13.4.2009 | 21:22
Hafnarfjall, - nýtt Ingólfsfjall ?
Um áratuga skeið hefur fólk ekið áleiðis til Reykjavíkur eins og nú þennan annan páskadag og getað gengið að fjallalandslaginu sem vísu víðast hvar í sama horfi og verið hefur um aldir.


En þegar ég var á leið framhjá Hafnarfjalli áleiðis suður sá ég allt í einu að þetta sérstaka fjall var ekki hið sama að öllu leyti og verið hefur.
Hafnarfjall er stolt Borgnesinga og ég þekki í svipinn aðeins tvo staði á Íslandi með svipaðar skriður og blasa við í Hafnarfjalli séð frá Borgarnesi.
Hin mikla skriða Hafnarfjalls hélt ég að myndi verða látin óhreyfð sem og fjallið allt frá tindi niður að vegi og fjallinu lofað að halda svip sínum.


En það er hugsanlega að verða liðin tíð. Undir hinni miklu skriðu hefur legið grænn kragi um aldir, líklegast myndaður sem sjávarhjalli þegar sjór stóð hærra en nú.
Efstu myndirnar sýna hvað ég er að tala um.
En á leið þarna framhjá sá ég að byrjað er að rífa þennan fallega hjalla niður með vinnuvélum.
Ég fór og skoðaði þetta nánar og sá þá að aðeins innar eru stórar malargryfjur, sem hafa verið í hvarfi svo að þær sjást ekki frá veginum.
En nú virðast þessar gryfjur ekki vera nógu stórar lengur og því er sótt í suðurátt og verið að éta fallega græna hjallakragann undir skriðunum upp.
Á þriðju efstu myndinni er horft til suðurs inn í þessar nýju gryfjur.
Svo mikil er ákefðin að búið er að ryðjast um grænan mó ofan á hjallanum án þess að taka neina möl eins og sést vel á myndum 4 og 5, talið að ofan sem teknar eru frá grænu flötinni og séð til norðurs yfir gróðurspjöllin.

Nú segja ýmsir eflaust: Verum ekkert að amast við þessu. Annars erum við á móti framförum, á móti húsbyggingum, á móti mannvirkjagerð. Það er ekkert enn búið að hrófla við sjálfri skriðunni.
Það eru bara öfgamenn og afturhaldspúkar sem eru að röfla um svonalagað.
Skoðum aðeins nánar þetta með umhverfisöfgarnar sem sífellt er verið að tala um þegar mönnum dettur í hug að þyrma einhverju.
Á landinu voru taldar tæplega 2400 malargryfjur fyrir 15 árum. Núna eru þær líklega um 3000. Það gerir einar gryfjur á hverja 100 íbúa og að því standa framfarasinnaðir hófsemdarmenn.
Í Borgarbyggð búa um 2000 manns og eiga því kröfu á að eignast 20 malargryfjur miðað við fólksfjölda.
Á leiðinni frá Hafnarfjalli að Hvalfjarðargöngum er ekið framhjá þremur miklum malargryfjum. En þær virðast ekki nóg heldur er nú sótt að Hafnarfjalli.
Erlendis er hugtakið "landslagsheild" viðurkennt. Dæmi hér heima: Esjan með sínu Kistufelli, Móskarðshnjúkar og Skálafell eru landslagsheild.
Malargryfjur í hlíðum eins af þessum fjöllum veldur umhverfisröskun fyrir alla landslagsheildina.
Græni ávali og fallegi græni kraginn undir Hafnarfjalli er hluti af fjallinu sem landslagsheild eins og öxlin á Monu Lisu er hluti af því listaverki, þótt öxlin sé ekkert öðruvísi eða merkilegri að öðru leyti en hver önnur konuöxl.
Á neðstu myndunum er horft úr suðri yfir að gryfjunum, sem líklega eiga eftir að éta sit til suðurs.
Ég spyr hvort hið sama sé í uppsiglingu í rót Hafnarfjalls og í Ingólfsfjalli.
Hvort það sama gerist hér og gerst hefur í hlíðum Ingólfsfjalls, að farið verði um víðan völl á þeim forsendum að þetta sé alltaf sama gamla malargryfjan.
Ég spyr hvort Borgnesingum sé öllum sama. Ég spyr hvort 3000 malargryfjur landsins séu ekki nóg, heldur verði að bæta þessari nýju við.
Ég spyr hvort það séu öfgar og barátta gegn gatnagerð og húsbyggingum að biðja um að möl sé sótt í aðrar gryfjur, sem nóg er af á þessu svæði.
Ég spyr hvort það sé einkamál að ráðast að einu hlíðinni af þessu tagi sem sést svo vel, bæði nær og fjær af hringveginum.
![]() |
Ferðalangar snúa heim á leið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
13.4.2009 | 17:14
Ekkert nýtt...
og ekkert nýtt, sem kemur nú á daginn /
því fyrir hundrað árum prúð og pen /
pörin komu ríðandi í bæinn. /
![]() |
Stunduðu kynlíf á ofsahraða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.4.2009 | 01:30
Píslarganga formannanna tveggja.
Tveir fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, hafa þurft að þola miklar píslir nú um skeið. Enn eru mönnum í fersku minni ummæli Davíðs af landsfundi flokksins þess efnis að aðfarir Samfylkingarinnar gegn Seðlabankastjórunum minni á krossfestingu, en frægasta krossfesting sögunnar var jú þegar Kristur var krossfestur við þriðja mann.
Þá varð samstundis til þessi vísa:
Það verður ekki af því skafið /
að almættið var æst, /
því þegar Guð sá sjálfan Davíð /
sagði´hann: Jesus Christ !
Davíð var hinsvegar kannski svolítið fljótur á sér við að tímasetja þessa krossfestingu til þess að hámarka dramatíkina, því nú sé ég ekki betur en að Geir H. Haarde, eftirmaður hans, hafi "toppað á réttum tíma" ef nota má samlíkingu úr íþróttaheiminum.
Davíð líkti sér við sjálfan Krist /
er sá hann sig í anda á krossi hanga. /
Geir þó lengra komst í kvalalist /
með krossfestingu á föstudaginn langa. /
Þetta hefur verið mikið fum og fálm /
og fórnin hrikaleg á vegi beggja /
svo þetta er efni í príma passíusálm /
um píslargöngu formannanna tveggja. /
Formanninn nýja nísta slæmar fréttir, /
sem naprar berast eftir krókaleiðum. /
Augun úr hverjir öðrum klóra kettir /
hvæsandi blóðugir á mannorðsveiðum /
Aðgát skal höfð og eins gott að við nú dokum. /
Óhroða sjónvarpsefni er að tarna. /
Þá þarf að taka þetta fram að lokum: /
Þátturinn er ekki við hæfi Bjarna. /
Geir tekur bljúgur á sig allar syndir. /
Illu frá vinum sínum burt hann hrindir. /
Allir í blóðspreng afneita honum þrisvar /
áður en Kjartan Gunnarsson, hann galar tvisvar. /
Vonandi er að skældir menn og skakkir /
skaðist hér ekki og lendi í meiri háska, /-
að lokum þeir fái lof okkar og þakkir /
sem lýst hafa upp þessa dramatísku páska. /
Skotleyfi er gefið og skjóta allir mega. /
Skítahaugurinn fráleitt upp er urinn. /
Pílatus látum síðasta orðið eiga /
enn að nýju: Hver er sannleikurinn? /
![]() |
Heiður Sjálfstæðisflokksins ekki metinn til fjár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)