Takmörk fyrir tækninni?

Hér um daginn var rökrætt hér á heimasíðu minni um það hvort raunhæft væri að setja það mark að banaslysum yrði útrýmt að fullu í umferðinni. Það verður ekki létt verk, að minnsta kosti verður það erfitt á meðan fólk fær í raun að ráða því sjálft hvort það spennir bílbeltin eða ekki. Lítið er um eftirlit eða viðurlög við brotum á reglum þar um.

Enn farast að meðaltali fimm manns árlega vegna þess að ekki er notað bílbelti og því hljómar með reglulegu millibili í fréttatímum: "Kastaðist út úr bílnum og beið bana."

Nú er það svo að í bílum má finna allt að sjö loftpúða eða líknarbelgi sem eiga að blásast upp í óhöppum og vernda bílstjóra og farþega. En sameiginlegt skilyrði fyrir því að þetta gangi eftir er aðeins eitt: Að fólkið sé í bílbeltum.

Ég minnist þess að í Bandaríkjunum fyrir um 20 árum var á döfinni að selja bíla, sem ekki væri hægt að aka nema bílbeltin væru spennt. Af þessu varð aldrei.

Síðan þá hafa komið til skjalanna hemlar með læsivörn og fullkominn búnaður til að taka ráðin af bílstjórum ef bílarnir fara að skrika til.

Yfirleitt er ekki hægt að taka læsivörnina af og ekki alltaf hægt að aftengja skrikvörnina. Gildir þá einu þótt bílstjórinn kunni að vera reyndur rallökumaður sem nær betri árangri án slíks sjálfvirks búnaðar.

Ég hef lengi verið að bíða eftir því að í bíla verði settur búnaður sem kemur í veg fyrir að bíllinn komist áfram ef bílbeltið er ekki spennt. Það ætlar að verða bið á því. Sem rallökumaður vildi ég frekar hafa slíkan búnað en læsivörn og skrikvörn. Ég minnist þess vel að fyrstu dagana eftir langt rall fannst maður óöryggi fólgið í því að vera ekki í fjögurra punkta bílbelti, heldur aðeins þriggja punkta.

Ég rökræddi bílbeltanotkun við Hanns Hólmstein fyrir meira en 20 árum. Hann sagði að hver einstaklingur ætti að ráða notkuninni sjálfur og taka afleiðingum. Þegar ég benti honum á að laus aftursætisfarþegi gæti henst fram á við og slasað fólk frammi í, breytti hann um afstöðu og sagðist fylgjandi bílbeltanotkun afturí en ekki fram í.

Ég benti honum á að maður sem væri laus í framsæti gæti henst á manninn við hliðina í vissum tilvikum. Einnig að samfélagið, heilbrigðiskerfið, þyrfti að borga fyrir tjón af meiðslum, örkumlum eða dauða manns, sem sjálfviljugur hefði tekið áhættuna af því að nota ekki belti.

Nðurstaða Hannesar var að í slíkum tilfellum ættu einstaklingarnir, sem lentu í slíkum slysum að bera kostnaðinn sjálfir að fullu.

Vegna tímaskorts varð rökræðan ekki lengri og ekki náðist að klára það dæmi, hvernig hinn dauði gæti sjálfur borgað kostnaðinn eða hvort viðkomandi ætti alltaf fyrir kostnaðinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála, Ómar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.3.2009 kl. 01:46

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frelsið eftir John Stuart Mill:

"... því aðeins er öllu mannkyni, einum manni eða fleirum, heimilt að skerða athafnafrelsi einstaklings, að um sjálfsvörn sé að ræða." (Bls. 45.)

"... einstaklingur ber enga ábyrgð gagnvart samfélaginu á þeim athöfnum sínum, sem varða einungis hann sjálfan." (Bls. 168.)

"... einstaklingur ber ábyrgð gagnvart samfélaginu á þeim athöfnum sínum, sem skaða hagsmuni annarra. Fyrir slíkar athafnir má hegna honum að almenningsáliti [social punishment] eða lögum, ef samfélagið telur slíkt nauðsynlegt sér til verndar." (Bls. 169.)

Þorsteinn Briem, 4.3.2009 kl. 01:57

3 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Því hefur verið haldið fram að til þess að ná árangri í öryggismálum umferðar þarf að ná til tveggja hópa. Stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna. Það hefur ekki enn tekist hvorki á Íslandi né öðrum þjóðum Evrópu. Á meðan ekki tekst að ná til stjórnmálamanna þá verða ekki sett þau skilyrði fyrir akstri að bera með beltin spennt í þeim sætum sem setið er í. Það mun heldur ekki verða sett þau skilyrði að settur verði í bíl búnaður sem fylgist með vökuástandi ökumanna. Ekki heldur verður settur búnaður í bíla sem gæti komið í veg fyrir akstur undir áhryfum.

ÞANNIG AÐ ÉG SEGI ÓMAR Á ÞING!!

Birgir Þór Bragason, 4.3.2009 kl. 09:59

4 Smámynd: Birgir Þór Bragason

afsakið skort á nokkrum stöfum hér að framan :)

Birgir Þór Bragason, 4.3.2009 kl. 10:01

5 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Ég er annars á því að hemlar með læsivörn, ABS, hafi í raun valdið alvarlegum slysum á þjóðvegum landsins. Þeir virka ekki á malarvegum né holóttum vegum. Það er ekki bara að ég hafi reynslu af því heldur er það tekið fram í handbókum sem fylgja bílum. Tölvan sem stýrir þessum búnaði „heldur“ að það sé hálka á malarvegum og kemur í veg fyrir að við bremsun komist hjólbarðar niður í gegnum efsta ryklagið á þeim. Afleiðingin er oftast útafakstur.

Birgir Þór Bragason, 4.3.2009 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband