Vekur fleiri spurningar en svarað er.

Ótrúlega margt hefur þegar komið fram í bókhaldi stjórnmálaflokkanna fyrir aðeins eitt ár, 2006. Hvað myndi þá koma upp úr dúrnum ef birt væri bókhald þeirra frá fyrri árum og áratugum, - árunum sem Sjálfstæðisflokkurinn mátti skiljanlega ekki til þess hugsa að neitt yrði gefið upp um þetta efni.

Hverjir skyldu til dæmis hafa styrkt Framsókn í kosningunum 1999, 2002 og 2003? Eða næstu ár á undan, 1998 og 2001?

Ég nefni þessi ár vegna þess að flokkarnir þurfa mest á styrk að halda á árum eins og 2006 og 2007, þar sem tvö kosningaár fara saman.

Þess vegna var svolítið skondið að heyra fréttamenn segja í dag að "sérstaka athygli vekti" að framlögin voru hærri árið 2006 en næstu ár á undan.

Spillingin er dýr og djúp
og djöfullega hál og gljúp.
Losnar nú um leyndarhjúp
um Landsbankann og Fl Group.


mbl.is Framhaldið í höndum formannsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varasamar hraðamerkingar.

Það vakti athygli mína á leiðinni um Norðurárdal í kvöld að á nokkur hundruð metra löngum kafla fyrir neðan Bifröst voru merki sem sýndu 30 kílómetra hámarkshraða. Þegar komið var á þennan kafla kom í ljós að hann var í engu frábrugðinn öðrum vegarköflum sem eru með 90 kílómetra hámarkshraða.

Þessi fráleita merking olli vandræðum meðað bílstjóra, sem voru eðlilega misfljótir að átta sig á hvers kyns var. Sumir hægðu snarlega á sér og ollu vandræðum fyrir þá sem á eftir fóru og hófu framúrakstur.

Ég hringdi í lögregluna í Borgarnesi og fékk þá útskýringu að verktakar hefðu verið að vinna þarna í fyrradag en væru nú komnir í fimm daga páskafrí. Merkinganna hefði verið þörf fyrir fríið og þeirra yrði aftur þörf eftir fríið.

En hvernig í ósköpunum eiga vegfarendur að vita þetta? Þetta minnir mig á atvik á Hellissandi fyrir mörgum árum þegar aðkomumaður lenti í árekstri á gatnamótum við bíl sem ók á móti aksturstefnunni. Í fyrstu stóð til að dæma manninn í órétti á þeim forsendum að allir á Hellissandi vissu að það færi enginn eftir bannmerkjunum !

Ég ætlaði að gera um þetta frétt en áður en af því yrði var málið leyst á annan veg.

Þegar ég var strákur staddur niðri á höfn varð ég ásamt fleirum vitni að því að kastað var spring úr skipi yfir á bryggjuna og maður, sem átti að taka á móti, steig út fyrir bakkann og féll í sjóinn. Á leiðinni niður kallaði hann: "Það var planki hérna í fyrra ! "

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem verktakar valda vandræðum og hættu í umferð með því að skilja eftir merkingar sem eru í engu samræmi við aðstæður. Ég kaupi ekki svarið: "Það voru menn að vinna þarna síðastliðinn miðvikudag."


Erfið færð ?

Ég var að koma suður Holtavörðuheiði um áttaleytið. Þar er að vísu ekki mikið skyggni og norðan strekkingur, og vegurinn þakinn snjó, en skaflar eru þar litlir og með ólíkindum finnast mér fréttir um að ökumenn hafi átt í verulegum vandræðum þarna og lent í óhöppum, hvað þá að þarna teljist vera "erfið færð."

Ég var á minnsta bílnum, sem nú er í umferð á Íslandi, en að vísu ágætlega hátt undir hann og vegna þess að vélin er fyrir aftan afturhjólin er gripið það gott á afturhjóladrifinu að ekki hefur þurft að negla hjólbarðana þar.

Færðin getur hins vegar verið "erfið" fyrir fólk sem lendir í vandræðum í hvaða snjóföl sem er.


mbl.is Slæmt veður á Holtavörðuheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrðarlandið milli "leggjanna" beggja.

Ég var á skemmtun á Siglufirði í fyrrakvöld þar sem hagyrðingar létu gamminn geysa. Á leiðinni þaðan austur til Mývatnssveitar veittist sú ánægja að aka um Fljótin og nýopnaða Lágheiðina í frábæru veðri. Þótt Kristján L. Möller slægi í gegn í síðasta hafti Héðinsfjarðarganga gafst ekki tækifæri til að far um þau og stytta sér enn frekari leið.

Á skemmtuninni var talsvert ort um göngin og talað um það hvort þau myndu fá nafnið Stelpugöng úr því að göngin til vesturs frá Siglufirði hétu Strákagöng.

Talað var um tvo "leggi" (ég vil kalla þá áfanga) á göngunum, en á milli þessara tveggja "leggja" er unaðsríkið Héðinsfjörður sem hingað til hefur verið eiin eyðifjörðurinn allt frá Ingólfsfirði á Ströndum austur til Loðmundarfjarðar á Vestfjörðum (afsakið - Austfjörðum, - innsláttarvilla) og því verðmætur sem slíkt fágæti.

Forðum gerði ég þátt um Héðinsfjörð og þess vegna varð til þessi vísa í fyrrakvöld í tilefni af umræðunni um stelpugöngin, leggina og fjörðinn dýrlega.

Ljúfir eru leggir tveir
sem lýsa kvennasnilli
en þó veit Guð ég þrái meir
það sem er á milli.


mbl.is Hálkublettir víða á vegum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband