Píslarganga formannanna tveggja.

Tveir fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, hafa þurft að þola miklar píslir nú um skeið. Enn eru mönnum í fersku minni ummæli Davíðs af landsfundi flokksins þess efnis að aðfarir Samfylkingarinnar gegn Seðlabankastjórunum minni á krossfestingu, en frægasta krossfesting sögunnar var jú þegar Kristur var krossfestur við þriðja mann.

Þá varð samstundis til þessi vísa:

Það verður ekki af því skafið /
að almættið var æst, /
því þegar Guð sá sjálfan Davíð /
sagði´hann: Jesus Christ !

Davíð var hinsvegar kannski svolítið fljótur á sér við að tímasetja þessa krossfestingu til þess að hámarka dramatíkina, því nú sé ég ekki betur en að Geir H. Haarde, eftirmaður hans, hafi "toppað á réttum tíma" ef nota má samlíkingu úr íþróttaheiminum.

Davíð líkti sér við sjálfan Krist /
er sá hann sig í anda á krossi hanga. /
Geir þó lengra komst í kvalalist /
með krossfestingu á föstudaginn langa. /

Þetta hefur verið mikið fum og fálm /
og fórnin hrikaleg á vegi beggja /
svo þetta er efni í príma passíusálm /
um píslargöngu formannanna tveggja. /

Formanninn nýja nísta slæmar fréttir, /
sem naprar berast eftir krókaleiðum. /
Augun úr hverjir öðrum klóra kettir /
hvæsandi blóðugir á mannorðsveiðum /

Aðgát skal höfð og eins gott að við nú dokum. /
Óhroða sjónvarpsefni er að tarna. /
Þá þarf að taka þetta fram að lokum: /
Þátturinn er ekki við hæfi Bjarna. /

Geir tekur bljúgur á sig allar syndir. /
Illu frá vinum sínum burt hann hrindir. /
Allir í blóðspreng afneita honum þrisvar /
áður en Kjartan Gunnarsson, hann galar tvisvar. /

Vonandi er að skældir menn og skakkir /
skaðist hér ekki og lendi í meiri háska, /-
að lokum þeir fái lof okkar og þakkir /
sem lýst hafa upp þessa dramatísku páska. /

Skotleyfi er gefið og skjóta allir mega. /
Skítahaugurinn fráleitt upp er urinn. /
Pílatus látum síðasta orðið eiga /
enn að nýju: Hver er sannleikurinn? /


mbl.is Heiður Sjálfstæðisflokksins ekki metinn til fjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll Ómar, ég held að ég sé að komast á þína skoðun í virkjunarmálum okkar.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 13.4.2009 kl. 01:38

2 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ómar þú ert snillingur!  Ég var í Háskólabíói að horfa á þig og fleiri í myndinni "Draumalandið" í kvöld, og ég grét. -  Svo las ég bloggið þitt núna og ég hló. - Svona geta bara snillingar gert.  

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 13.4.2009 kl. 02:08

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Tær snilld

Hildur Helga Sigurðardóttir, 13.4.2009 kl. 02:21

4 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

vantar ekki vísnabálk um það hvernig þér tókst að láta Landsvirkju borga þér 8.000.000.00 þannig að þú gætir búið til rógsefni gegn henni?

Nú svo og um snilldina stóru - að nýta aðstöðuna hjá RÚV til þess að búa til efni sem gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar - efni sem þú nýtir svo í flokkspólitískum tilgangi og varst þar að auki á launum hjá þjóðinni á meðan.

Ég vissi alltaf að þú værir snillingur en ég held að þú sláir allt út - tek undir það sem Lilja og Hildur segja hér fyrir ofan - Svona geta bara snillingar gert - og - tær snilld.

Reyndar eru ástæður þeirra aðrar.

