar. Ég var einn af þeim í lýsingu á efnahagsfylleíinu í bókinni Kárahnjúkar - með og á móti, - efnahagsfíkniefnapartíi sem enda myndi með því að allt yrði brotið og bramlað.

Ef allt hefði verið með felldu hefðu skuldir átt að minnka í góðæri en ekki að vaxa, - þegar fólk hafði að lokum efni á því að losa sig við dýr lán. Hið þveröfuga gerðist. Strax árið 2002 varð hér þensla án þess að nokkrar framkvæmdir hefðu hafist við Kárahnjúka.

Þenslan hófst 19. júlí þegar samningar náðust við Alcoa og stóð samfellt fram að hruni. Glöggskyggn hagfræðingur í Seðlabankanum fann það út að mestöll þenslan fólst í auknum yfirdrætti á greiðslukortum, dýrustu lánum í heimi.


mbl.is 15.685 milljarða skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um HB Granda ?

Í því forysturíki kapítalismans, Bandaríkjunum, virðist sem hugtakið "samfélagsleg ábyrgð" geti þó virkað ef marka má fréttir af viðbrögðum við bónusgreiðslum til stjórnenda AIG. Hér á landi hafa verið nefnd dæmi um hið gagnstæða eins og til dæmis greiðslurnar í HB Granda.

Ráðamenn þjóðarinnar segja að þá skorti úrræði til að beita sér í því máli beint og kann það vel að vera. Svipað sögðu raunar reiðir ráðamenn vestra í fyrstu en virðast ekki ætla að láta við það sitja. Því vaknar spurningin: Hvað um HB Granda og önnur svipuð tilfelli á Íslandi ?


mbl.is AIG látið skila risabónusum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband