Fyrstu skrefin.

Þegar ég fjallaði um stjórnlagaþing og breytingar á kosningalögum á borgarafundi í Iðnó fyrir tæpri viku sagði ég meðal annars eftirfarandi við alþingismennina, sem þar sátu fyrir svörum fyrir hönd stjórnmálaflokkanna:

"Fátt er jafn táknrænt fyrir íslensku stjórnarskrána og steinrunninn göndullinn sem stendur fram úr hönd styttunnar af Kristjáni 9 fyrir framan Stjórnarráðshúsið.

Frá stofnun lýðveldisins 1944 hafa alþingismenn haft 65 ár til að endurskoða þessa eftirlíkingu af dönsku stjórnarskránni frá árinu 1849.

Á 65 árum hafa íslenskir alþingismenn stofnað ótal stjórnarskrárnefndir sem flestar hafa engu áorkað um það að gefa þjóðinni nýja og lifandi stjórnarskrá sem miðuð er við kröfur nútímans.

Við íslenska alþingismenn vil ég því segja þetta:

í 65 ár hefur ykkur mistekist að vinna verk sem þið lofuðuð að vinna fyrir þjóðina en gerðu ekki.

Þið eruð fallnir á tíma !

Fyrir löngu !

Ykkar tími í þessum málum er liðinn !

Okkar tími, þjóðarinnar í landinu, er kominn til að ljúka við það sem ykkur mistókst !


mbl.is Frumvarp um stjórnarskrárbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkurs konar líknardráp, ótrúlega algengt.

Líknardráp er stórt orð, vandmeðfarið og fólk veigrar sér við að nefna það eða fjalla um það. Ætla mætti að þetta sé sjaldgæft fyrirbrigði en ég held að svo sé ekki, heldur miklu algengara en við viljum viðurkenna.

Að minnsta kosti þekki ég alveg ótrúlega marga sem hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um síðustu metrana í lífshlaupi sinna nánustu. Kannski er það ekki skilgreint sem beint líknardráp en um stigsmun en ekki eðlismun að ræða.

Það er erfitt að standa frammi óundirbúinn frammi fyrir spurningunni um það hvort nota eigi ítrustu tækni til þess að framlengja líf manneskju sem á sér sannanlega ekki minnstu von um lengra líf nema þá í meðvitundarlausu dái.

Mér finnst skorta á fræðslu um þetta viðfangsefni, sem allir geta lent í að standa frammi fyrir.

Tökum einfaldasta dæmið. Afkomendur hins sjúka ræða einslega við lækna og hjúkrunarlið um ástand hins dauðvona manns, segjum að það sé faðir. Öllum er ljóst að hann liggur banaleguna og að hann geti jafnvel kvatt hvenær sem er.

Ástandið er orðið þannig að honum er algerlega haldið gangandi með tækninni einni, dælingu í æð og svo framvegis. Hinn dauðvona maður er að mestu leyti í móki og erfitt að átta sig á því hversu mikla meðvitund hann hefur. Stundum liggur hann meðvitundarlaus dægrum saman en stundum bráir nokkur augnablik af honum.

Samkvæmt eigin reynslu og samtölum við aðra, sem hafa reynt svipað, spyrjar læknar oft afkomendurna um það hvað þeir vilji gera, hversu langt þeir vilji ganga, því að þeir hafi fyrst og fremst um það að segja.

Nú er það þannig að ég tel það óskaplega mikinn ábyrgðarhluta að taka ákvörðun sem snertir lífslengd fólks, sama í hvaða ástandi það er. Ég tel einnig mjög erfitt að setja sig í spor hins sjúka og leggja dóm á það hve mikla meðvitund hann hafi í raun og hvaða mælistiku skuli leggja á "lífið" sem hann lifir undir þessum kringumstæðum, leggja mat á gildi hugsanlegra tilvika sem hann skynjar í hljóðlausum, slitróttum og mók-kenndum augnablikum.