Ólafur I Hrólfsson

Ólafur Ingi Hrólfsson, 13.4.2009 kl. 02:43

5 identicon

Enn og aftur slíta menn hluti úr samhengi. Davíð Oddson talaði aldrei um það í ræðu sinni á landsfundi að hann hebði verið krossfestur við við þriðja mann. Þarna ert þú sjálfur Ómar Ragnarsson kominn í í sögufölsun. Hann notaði hinsvegar myndlíkingu í ræðu sinni og talaði um að tveir ógæfumennn hefðu verið negldir á kross Kristi til samlætis. Hinsvegar hefði Samspillillingin HENGT hann sjálfan og tvo aðra mæta menn honum til samlætis.

Farið nú rétt með hlutina, þið sem njótið ,,momentsins'' !

Elias Bjarnason (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 03:09

6 identicon

Flott vísa hjá þér Ómar eins og þín var von og vísa

Veit ekki alveg hvað Elias Bjarnason er að fara. "Við þriðja mann" hef ég hingað til skilið sem "með þremur öðrum".

Jón Bragi (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 08:17

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Minn skilningur byggist á því sem mér var forðum kennt ef ég man það rétt, að "við þriðja mann" þýðir að mennirnir voru alls þrír.

Ómar Ragnarsson, 13.4.2009 kl. 09:17

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Landsvirkjun var búin að eyða 56 milljónum í heimildarmyndir af stærstu framkvæmd Íslandssögunnar og taldi málinu að þessu leyti lokið.

En í þessum myndum var ekki sekúnda um stærsta hluta þessar framkvæmdar, sem var drekking 67 ferkílómetra lands og uppfylling hins 25 kílómetra og 180 metra djúpa Hjalladals af auri, auk uppþurrkunar tuga fossa.

Það var ekki að mínu frumkvæði að Landsvirkjun ákvað að gera myndir um aðeins aðra hlið þessa máls og ætlaði að láta þar við sitja, en sá að ekki var stætt á slíku.  

"Rógsefnið" er fólgið í því að teknar hafa verið myndir af því þegar þetta gerðist sem annars hefðu aldrei orðið til. 

Draumalandið kostaði 60 milljónir króna. Ef og þegar myndin "Örkin" verður fullgerð, verður það ekki síður dýr mynd miðað við það að á bak við hana liggja 67 ferðir frá Reykjavík austur á hálendið og viðvera þar í alls 170 daga auk nokkurra ferða til vesturríkja Bandaríkjanna, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.

Allt þetta myndefni tók ég á eigin kostnað og notaði til þess frídaga mína og sumarleyfi.  Ég sagði upp störfum hjá Sjónvarpinu þegar myndatakan vegna Arkarinnar hófst fyrir alvöru. 

Ólafur I. Hrólfsson heldur væntanlega að eignalaus maður sem býr í 70 fermetra leiguíbúð í blokk vaði í peningum. Hann er á sama plani og maður einn, sem gekk um á Kanaríeyjum í vetur og sagði það hverjum sem heyra vildi að í gögnum Landsvirkjunar mætti sjá að ég hefði fengið borgaðar 160 milljónir króna úr sjóðum hennar.  

Ómar Ragnarsson, 13.4.2009 kl. 09:47

9 Smámynd: Halldór Halldórsson

Það er merkileg biblíuþýðing í söfnuði Ómars að á Golgata forðum hafi einn sekur glæpamaður, Messías, verið krossfestur ásamt tveimur saklausum góðmennum; en það er nákvæmlega þannig sem Davíð Oddsson setti hlutina upp á fundinum um daginn. Þetta er alveg öfugt við það sem stendur í biblíunni í minni kirkju og ég ætla að halda mér við þennan trúargrundvöll.  Mér er líka slétt sama þótt þeir Ómar og Davíð segist í sínum trúarjátningu sjá "frelsara" sína fara lóðbeint til helvítis.  Þeir fara þá bara beint á eftir þeim?

Halldór Halldórsson, 13.4.2009 kl. 10:08

10 identicon

Voðalega eru menn eitthvað viðkvæmir hér. Ef Landsvirkjun, sem nota bene við öll eigum, getur notað tugi milljóna af okkar fé til að búa til áróður FYRIR framkvæmdum sínum, þá skil ég ekki hvers vegna þeir ættu ekki að styðja þá sem á móti eru með fjármunum líka. Svo er náttúrulega spurningin um hvort LV eigi yfirhöfuð að vera að nota peninga sína í slíkt. Minnir dálítið á þegar Hitaveita Reykjavíkur ákvað að hún þyrfti að eignast veitingahús, sem ég var síðan látinn borga. Það sorglega er svo hversu óhagkvæm þessi risaframkvæmd fyrir austan ætlar síðan að verða. Vonandi er þessum geggjaða kafla í sögu okkar lokið.

Hinrik (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 10:53

11 Smámynd: Hlédís

Við þriðja mann merkir: með tveim öðrum.  Eigi menn erfitt með tungumálið geta þeir leitað í einfaldan reikning: Sá fyrsti er umræddur aðili, hér Davíð eða Kristur. Annar OG ÞRIÐJI eru hinir tveir.         Leitt er að þurfa að tyggja slíkt ofan í fullorðna Íslendinga.

Þakka Ómari smellnar Ný-passíuvísur.

Hlédís, 13.4.2009 kl. 11:14

12 identicon

Flott ríma Ómar

Þessar vísur voru gerðar í orðastað Davíðs en hann taldi sitt píslarvætti sínu verra en Krists því að tveir sakleysingjar hefðu verið teknir af lífi með sér en tveir óbótamenn með frelsaranum, þá líkti hann einnig búsáhalda-líðnum á Austurvellinum við haugarfa:

Það að Solla sveik hann Geir
sárnaði æðra mætti
og við Kristur áttum tveir
áþekk píslarvætti

Þegar ég starfsloka straffið fékk
sturlaðist haugarfans lýður,
þá ég sem Kristur á krossinum hékk
með kórdrengi á báðar síður

Reinhold Richter (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 11:22

13 identicon

Ómar og falsanir -

félagi minn sem var að vinna á Kárahnjúkavirkjun sá þig taka þar myndir -

í miðri auðn var smá skiki sem var gras og nokkur blóm - hann sgaðist hafa dáðst að vinnubrögðunum við að láta þessa þúfu líta út eins og um væri að ræða flæmi - grasi gróið og blómum prýtt - hann líkti þessu við áróðursmeistara nasista -

þú værir snillingur í blekkingum.

Hvað varða auraleysi og húsnæðistakmarkanir - þá virðist það ekki há þér í þessum málum - það að fá Landsvirkjun til þess að afhenda þér 8 milljónir í vinnu gegn þeim sjálfum - snilld -

Og hvað varða störf þín hjá sjónvarpinu á kostnað almennings -  með tæki almennings í höndunum - þá skilst mér að þú hafir verið búinn að safna verulega miklu af efninu ÁÐUR en þú fórst þaðan -

ÁSKORUN TIL SJÁLFSTÆÐISMANNA TÖKUM HÖNDUM SAMAN OG GREIÐUM HVERT UM SIG    KR. 5.000.-     Í STYRKTARMANNAKERFIÐ - TIL VIÐBÓTAR ÞVÍ SEM VIÐ GREIÐUM VENJULEGA. LÍKA ÞIÐ SEM ERUÐ EKKI INNI Í STYRKTARMANNAKERFINU NÚ ÞEGAR.10.000 MANNS - 50 MILLJÓNIR - MÁLIÐ LEYST.20.000 MANNS - 100 MILLJÓNIR - OG ALLT Í GÓÐUM GÍR.

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 11:27

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það var engin leið að safna myndefni um það hvernig landinu var drekkt nema meðan á því stóð eða hvað.

