Það var mikið!

Síðast þegar ég ók malarvegarkaflann í Skriðdal, sem nú á loks að fara að malbika, tapaði ég tveimur hjólkoppum á þessum fjandans kafla með holum sínum, þvottabrettum og bríkum.

Þennan sama dag sprengdu ökumenn á nýrri smálbílum lægri og þynnri hjólbarða sem eru á þeim bílum.

Nú á loksins að koma þessum vegarkafla hringvegarins, sem er mun verri en vegurinn yfir Öxi, í viðunandi horf.

Og þótt löngu fyrr hefði verið!


mbl.is Buðu lægst í veg um Skriðdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kötturinn Carl Möller var yndisleg persóna. 1.

Húsdýr geta verið jafn heillandi fyrir fullorðna sem börn. Dætur okkar fundu blindan, nýfæddan kettling, sem mjálmaði í öskutunnu.

Þær fengu að bjarga honum og til heiðurs hljómborðsleikaranum í Sumargleðinni fékk hann nafnið Carl Möller.

Hann varð brátt einn ástsælasti og skemmtilegasti meðlimur okkar stóru fjölskyldu. Hann var mikill persónuleiki.

Ég lék mér mikið við Kalla. Aðal leikurinn fólst í því að fara á bak við dyr eða horn og strjúka höndinni létt eftir gólfinu við dyrnar eða hornið. Kalli beið þá færis, en stökk síðan skyndlega til árásar, réðst á höndina og slóst við hana.

Ég var oft blóðrisa á höndum af þessum sökum en það gerði ekkert til.

Þegar ég kom heim á kvöldin, lagði ég oft bílnum fyrir utan húsið, rúllaði rúðunni lítillega niður svo að lítil rifa opnaðist og lét fingurna leika við þakrennuna þannig að hljóðið í því var líkt og litlir músafætur tifuðu á þakinu.

Það brást sjaldan að væri Kalli í grenndinni, læddist hann aftan að bílnum, stökk síðan skyndilega upp á þakið og réðist á höndina með miklum látum.

Læt þetta nægja að sinni um Kalla en bæti við nokkrum sögum af honum síðar.


mbl.is Barack finnst gaman að leika sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harmleikir hinstu áranna.

í stórfjölskyldu liðinna alda upplifði allt heimilisfólkið eðlilega framvindu lífsins og kynslóðaskiptanna. Fæðingar barnanna og umönnun þeirra fór fram á sama stað og umönnun hinna elstu þar til yfir lauk.

Vitanlega var ekki tækninni fyrir að fara. Dauðinn barði að dyrum inni á heimilunum jafnt hjá ungum sem öldnum.

Saman gengu kynslóðirnar sinn veg og ekki ríkti sú firring gagnvart dauðanum, sem er svo rík í okkar "fullkomna velferðarþjóðfélagi."

Dauðinn gat verið næstum daglegt brauð, afleiðing af slæmum húsakynnunum og ófullkomnum lækningum og umhirðu. En það bjuggu þó allir saman við sætt og súrt og kynslóðirnar umgengust hver aðra daglega frá vöggu til grafar.

Síðustu árin, mánuðina og dagana þurfti enginn að þola einsemd í þessu samfélagi líkt og hendir svo marga aldna í okkar samfélagi sem er þrátt fyrir kreppu svo óendanlega miklu ríkara en samfélög fyrri alda.

Erfitt er að leggja dóm á ástæður sjálfsmorðs aldraðra feðga í Kaupmannahöfn. Hvernig sem því er varið er vonandi að þeir hafi ekki dáið til einskis, heldur leitt athyglina að því sem miður fer varðandi aðbúnað aldraðra.

Það er hart fyrir þá sem fyrir því verða, að berjast síðustu dagana einmana og þjáðir og vera ekki einu sinni sveiað.


mbl.is Feðgar frömdu sjálfsmorð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveikjum eld, kátt hann brennur!

Það eru vissar fréttir á hverju vori, rétt eins og kom lóunnar, að sinueldar geysi hér á landi. Það mætti halda að hér á landi sé svipað loftslag og í suðvesturríkjum Bandaríkjanna þar sem hitar eru um 40 stig og þurrkar geysa mánuðum saman.

Ó, nei, þetta er á landi við heimskautsbaug með meðalhita um 6 stig í maí og úrkomu fleiri daga en rignir. En þurru dagarnir eru nógu margir til þess að það er hægt að koma af stað gróðurbruna.

Og þá er það gert vor eftir vor. Það er eins víst og sólin kemur upp í austri.


mbl.is Börðust við eld í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband