Hverjir fleiri ?

Björgvin Sigurðsson sagði af sér. Axlaði ábyrgð þótt hann vissi ekki eins mikið um ástandið og kvartettinn, Davíð, Geir Árni Matt og Ingibjörg ef marka má ummæli Davíðs. En Björgvin var viðskiptaráðherra og Fjármálaeftirltið heyrði undir hann.

Nú hefur Ásta Möller beðist afsökunar. Vissi þó minna en öll framantöld. Er maður að meiri að mínum dómi. Sömuleiðis Árni Johnsen sem baðst afsökunar í DV.

Davíð hefur verið látinn fara, án þess að sjá neitt athugavert við nokkuð það sem hann hefur gert síðustu árin. Forysta Fjármálaeftirlitsins er líka farin. Árni Matt er hættur en hefur ekki talið neitt athugavert við sína frammistöðu.

Geir varð að segja af sér forsætisráðherraembættinu og er að hætta sem formaður flokksins, vegna tímabundinna veikinda en sér ennþá ekki neitt athugavert við sína frammistöðu og afgreiðir niðurstöðu innanflokksnefndar flokks síns sem framtíðarmúsík en ekki uppgjör við fortíðina.

Ingibjörg Sólrún situr enn í ráðherrastóli og stefnir á formannskjör. Verða Ásta Möller, Árni Johnsen og Björgvin Sigurðsson hin einu sem sýna auðmýkt ?


mbl.is Baðst afsökunar á mistökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Var glímumaður og skellti honum illa..."?

Skylmingamenn notað hlífar svo að tryggt sé að þeir reki ekki hver annan á hol. Sverð eru hins vegar drápstól að uppruna. Brögð júdómanna eru æfð og notuð þannig að þegar þeir skella harkalega í gófið þá dreifist höggið svo að þeim verði ekki meint af.

Ef júdómaður beitir öflugu bragði á mann, sem ekki hefur æft viðbrögð við því, eykst slysahættan af athæfinu.

Til er ákveðinn "lás" í júdói sem getur drepið viðkomandi á augabragði.

Umgjörð keppni í skotfimi er þannig að öryggi allra sé tryggt. Byssur eru hins vegar drápstól.

Knattspyrnumenn nota legghlífar. Hnefaleikamenn nota hlífðarhjálma og þykka hanska til að sjá til þess að ólympískir áhugamannahnefaleikar hafi ekki í för með sér meiri meiðsli en til dæmis handbolti eða skíðaíþróttir.

Ég lýsti einu sinni heila nótt úrslitakeppni á heimsmeistaramóti í ólympískum hnefaleikum. Enginn meiddi sig en í úrslitaleik kvenna í handbolta daginn eftir rotaðist ein og tvær aðrar urðu að fara af leikvelli vegna meiðsla.

Í ofangreindum íþróttum og ýmsum íþróttum svo sem karate, tækvandó og jafnvel íslenskri glímu eru notaðar aðfarir sem hægt er að beita á hættulegan hátt af hálfu ofbeldismanna.

Slíkir menn eiga ekki aðeins að hlíta landslögum og vera refsað samkvæmt þeim, heldur einnig að vera dæmdir frá keppni í íþróttagreinununum sem þeir stunda og vanvirða með hegðun sinni.

Knattspyrnumenn sparka öllum mönnum fastar og einhver verstu meiðsli sem ofbeldismenn geta valdið felast í spörkum í höfuð. Ég sé samt varla fyrir mér fyrirsögn á borð við "....stundaði knattspyrnu og sparkaði í höfuðið á liggjandi manni."

Ofbeldismenn finna því miður alltaf aðferðir til að beita ofbeldinu. Við mat á íþróttagreinum verður að kanna slysatíðni. Ekki er að sjá að keppni í skotfimi hafi fjölgað morðum hér á landi. Tilkoma bílaíþrótta virðist ekki hafa fjölgað umferðarslysum.

Hins vegar er umhugsunarefni að morð með skotvopnum eru þeim mun algengari í mismunandi löndum sem vopnaeign er meiri og reglur um þau frjálslegri.


mbl.is Blóðug slagsmál skóladrengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurhæfingin hafin ?

Þegar fíkillinnn fer í meðferð og endurhæfingu þarf hann að uppfylla nokkur skilyrði. Vilja sjálfur fara í meðferð, víkja burtu afneituninni, viðurkenna mistök og vanmátt sinn, leita sér hjálpar og taka nógan tíma í meðferðina.

Hann þarf að rífa niður til þess að geta byggt aftur upp.

Hjá mönnum tekur hún minnst ca 48 daga sem einstaklingurinn eyðir eingöngu í gagngera endurskoðun á öllu sínu lífi, starfi og mati á lífsgildum. Höfuðnauðsyn er að hann geri ekkert annað allan þennan tíma.

Í pólitísku lífi flokka tekur hún venjulega jafnmarga mánuði og meðferð einstaklingsins tekur í dögum, þ. e. 48 mánuði, eitt kjörtímabil. Á þeim tíma endurmetur flokkurinn alla sína hluti, kemur aftur til leiks og býður fram krafta sína, hress og endurnærður, sannfærður um að sín sé þörf og að hann vilji, geti og sé tilbúinn. (Ready, able and willing)

Nútíma þjóðfélagi er þörf á raunhæfum valkostum í stjórnmálum til hægri og vinstri. Til þess að Sjálfstæðisflokkurinn geti aftur orðið raunhæfur valkostur, þarf hann að gefa sér gott frí og koma síðan aftur sterkur inn.


mbl.is „Flokkurinn þoli stór orð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enron - Ísland.

Eftir að hafa horft á sjónvarpsmyndina um Enrons-hneykslið klingja ýmis kunnugleg stef í hausnum. Þessi tvö nöfn, Enro og Ísland eru að verða að alþjóðlegum hugtökum sem tákna snautlegt hrun vegna græðgi og hroka.

Maður veltir fyrir sér hvort það hefði hringt einhverjum bjöllum ef þessi mynd hefði verið sýnd fyrir tveimur árum um það leyti sem til dæmis tvö viðtöl í tímaritinu Króniku við útrásarvíkingana lýstu hugsunarhættinum og klækjunum sem notaðir voru til þess að búa til tugmilljarða króna hagnað og hundruð milljarða króna virði í hlutabréfum í fyrirtækjum sem aldrei var til.

Ein aðferðin var að kaupa skuldsett fyrirtæki, taka lán, borga skuldirnar og selja síðan fyrirtækin með stórkostlegum gróða, oft eftir magnaða hringferð í kennitöluskiptum og tilbúningi nýrra fyrirtækja, sem með kaupum hvert í öðru gátu hækkað virði sitt um tugmilljarða króna á huglægan hátt svonefndrar viðskiptavildar án þess að nokkurt raunverulegt verðmæti stæði á bak við.

Uppgangur og fjárhætuspil Enron byggðist á þeirri grunnforsendu að hlutabréfaverð myndi halda áframa að hækka í það óendanlega. Sama var uppi á teningnum hér auk þess sem íslenska "undrið" byggðist á því að aldrei yrði þurrð á lánsfé.

Hugsunin á bak við "íslenska efnahagsundrið" minnti óþægilega á Enron-aðferðina að láta framtíðarhugmyndir einar skapa tugmilljarða gróða án þess að nokkur skapaður hlutur hefði verið framleiddur. Minnir á hugmyndir manna um tugmilljarða gróðann af REI-hugmyndinni.

Ken Lay, hinn upphaflegi forsprakki Enrons, sagði sömu setninguna fyrir framan starfsmenn sína og Geir og Davíð sögðu opinberlega síðastliðið vor þegar ljóst var hvert stefndi, að undirstöðurnar væru traustar, vandinn minni en hjá öðrum, fyrirtækið ætti meiri möguleika en önnur til að komast út úr vandanum, og dýfan yrði skammvinn því að leiðin lægi örugglega upp aftur.

Enron-málið og hlutabréfamarkaðurinn sem hrundi hér og erlendis, var svo miklu einfaldara fyrirbæri í raun en flóknar umbúðir sögðu til um. Alveg eins og barnið sá hið einfalda að keisarinn var ekki í neinum fötum, máttum við öll sjá að á bak við síhækkandi hlutabréfaverð og gróðatölur var ekki sú aukning á framleiðslu raunverulegra gæða, sem gat verið undirstaða undir allri þessari spilaborg.