Allar götur frá árinu 2001 hef ég tekið allar mínar myndir á eigin kvikmyndatökuvélar og engar á vélar Sjónvarpsins.

Hvernig í ósköpunum ég hefði átt að geta "falsað" myndir af 40 ferkílómetrum gróins lands sem fór undir vatn er mér hulin ráðgáta. Stærsti hlutinn var 2ja- 3ja metra þykkur jarðvegur eins og vel sést enn þann dag í dag uppi við "varnargarðinn" sem gerður var til að varna því að 30 milljón tonn af rotnandi jarðvegi skapaði leirstorma.

Væntanlega hef ég þá einnig staðið fyrir "fölsunum" á ofangreindum staðreyndum í skýrslum Landsvirkjunar.

Og það er þá væntanlega líka sögufölsun að Hálsinn, sem drekkt var, hafi verið dýrmætt beitiland bænda sem þeir fengu bætur fyrir !

Þetta sauðfé hefur væntanlega bitið svonefnt grængrjót, grjót sem er grænt á litinn og lítur út eins og gras!

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég þarf að svara því sem er í raun ekki svaravert, en verður þó ekki látið óatalið, vegna þess að við sífellda endurtekningu fer fólk jafnvel að trúa því að þarna hafi aðeins verið "sökkt örfoka landi og eyðisöndum."

Ómar Ragnarsson, 13.4.2009 kl. 12:05

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Seðlabanki Íslands, undir stjórn Davíðs Oddssonar af Briemsætt, styrkti gerð heimildamyndar um listamanninn Jóhann Eyfells af Briemsætt og RÚV sýndi myndina núna um páskana.

Seðlabankinn á líka nóg af seðlum.

Það segir sig sjálft.

Þorsteinn Briem, 13.4.2009 kl. 12:45

16 identicon

Fyrirgefið, hvað er það sem ekki skilst ? Ég tala um sögufölsun þegar því er haldið fram að Davíð Oddson hafi talað um í ræðu sinni að hann hafi verið krossfestur. Hið rétta er að hann fjallaði um krossfestingu Krists og tveggja ógæfumanna, kom síðan með myndllíkingu þar sem hann segist hafa verið hengdur ásamt tveimur mætum einstaklingum í aðför Samspillingarinnar að honum sjálfum og Seðlabankanum. 

Ég geri greinarmun á krossfestingu og hengingu, en Jón Bragi og Hlédís eiga hinsvegar eitthvað erfitt með að gera greinamun á slíku eða skilja ritað mál.

Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 12:55

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það sem Elías Bjarnason er að tala um er hugtakið "viðurkenndur misskilningur."

Dæmi um viðurkenndan misskilning er sú almenna skoðun að Hamlet haldi á hauskúpu þegar henn segir "Að vera eða vera ekki..." Hann gerir þetta tvennt hins vegar á sitthvorum staðnum í leikrtinu.

Annað dæmi er að frægasta setningin í myndinni Casablanca sé "Play it again, Sam."

Þessi setning er aldrei sög í myndinni.

Almenningur tekur aðgreindar setningar úr ræðu Davíðs og sér þær og heyrir fyrir sér í einni heild:

Hann verður fyrir einelti - það á að taka hann af lífi, hengja hann, ásamt öðrum tveimur - aftakan er þar með orðin hliðstæð við það þegar Kristur var krossfestur.

Þessi skilningur varð strax svo almennur sama kvöld og ræðan var flutt að honum verður varla breytt fremur en þeirri mynd í huga allra þegar Hamlet heldur á hauskúpu og segir "To be or not to be..."

Ómar Ragnarsson, 13.4.2009 kl. 13:16

18 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrsta stakan er skotheld og enga "sögufölsun" hægt að finna í henni:

Það verður ekki af því skafið

að almættið varð æst

því þegar Guð sá sjálfan Davíð

sagði´hann: Jesus Christ.

Aðra stökuna má laga til og gera svona.

Davíð líkja má við kónginn Krist.

Á krossunum þrír bankastjórar hanga.

Geir þó lengra komst í kvalalist

með krossfestingu´á föstudaginn langa.

Hvað segir Elías við þessu?

Ómar Ragnarsson, 13.4.2009 kl. 13:23

19 Smámynd: Karl Ólafsson

Ólafur I Hrólfsson, lygi verður ekki sönn, sama hversu oft hún verður endurtekin. Ég held að mönnum væri hollt að íhuga og viðurkenna þær persónulegu fórnir sem Ómar hefur fært til að standa undir gerð ómetanlegra heimildamynda sinna. Það verður líka að teljast virðingarvert og eðlilegt af hálfu LV að styrkja þetta verkefni, þó ekki sé nema um 8Mkr. Mér vitanlega hefur RÚV ekki áminnt eða ásakað Ómar um misnotkun á búnaði sínum, eða vanhöld á vinnuskyldu. Það væri hins vegar þeirra að sjá um það, ef slíkt væri fyrir hendi, ekki Ólafs I Hrólfssonar.

Og hvað varðar ákall þitt um fjársöfnun til styrktar x-D, þá vil ég enn benda á að ekki er um að ræða 55Mkr sem endurgreiða þarf. Þær eru nefnilega orðnar að 69,5Mkr m.v. vísitölu dagsins í dag! Eða ætlar flokkurinn að halda eftir verðbótunum, tæpum 15Mkr?

Karl Ólafsson, 13.4.2009 kl. 13:25

20 Smámynd: Stefán Stefánsson

Þessar vísur eru tær snild hjá þér Ómar minn og í þessu ertu bestur fynnst mér.

Stefán Stefánsson, 13.4.2009 kl. 13:59

21 Smámynd: Offari

 Flottar vísur hjá þér Ómar.  Erlingur kom hér með fyrripart sem reyndar enginn vildi botna. Ég ætla allavega að reyna að botna.

Sannleikurinn sýnist mér koma

seint upp úr Kjartani.

Endalausa ruglsins roma

ristir sá flokksbani.

Offari, 13.4.2009 kl. 16:12

22 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

Mér finnst í ljósi núverandi stöðu mála í þjóðfélaginu að mun maklegra væri að styrkja Ómar Ragnarsson en Sjálfstæðisflokkinn, þó ekki væri nema til að kenna þjóðinni að yrkja.

Guðmundur Benediktsson, 13.4.2009 kl. 16:21

23 Smámynd: B Ewing

Glæsilegar vísur.  Það ætti að heimila viðbætur við Passíusálmana héðan í frá og hafa þessar fremst í þeim kafla.

Ég get ekki séð að SjálfstæðisFLokkurinn geti með nokkru móti hvítþvegið sig af þessu máli.  Þeir sem halda öðru fram eru að mínu matí álíka veruleikafirrtir og forysta þess flokks. 

Ég skora á alla Sjálfstæðismenn með snefil af sjálfsvirðingu til að skila auðu, kjósa annað eða mæta ekki á kjörstað.  Að sýna "sínum mönnum" stuðning eftir það sem á undan er gengið og að sýna þessari lítt breyttu forystu FLokksins stuðning hlýtur að vera fyrir neðan virðingu hvers ærins Sjálfstæðismanns.

Bendi að lokum Guðmundi Ben á á kíkja við á www.rimur.is/  Afskaplega fróðlegur kveðskaparvefur.

B Ewing, 13.4.2009 kl. 17:29

24 identicon

Jú Ómar, mér varð á í messunni "við þriðja mann" þýðir náttúrlega samanlagt þrír. Ég lærði þetta líka í æsku.

Jón Bragi (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 07:29

25 identicon

Sannleikurinn sýnist mér koma

seint upp úr Kjartani.

Yfir landi vargar voma

"voters are" fasani.

narco (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband