10.5.2009 | 23:47
Hæf kona kveður, - klár kona tekur við.
Ég hef áður sagt og segi enn að leitun var á Alþingi að þingmanni sem var orðinn eins vel að sér í sínum málaflokki og Kolbrún Halldórsdóttir. Hún er líka hreinskilin og ákveðin og það kostaði hana líklega þingsætið og embættið.
Mér finnst eftirsjá eftir henni úr því starfi sem hún hafði búið sig svo vel undir. Ég hef verið fylgismaður þess að ráðherrar eigi ekki jafnframt að vera þingmenn, en meðan núverandi fyrirkomulag er í gildi er það alltaf talið veikja ráðherra að vera ekki á þingi, ekki hvað síst ef hann hefur dottið út af þingi.
Misvægi atkvæða milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis varð til þess að Kolbrún, Mörður Árnason og fjórir aðrir á suðvesturhorninu féllu út af þingi sem annars hefði hún haldist inni.
Kolbrún var þó með það á bakinu að hafa farið illa út úr prófkjöri og það hefur líklegast riðið baggamuninn.
Svandís Svavarsdóttir skein sem skært nýstirni í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2006 og hraðferð hennar framávið í stjórnmálunum er verðskulduð. Í umhverfismálum held ég hins vegar að hún eigi eftir að kynna sér margt.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig hún vinnur úr því og hvernig hún stendur sig.
En hún sýndi það og sannaði í REI-málinu hve klár pólitíkus hún er, - kom því máli af stað, fylgdi því eftir og lauk því vel. Á ekki langt að sækja þá hæfileika.
Vonandi tekst henni vel til í ráðherrastóli og stjórn ráðuneytis sem er að mörgu leyti þýðingarmesta ráðuneytið ef tekið er tillit til þeirra milljóna Íslendinga sem eiga eftir að byggja þetta land og gjalda fyrir mistök okkar eða njóta framsýni okkar, hvort sem verður ofan á.
Henni fylgja góðar óskir um áframhaldandi velgengni þjóðinni og ókomnum kynslóðum til heilla.
![]() |
Svandís tekur við embætti umhverfisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.5.2009 | 20:03
Kirkjan og skírnarfonturinn.
Marga merka kirkjugripi má finna á Íslandi og láta ekki allir mikið yfir sér.

Einn slíkur er í kirkju Óháða safnaðarins í Reykjavík, en í dag var þess minnst þar að 50 ár eru frá vígslu kirkjunnar. Hægt er að sjá hann betur og aðrar myndir hér með því að tvísmella á þær.
Séra Emil Björnsson, fyrsti prestur safnaðarins, fékk Ásmund Sveinsson til að gera skírnarfont fyrir kirkjuna og hugmyndin á bak við hann er frábær.
Á myndinni af fontinum hér á síðunni sést að hann felst í tveimur eikarsúlum, gylltum krossi að baki þeim, sem sólarljósið fellur á og endurkastast síðan þaða eftir gylltum teinum sem halda uppi skírnarskálinni og teinum sem lýsa til jarðar.
Teinarnir sem endurvarpa sólarljósinu frá krossinum niður á við, tákna sólina, sem skein á Þorstein Ingólfsson, son Ingólfs Arnarsonar, þegar hann lét bera sig út undir bert loft á banabeði.
Þar fól hann sig þeim guði er skapað hefði sólina og andaðist síðan.

Súlurnar eru tákn öndvegissúlnanna, sem voru heimilisguðir í Reykjavík.
Önnur er karl en hin kona, og geislarnir sem skína á skírnarskálina tákna mátt lífsins sem streymir frá sólinni, Guði, og foreldrunum til hins nýfædda barns.
Líf kviknar af lífi gæti verið lýsing þessarar hugsunar.
Þessi kirkja er mér kær. Ég var einn þeirra sem vann að smíði hennar á árunum 1956-59.
Hún var valin ein af stílhreinustu og fegurstu byggingum borgarinnar þjóðhátíðarárið 1974.
Hún hefur aldrei verið fallegri en nú eftir að hafa verið endurnýjuð gagngert í annað sinn.
Troðfullt var út úr dyrum í dag og aðeins hluti viðstaddra sést hér á mynd úr salnum.

Á mynd, neðst á síðunni, má sjá Hólmfríði Guðjónsdóttur, formann safnaðasstjórnar, halda ræðu dagsins og rekja sögu safnaðar og kirkju.
Safnaðarpresturinn Pétur Þorsteinsson, situr til hægri við hana.
Þegar ég var tíu ára gerði ég teikningu að kirkjunni og gaf prestinum.
Já, kirkjan var mér strax hugleikin, enda voru afi og amma og pabbi og mamma meðal stofnenda safnaðarins eftir að Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík klofnaði.
Gunnar Hansson teiknaði kirkjuna síðan og sést vel af hlaði hennar hve ólík hún er Háteigskirkju og Hallgrímskirkju, sem blasa þar við.
Norðurhliðini er skemmtileg, - birtan fellur á ská niður um langa og mjóa glugga eins og sést á mynd sem tekin var innanfrá og sést hér fyrir neðan.



Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2009 | 03:41
Burt með orðin "hvernig" og "svona"! Þau eru ekki nógu fín.
Orðin "hvernig" og "svona" hef ég lengi haldið að væru góð orð, einföld og skýr. En ég hef víst rangt fyrir mér. Sóknin gegn notkun þessara orða bendir til þess að þau séu ekki nógu fín og beri helst að útrýma þeim.
Í stað þeirra er í tíma og ótíma notuð hin fína og viturlega orðalag: "Með þessum hætti", "með öðrum hætti", "með einum eða öðrum hætti.
Í stað þess að segja til dæmis: "Það er verið að að athuga hvernig hægt sé að gera þetta" er sagt: "Það er verið að athuga með hvaða hætti sé hægt að gera þetta.
" Þarna eru notuð þrjú orð í stað eins, "með hvaða hætti" í stað orðsins "hvernig", en það þykir bara miklu fínna og lýsa visku og yfirvegun þess sem notar þau.
Helst þarf að nota sem allra flest orð til þess að ljóst sé yfir hve gríðarlegum orðaforða og agaðri, þróaðri og flókinni hugsun þeir búa sem geta ekki hugsað sér jafn ómerkilega einföld orð og "hvernig" og "svona".
Orðið "aðferð" er líka alltof einfalt og ófínt að ekki sé nú talað um sögnina "að gera". "Aðferðafræði" skal það heita og "að framkvæma."
Nú nota menn aðferðafræði um allan fjandann í stað þess einfaldalega að segja frá hvernig gert er.
Ef maður íhugar að gera eitthvað þá er alltof ófínt að segja:
"Ég er athuga hvernig ég get gert þetta".
Guð minn almáttugur, svona plebbamál gengur ekki.
Maður er ekki maður með mönnum nema segja:
"Ég er að athuga með hvaða hætti ég geti fundið þá aðferðafræði sem hægt er að beita tl þess að framkvæma þetta."
Með svona orðalagi er ég orðinn maður með mönnum.
Helst þarf að nota þrisvar til fjórum sinnum lengri setningar til að segja sama hlutinn til þess að það geti talist nógu fínt svo að orðavalið og orðkynngin lýsi því langar leiðir yfir hve gríðarlega mikilli aðferðafræði með þessum eða hinum hættinum þeir búa yfir sem hafa náð mestu valdi á hinum nýja kannsellístíl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)