Sama saga 1929 og 2008.

Við sáum líka muninn á möguleikum forsprakkanna til að bjarga óheyrilegum peningum undan hruninu á sama tíma og hinn almenni launamaður á gólfinu tapaði öllu sínu.

Japaninn, sem var klókastur höfuðpauranna og stakk af nógu snemma, kom gríðarlegum auðæfum sínum undan að því er virðist löglega en með þess meiri vafa á hinni siðlegu hlið.

Eini munurinn á Enron og Íslandi er sá að í Enron-málinu voru menn fljótlega leiddir í handjárnum inn í réttarsali og hlutu þunga dóma margir hverjir. Hér hefur ekkert slíkt gerst enn og mun kannski ekki gerast.

Og þá kem ég aftur að spurningunni um það hvort einhverju hefði breytt hér ef þessi sjónvarpsmynd hefði verið sýnd fyrir tveimur árum þegar við höfðum ýmis skjalfest gögn í hendi um hið íslenska Enron, samanber viðtöl við útrásarvíkingana.

Nei, líklega hefðum það ekki breytt neinu. Þá hafði enginn áhuga á slíku "neikvæðu" sjónvarpsefni sem tók undir "nöldur" og "öfundarraus".

Í upphafi árs 2007 virtist enginn hafa áhuga á að sjá hið raunverulega innihald í sumu af því sem gróðafíklarnir gumuðu að og líklega hefði áhorfið á svona sjónvarpsþátt ekki orðið mikið. Enda var þátturinn ekki keyptur hingað þá, - hefði ekki verið líklegur til að draga að sér auglýsingar út á áhorf.

En hann ætti að verða skylduáhorf fyrir íslensku þjóðina og þakka ber það að hann skyldi þó hafa verið keyptur nú, þótt seint sé.


mbl.is IMF varaði við í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sovétríkin: Stefnan brást ekki heldur fólk ?

Um tvítugt hafði ég mig í gegnum stjórnarskrá Sovétríkjanna og rit Marx og Lenins til að vita meira um þá hrikalegu þjóðfélagslegu tilraun sem þá var verið að gera í þessu heimsveldi kommúnismans. Þar var farið út á ystu mörk félagslegrar forsjárhyggju. 

Niðurstaðan mín var sú að enda þótt þessi rit geymdu að því er virtist frábærar hugmyndir á pappírnum um hið fullkomna þjóðfélag sýndi framkvæmdin að þetta kerfi virkaði alls ekki, vegna þess að í því var ekki gert ráð fyrir mannlegu eðli og mannlegum breyskleika.

Sjálfstæðismenn og aðrir unnendur vestræns lýðræðis komust að svipaðri niðurstöðu. Það var kerfið sem brást en ekki fólkið. Harðir hægrimenn sögðu eð ef kerfinu yrði hrundið og sem óheftastur kapítalismi tekinn upp myndi allt lagast af sjálfu sér. 

Nú bregður svo við að þegar augljósir gallar koma fram á skipan lausbeislaðrar frjálshyggju hér og erlendis komast Sjálfstæðismenn að öfugri niðurstöðu hvað varðar kapítalismann en þeir komust varðandi kommúnismann.

Það sýnist einungis vera stigsmunur en ekki eðlismunur á áföllunum, sem riðið hafa yfir þessar tvær stefnur og hrun kommúnismans var auðvitað margfalt stærra. 

Þetta þýðir auðvitað ekki að fólkið sem átti að framkvæma stefnuna og ná markmiðum hennaqr hafi ekki borið neina ábyrgð. Stalín og ráðamenn kommúnistaríkjanna voru þrjótar. En það gat ekki verið tilviljun að nánast alls staðar komust slíkir menn til valda og beittu þeim óspart.

Skýrsla endurreisnarnefndar Sjallanna er harður áfellisdómtur yfir forystu flokksins og þeim sem báru mesta ábyrgð á íslenska efnahagshruninu, og loksins sér maður hljóð úr þessu horni þar sem ekki er reynt að velta allri sök á heimskreppuna.  

Athyglisvert. 


mbl.is Stefna brást ekki, heldur fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband