26.4.2009 | 21:25
Vafasamur fundartími.
Oft telja menn verkefni sín svo nauðsynleg að láta verði eðlilegan svefn víkja fyrir þeim. Allir kannast við þetta. Þó er það svo að slíkt er ekki skynsamlegt nema í algerum undantekningartilfellum því til lengri tíma litið vinnst minna en tapast ef fólk er þreytt, sljótt og afkastalítið í slíku ástandi.
Þótt talsmenn flokkanna bæru sig mannalega í kvöld duldist ekki að þeir voru vansvefta og þreyttir. Steingrímur og Jóhanna voru búin að halda erfiðan fund í dag og það sást alveg á þeim og heyrðist af frásögnum þeirra af honum, einkum hjá Steingrími.
Ég set spurningarmerki við þennan fundartíma þeirra undir þessum kringumstæðum.
Er líklegt til árangurs á svo mikilvægum fundi að fólk sé í raun að verða úrvinda af þreytu og svefnleysi? Ég held ekki að það hafi létt þeim að fjalla um Evrópumálin í slíku ástandi.
Það er bagalegt því að andrúmsloftið verður jákvæðara hjá fólki sem er vel úthvílt og upplagt en hjá þeim sem eru dauðþreyttir og úrvinda. Hjá upplögðu fólki með góða líðan eru meiri líkur á góðri útkomu og það er nauðsynlegt að hafa það þannig vegna þess hve brýnt er að málefnin séu leyst af fólki með hámarksgetu.
![]() |
Evrópumálin erfiðust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2009 | 19:22
Af hverju ekki norsku leiðina?
Vinstri grænir eru sá stjórnmálaflokkur sem best allra hefur barist fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum um mikilsverð mál á Íslandi. Í elsta kjarna flokksins er fólk sem barðist fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um aðildina að NATÓ.
Hvergi í nágrannalöndunum fór þó slík þjóðaratkvæðagreiðsla fram á sínum tíma en ég minnist þess að mér fannst á sínum tíma þessi krafa réttmæt þótt ekki teldi ég mig vera á vinstri kanti stjórnmálanna.
VG lagði til að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um Kárahnjúkavirkjun og stóð þar vaktina vel.
Nú bregður svo við að innan VG er mikil andstaða gegn því að við förum þá norsku leið að bera samning við ESB undir þjóðina. Þetta hafa Norðmenn gert tvisvar.
Rök þess VG-fólks sem ég hef rætt við eru þau að ekki sé hættandi á að þjóðin leiði slíkt yfir sig.
Þessi rök sýnast mér ekki vera í samræmi við eitt besta stefnumál VG að auka beint lýðræði. Þetta mál hefur haldið íslenskum stjórnmálum í pattstöðu og gíslingu sem getur að mínu vit ekki gengið endalaust.
Mér sýnist ekki að SF þurfi að setja Framsókn eða Borgarahreyfinguna neina kosti í þessum málum. Allir þessir flokkar eru sammála um að láta reyna á umsókn um aðild og fara síðan í þjóðaratkvæði. Þessir þrír flokkar gætu því nýtt þingmeirihluta sinn í þessu máli, hvað sem stjórnarmynstrinu líður.
![]() |
Í engri stöðu til að setja VG kosti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2009 | 10:17
Fóru flatt.
féll útbyrðis og svamlar hjá björgunarflekanum. /
Kjartan og Arnbjörg Sveinsdóttir sukku hratt. /
Þau sáu engin ráð við atkvæðalekanum. /
Frjálslyndir kolféllu og Sigurður Kári fór flatt /
og Kolbrún Halldórsdóttir varð undir Drekanum.
![]() |
27 nýir þingmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2009 | 04:28
Áfram Noregur !
Norska Evróvisionlagið glymur í eyrum eftir þessa kosninganótt. Lagið og uppsetning þess hefur allt til að bera til að ná langt, þessi líka fíni fiðluleikari, íðilsætur drengur með gríðarlega leikgleði og útgeislun.
Það er sagt að þetta sé laga- og söngvakeppni en ekki keppni í framkomu og söng, en mér finnst norska lagið hafa allt til að bera í sjálfu sér og ekki skemmir frábær útfærsla þess og flutningur fyrir.
Ég segi bara: Áfram Noregur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.4.2009 | 03:25
Enn langt í land fyrir Framsókn.
Oft vill það brenna við að samanburður á fylgistölum í kosningum nær ekki lengra aftur en til síðustu skoðanakannana eða næstu kosninga á undan í stað þess að horfa lengra aftur.
Alla síðustu öld var Framsóknarflokkurinn með vel yfir 20% fylgis, komst hvað eftir annað yfir 25% og náði hæst 28% 1967.
1999 var fylgið rétt yfir 18% og var 17,7% 2003, í bæði skiptið neðan við 20 prósentin. Flokknum var refsað grimmilega fyrir 12 ára slímsetustjórn sína með Sjálfstæðisflokknum í kosningunum 2007 og datt út úr stjórn, en Sjálfstæðisflokkurinn slapp fyrir horn.
Núna er Sjálfstæðisflokknum loks refsað harðlega og þótt Framsókn komist uppundir 15% atkvæða er það langt fyrir neðan hið hefðbundna fylgi hans alla síðustu öld fram að 1995.
Það er því enn mikið verk að vinna fyrir efnilegan formann hans, sem kastaði flokknum skemmtilega í gegnum endamarkið á síðustu dægrum kosningabaráttunnar.
Og í stað þess að miða fylgi Vinstri grænna við síðustu skoðanakannanir er réttara að horfa aðeins lengra aftur í tímann og skoða næstum þreföldun þingmanna flokksins á skammri ævi hans.
Samfylkingin hefur verið á svipuðu róli frá stofnun sinni og á þau timamót að vera orðinn langstærsti flokkur landsins fyrst og fremst að þakka afhroði Sjálfstæðisflokksins og því að Framsókn hefur ekki náð sinni fyrri stærð.
Og tímamótameirihluti Sf og Vg byggist á því hvernig Vg hefur sótt í sig veðrið jafnt og þétt á síðustu tíu árum.
![]() |
Upphafið að endurreisn flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2009 | 02:30
Vonandi liðin tíð.
Sjálfstæðisflokkurinn hreykir sér af því að hafa komið í veg fyrir stjórnlagabreytingar. Vonandi verður umræðan og upplýsingarnar um styrki í prófkjörum, ásamt sigri þeirra flokka sem vildu breytingar, til þess að innleidd verða góð og skynsamleg lög um heimild til persónukjörs í kosningum, sem byggja á því sem best hefur reynst í öðrum löndum.
Það, ásamt endurbótum á lögum um fjármál flokka og stjórnmálamanna, ætti að verða til þess að við losnum við spillingarkennd prófkjör.
![]() |
Tími prófkjara liðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2009 | 02:15
Blindnin á Davíð skemmdi fyrir.
Vilhjálmur Egilsson segir ræðu Davíðs Oddssonar á landsfundi hafa átt stóran þátt í fylgishruni flokksins. En það þarf tvo til, þann sem heldur ræðuna og þá sem hlusta. Og þetta var ekki fyrsta ræða Davíðs Oddssonar þar sem samspil flytjandans og hlustendanna varð afdrifaríkt.
Sefjunarmáttur Davíðs gerði það að verkum að löngu eftir að allir hefðu átt að sjá eðli og skaðsemi stjórnunarhátta hans hafði hann ótrúleg heljartök á hinum leiðitama flokki sínum.
Meira að segja í ræðunni á landsfundinum fékk hann hvað eftir annað fagnandi viðtökur þótt hrollur færi um fundarmenn inn á milli.
Það er stundum sagt á grimman hátt að fólk fái þá leiðtoga sem það á skilið. Líklega á það við í þessu tilviki og verði að skoðast í því ljósi.
![]() |
Davíð eyðilagði landsfundinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)