"Hann veit ekki hvar hann er," er sagt. "Hann er í rugli og út úr heiminum." En hver getur dæmt nákvæmlega um slíkt annar en sá sem er í slíku ástandi?

Mjög oft er sá sjúki deyfður svo mjög að hann þjáist ekki. Hann getur ekki lengur gefið til kynna hvort þetta svokallaða líf hans, stundum bara eitt og eitt augnablik í senn dag frá deg,i sé einhvers virði.

Ég vil fara mjög varlega í það að leggja mat á það.

Niðurstaðan í tilfellinu sem er grunnur þessa bloggs, var sú að vegna skorts á reynslu afkomendanna við svona aðstæður væri skynsamlegast að treysta hinu reynda starfsfólki, læknum og hjúkrunarliði til að meta það hvenær það þjónaði augljóslega engum tilgangi að framlengja dauðastríðið sem var afar langdregið og gat orðið miklu langdregnara ef tækninni til framlengingar yrði beitt til hins ítrasta.

Við treystum okkur ekki til að taka svona afdrifaríka ákvörðun fyrir jafn nákominn ættingja, annað foreldra okkar.

Við sátum yfir hinum sjúka af eins mikilli alúð og unnt var og sýndum með því að okkur væri annt um hinn sjúki missti ekki af neinu augnabliki, sem hann gæti verið með meðvitund og hugsanlega fundið fyrir nærveru sinna nánustu.

Það hefði hugsnlega verið hægt að láta hann kveðja fyrr þegar langar stundir liðu án þess að hann hefði meðvitund. En ef það hefði verið gert, hefði með því verið komið í veg fyrir að hann fengi tækifæri til þess að kveðja að lokum á alveg einstakan hátt og kóróna líf sitt með því.

Á hverjum degi lengi vel hafði hann stunið upp: "Rallið er ekki búið fyrr en það er búið" og þannig varð það í hans tilfelli.

Við ákváðum að þegar fagfólkið tæki af skarið myndum við líta á það sömu augum og atvik sem væri ekki á okkar valdi. Við töldum okkur ekki hafa reynslu né vald til að velja okkur dag sem hentaði okkur öllum svo að við gætum öll verið viðstödd andlátið.

Ég hygg að best væri að enginn þyrfti að lenda í þeirri aðstöðu að hafa vald til að stytta líf einhvers, hvort sem það líf er með meðvitund eða ekki. En nútíma tækni gerir þetta því miður mun algengara en ætla mætti.

Mitt ráð er þetta: Förum varlega í að leggja dóm á líf, sem er á mörkum lífs og dauða eða við vitundarmörk og hröpum ekki að því að taka ákvarðanir sem varða líf eða dauða. Munum að dauðadómur er endanlegur og óafturkræfur.

Þegar óhjákvæmilegt er að taka af skarið og augljóslega vonlaust að viðhalda lífsmarki er skynsamlegast að láta reynt og gott fagfólk um það að ákveða hvenær það verði að taka draga úr þeim aðgerðum og taka úr sambandi þau tæki og tól sem viðhalda tilgangslausu dauðastríði.


Vantar P-núll leiðina og lagaúrskurð.

Í Morgunblaðsgrein nýlega lýsti ég þremur leiðum sem mætti bjóða framboðum upp á í kosningum varðandi hvernig þau röðuðu á lista sína og byðu kjósendum upp á mismunandi leiðir í kjörklefanaum til að hafa áhrif á uppröðun listanna. Leiðirnar voru þessar:

Leið 1: Núverandi skipan: Töluleg röðun flokksins vegur þyngst og mikinn atbeina kjósenda þarf til breytinga.

Leið 2: Framboðið birtir ótölusetta þá röð frambjóðenda, sem það mælir með en kjósendur eru einráðir í kjörklefanum um að raða á listann.

Leið 3: Framboðið birtir óraðaðan lista, kannski settan upp í stafrófsröð, samkvæmt slembiröðun eða blöndu af þessu tvennu og kjósendur eru alráðir um röðunina.

Ég hafði hugsað mér leið 2 sem hugsanlega aðferð sem Sjálfstæðisflokknum hugnaðist. Í fróðlegu erindi um þetta á borgararfundi í Iðnó kallaði Þorkell Helgason þessa leið P-núll.

Ég sakna þessarar leiðar í frumvarpinu um breytingu á kosningalögum, sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi.
Ég óttast tvennt:

Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn frumvarpinu og notaði vöntun á þessum möguleika sem ástæðu. Það ættu þeir þó ekki að geta gert, því að auðvitað ættu þeir að geta lagt fram breytingartillögu sem um P-núll leiðina.

Stjórnarflokkarnir haldi áfram að draga það að fá óyggjandi lagalegan úrskurð um það hvor 2/3 hluta atkvæða eða einfaldan meirihluta þurfi í þessu máli á þingi og niðurstaðan verði sú, að vegna óvissum þetta mál verði það ekki afgreitt á þessu þingi.

Stjórnarflokkarnir gætu þá notað þetta sem afsökun fyrir því að málið hljóti ekki framgang og kennt Sjálfstæðisflokknum um það.

Ég vil fá meiri festu á ákveðni í þetta mál svo að ekki sé hægt að efast um það að staðfastur vilji sé fyrir því hjá stórnarflokkunum að koma þessari lýðræðisbót á.


Til vinstri á miðjunni.

Sagt er að 80% íslenskra kjósenda hafi verið á miðjunni í litrófinu hægri-vinstri. Sjálfstæðisflokkuinn sótti sinn mikla styrk lungann úr síðustuu öld með því að sveipa flokkinn að hluta til í frjálslynda félagshyggju.

Íslandshreyfingin - lifandi land hefur sótt fylgi sitt víðs vegar að en skilgreint sig sem fyrsta græna framboðið, sem eri hvorki til hægri né vinstri

Sjálfstæðisflokkurinn kom á almannatryggingakerfi 1946 með vinstri flokkunum og félagslegum íbúðum og lífeyrissjóðum á sjöunda áratugnum. Hann byggði völd sín í borginni meðal annars á því að standa fyrir félagslegum lausnum, þótt hann þekkti ekki vitjunartíma sinn í leikskólamálum þegar hann missti meirihlutann 1994.

Framsóknarflokkurinn, sem hefur verið miðjuflokkur, náði 28% fylgi um miðjan sjöunda áratuginn með því að höfða til kjósenda vinstra megin á miðjunni. Sama gerði Alþýðuflokkurinn í kosningunum 1978.

En nú missa Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fylgi á miðjunni vegna mesta ósigurs í efnahagsmálum, sem þjóðin hefur beðið í beinu framhaldi af tólf ára samfelldri valdasetu þessara tveggja flokka.

Samfylkingin ber að vísu hluta af ábyrgðinni en sat þó aðeins í stjórn í einn tíunda hluta af þeim tíma, sem Sjálfstæðisflokkurinn sat samfellt að kjötkötlum valdanna og réði þar ferð.

VG er úti á vinstri kanti stjórnmálanna og því er takmarkað hvað kjósendur af miðjunni treysta sér til að fara langt til vinstri til þess að refsa Sjöllum og Framsókn og setja þá á varamannabekk í eitt kjörtímabil.

Þetta er skýringin á því af hverju Samfylkingin fær svona mikið fylgi í skoðanakönnunum nú. Best hefði verið að stór flokkur vinstra megin á miðjunni, sem alls ekki hafði komið nálægt hruninu, hefði verið til staðar. Hreinast hefði verið að Sjallar og Framsókn hefðu borið einir ábyrgð á hruninu.

En þannig er það ekki og stjórnmál gefa stundum ekki hreina valkosti, heldur skárri kostinn af tveimur. Mín pólitíska afstaða liggur örlítið hægra megin við miðju. Ég hafna samt ekki félagslegum lausnum ef þær bera sannanlega árangur fram yfir markaðs- eða einkaframtakslausnir.

Ég vil þess vegna blandað hagkerfi, það besta frá hægri og vinsgtir og heilbrigðis- og tryggingakerfi í ætt við hið skandinaviska módel en geld vara við forsjárhyggju og of mikilli afskiptasemi.

Ég er í stórum hópi miðjumanna sem færir sig nú um set til vinstri á miðjunni, að minnsta kosti í bili, af því að nú er nauðsynlegt að gefa þeim sem eru hægra megin nauðsynlegan tíma til endurhæfingar svo að þeir geti komið aftur inn og boðið upp á raunhæfan valkost fyrir 80% íslenskra kjósenda.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmörk fyrir tækninni?

Hér um daginn var rökrætt hér á heimasíðu minni um það hvort raunhæft væri að setja það mark að banaslysum yrði útrýmt að fullu í umferðinni. Það verður ekki létt verk, að minnsta kosti verður það erfitt á meðan fólk fær í raun að ráða því sjálft hvort það spennir bílbeltin eða ekki. Lítið er um eftirlit eða viðurlög við brotum á reglum þar um.

Enn farast að meðaltali fimm manns árlega vegna þess að ekki er notað bílbelti og því hljómar með reglulegu millibili í fréttatímum: "Kastaðist út úr bílnum og beið bana."

Nú er það svo að í bílum má finna allt að sjö loftpúða eða líknarbelgi sem eiga að blásast upp í óhöppum og vernda bílstjóra og farþega. En sameiginlegt skilyrði fyrir því að þetta gangi eftir er aðeins eitt: Að fólkið sé í bílbeltum.

Ég minnist þess að í Bandaríkjunum fyrir um 20 árum var á döfinni að selja bíla, sem ekki væri hægt að aka nema bílbeltin væru spennt. Af þessu varð aldrei.

Síðan þá hafa komið til skjalanna hemlar með læsivörn og fullkominn búnaður til að taka ráðin af bílstjórum ef bílarnir fara að skrika til.

Yfirleitt er ekki hægt að taka læsivörnina af og ekki alltaf hægt að aftengja skrikvörnina. Gildir þá einu þótt bílstjórinn kunni að vera reyndur rallökumaður sem nær betri árangri án slíks sjálfvirks búnaðar.

Ég hef lengi verið að bíða eftir því að í bíla verði settur búnaður sem kemur í veg fyrir að bíllinn komist áfram ef bílbeltið er ekki spennt. Það ætlar að verða bið á því. Sem rallökumaður vildi ég frekar hafa slíkan búnað en læsivörn og skrikvörn. Ég minnist þess vel að fyrstu dagana eftir langt rall fannst maður óöryggi fólgið í því að vera ekki í fjögurra punkta bílbelti, heldur aðeins þriggja punkta.

Ég rökræddi bílbeltanotkun við Hanns Hólmstein fyrir meira en 20 árum. Hann sagði að hver einstaklingur ætti að ráða notkuninni sjálfur og taka afleiðingum. Þegar ég benti honum á að laus aftursætisfarþegi gæti henst fram á við og slasað fólk frammi í, breytti hann um afstöðu og sagðist fylgjandi bílbeltanotkun afturí en ekki fram í.

Ég benti honum á að maður sem væri laus í framsæti gæti henst á manninn við hliðina í vissum tilvikum. Einnig að samfélagið, heilbrigðiskerfið, þyrfti að borga fyrir tjón af meiðslum, örkumlum eða dauða manns, sem sjálfviljugur hefði tekið áhættuna af því að nota ekki belti.

Nðurstaða Hannesar var að í slíkum tilfellum ættu einstaklingarnir, sem lentu í slíkum slysum að bera kostnaðinn sjálfir að fullu.

Vegna tímaskorts varð rökræðan ekki lengri og ekki náðist að klára það dæmi, hvernig hinn dauði gæti sjálfur borgað kostnaðinn eða hvort viðkomandi ætti alltaf fyrir kostnaðinum.


Bloggfærslur 4. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband