3.5.2009 | 21:28
Karlmannatíska í stáli. Fyrir konur. 1. Áhrif flugvéla.
Þessi bloggpistill minn er sá fyrsti af þeim sem fjallar um það sem ég kalla "Karlamannatísku í stáli" og konur hafa kannski lúmskara gaman af að lesa en karlar, því að það getur gagnast þeim næst þegar eiginmaðurinn er eitthvað tregur til að samþykkja það sem þær langar í. Hinir koma síðan eftir hendinni, þetta er bara byrjunin.
Þótt konur komi æ meira við sögu varðandi útlit bíla, sýnir bílasagan allt frá 1933 að karlmenn hafa verið nær allsráðandi í þessu efni og að eltingarleikur þeirra við tískuna hefur kostað mannkynið margfalt meira en kvenfatatískan.
Á miðri síðustu öld var flugið eftirlæti karla, enda voru tugþúsundir þeirra þjálfaðir í heimsstyrjöldinni síðari.
Harley Earl, yfirmaður hönnunardeildar GM var mjög hrifinn af flugvélum. Á auglýsingu hér á síðunni sjáum við P-38 Lightning sprengju- og orrustuflugvélina fljúga yfir Cadillac ´49 fyrir neðan nærmyndina af þessum tímamótaafturenda bílsins.

Sá bíll var talinn sá fyrsti þar sem reynt var að gefa afturendanum aukið vægi í sama mæli og framendanum með því að hafa "ugga" eða "stél" á afturbrettunum. Þetta var helsta einkenni Cadillac næstu 16 ári og sést vel á svarta Kadilakknum hér fyrir neðan ljósleitu Plymmana frá 57.
1956 ákvað Virgil Exner, nýr hönnuður hjá Chrysler, að hrista upp í dauflegum og illa seljanlegum bílum verksmiðjanna með því að taka upp svonefnt "Forward look" en það þýddi, að framendinn hallaði fram eins og bíllinn vildi ólmur æða áfram og aftast á honum voru æsileg stél.
1957 setti hann allt á annan endann með æðislegustu bíluum yfir alla línuna sem sést höfðu vestra. "Allt í einu er komið 1960!" var hrópað í auglýsingum um "Wirgile Exners finned wonders."
Keppinautarnir brugðust hart við og hámarki náðu áhrif flugvélanna á bíla 1959 með Cadillac með hæstu stél allra tíma og Chevrolet með "kattarauga" stélum. Í laginu "Kappakstur" frá þessum tíma segir: "Ég keyrði´á mínum Kadillakk með krómi slegin stél..."
Því var haldið fram í auglýsingum að stélin minnkuðu loftmótstöðu og gerðu bíla stöðugri en þetta var auðvitað skrum, - stélin þyngdu bílinn og gerðu ekkert gagn nema sem viðmiðun fyrir bílstjórann að sjá afturhorn bílsins.
Eins og alltaf er raunin í tískubylgjum enda þær ævinlega með því að farið er yfir strikið og ekki verður hægt að halda áfram, heldur að vinda ofana af og fara til baka. Stélin lækkuðu og hurfu loks á næstu árum og hafa ekki sést síðan.
Meira að segja framrúður flugvéla höfðu áhrif. Flugvélar höfðu strax um 1940 aftursveigðar framrúður og hafa ekkert breyst siðan. Gula flugvélin er Piper J5 frá 1943.
1954 tók Harley Earl upp fyrstu aftursveigðu framrúðurnar á Oldsmobile og Cadiallac og árið eftir kepptust allir við að innleiða þær.
Myndin fyrir neðan gulu flugvélina er af Cadillac ´54 með P-38 stéli og aftursveigðri rúðu. Þar fyrir neðan er afturendi á Ford´57 með afturljósum sem líkja eftir afturbrennara á þotum, en þetta var einkenni hjá Ford frá 1951-61. Hámarki náði þessi flug-tískubylgja 1959. Þá voru stélin að verða hæsti punktur sumara bíla og rúðurnar orðnar svo aftursveigðar og jafnvel margbognar á sumum bílum að erfitt var að komast inn í þá án þess að reka hnén í. Þær hurfu því á aðeins tveimur árum ! Áhrif frá skrúfunum og vélarhlífunum framan við stjörnuhreyfla flugvélanna á þessum tíma skiluðu sér til bílanna. Hér fyrir neðan sjáum við Cessna 195 fyrir ofan Ford´49 og Studebaker 1950. Það eina sem vantar á bílana eru flugvélarskrúfur !
Í dag hlæjum við að framrúðu og stéluggum Cadillac 1959. Ég hefði samt ekkert á móti því að varðveita einn bleikan sem vitni um hámark bruðls og eftirsóknar eftir því að vera "in."
Í laumi myndi ég samt dást að bílunum frá Chrysler 1957 eins og Plymouth Fury hér fyrir ofan og minnast þess hvað mér fannst þeir mikið æði. Exner lét framrúðurnar aldrei fara úr böndunum þótt stélin færu það að lokum.
Hann hafðí ekki hugsað slagorðið "Allt í einu er komið 1960 !" til enda og fékk það í hausinn árin 1960 til 61 þegar hann var orðinn læstur inni í tísku sem var komin aftur fyrir 1960 og hægt að hrópa: "Allt í einu er komið 1957!"
Þá var stéla og rúðutískan orðin gamaldags og karlmenn leituðu að nýju "lúkki", á sama hátt og konur sóttu í hina nýju tísku túberuðu hárgreiðslunnar sem blés út höfuð þeirra á svipaðan hátt og stélin höfðu blásið bílana út.
Það er við hæfi að enda þessa myndasyrpu í bloggipistli þessum með mynd af ljósleitum Cadilakk ´59."Brálæðislega geðveikur bíll" - ekki satt !
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2009 | 16:26
Höldum í foreldrisnafnasiðinn.
Þegar litið er yfir nöfn þeirra sem fara til Moskvu sést í hnotskurn atriði, sem sýnist ekki stórt, en er þó eitt af því sem við Íslendingar getum verið stoltir af á þessum tímum þegar okkur veitir ekki af slíku.
Þar á ég við íslenska nafngiftasiðinn að hver einstaklingur kenni sig við foreldri sitt en ekki ætt. Þessi siður hefur lúmska þýðingu hvað snertir huglæg áhrif.
Á tímum jafnréttisbaráttu er ekki fólgið jafnrétti í þeim erlenda sið að kona taki upp ættarnafn manns síns við giftingu. Íslenski siðurinn tryggir jafnrétti kynjanna að þessu leyti en felur hins vegar í sér annað misræmi, þá hefð að hver einstaklingur kenni sig við föður.
Þetta er arfleifð karlaveldis og ekki skynsamlegt því að móðernið er mun áreiðanlegra. Þegar Heiðar Helguson varð þekktur bæði hér og erlendis, hljómaði nafn hans í fyrstu svolítið framandi hér heima en nú sést að slík nöfn venjast bara mjög vel.
Ég verð alltaf stoltur erlendis þegar ég reifa íslenska nafnasiðinn á þessum nótum og sé og finn þá aðdáun sem hann vekur oft, þegar maður les út úr andliti viðmælandans: "Af hverju er þetta ekki svona hjá okkur?"
Að sjálfsögðu á fólki að vera það frjálst hvort það vill taka upp ættarnöfn, sem mörg hver eru falleg og auk þess byggð á aðstæðum sem gera þau eðlileg.
En eðli máls samkvæmt getur þróun í þá átt orðið til þess að drepa hinn frábæra íslenska nafnasið smám saman.
Önnur lúmsk hætta steðjar að íslenska nafnasiðnum, en það er sú venja sem hefur smám saman myndast, að skíra börn tveimur nöfnum. Við það vill nafn foreldrisins falla út, samanber fréttina um fólkið sem fer til Moskvu.
Hvers son er Friðrik Ómar ? Það kemur ekki fram frekar en venjulega en hann er reyndar Hjörleifsson.
Mér þykir vænt um að í fréttinni er greint frá föðurnöfnum annarra þátttakenda en það eru ekki allir sem vita um fullt nafn þeirra. Sumir blaðamenn hefðu látið nægja að nefna Heru Björk og sleppa föðurnafninu.
Það var að yfirlögðu ráði til að styðja foreldrisnafnasiðinn að öll börn okkar hjóna, sjö að tölu, heita einu nafni hvert Ég hefði gjarna vilja ganga lengra og kenna þau öll við móður sína. En þá hefði strax myndast sá blær á nöfnum þeirra að móðir þeirra væri einstæð móðir.
Þetta er að breytast hægt og bítandi sem betur fer og ég kemst alltaf í gott skap við að heyra nöfn eins og Lóa Pind Aldísardóttir og Heiðar Helguson.
Það er skiljanlegt að þegar nöfn einstaklings og foreldris eru algeng sé bætt við öðru nafni svo alnafnarnir verði færri. Jón Þ. Ólafsson, Gylfi Þ. Gíslason, Árni Páll Árnason, Olga Guðrún Árnadóttir en ekki Jón Ólafsson, Gylfi Gíslason og Guðrún Árnadóttir.
Bræðurnir Arnór og Ólafur Hannibalsson þurfa þess ekki með.
Með því að fleiri taki upp móðurnöfn verður minni þörf á að hafa eiginnöfnin fleiri en eitt.
Það verður ævinlega að huga fyrst og fremst að hagsmunum barnanna við nafngiftir en stundum finnst mér foreldrar ekki taka nægt tillit til þess.
![]() |
Á leið til Moskvu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.5.2009 | 05:16
Verður að hafa hraðar hendur.
ESB-deilan hefur háð íslenskum stjórnmálum, klofið alla flokka og þvælst fyrir. Nú verður að höggva á þennan hnút hið snarasta, koma málinu beint í hendur þjóðarinnar og láta hana afgreiða það en snúa sér á meðan af öllu afli að því að leysa málin sem brenna á þjóðinni, hversu sársaukafullar og óvinsælar sem nauðsynlegar ráðstafnir kunna að verða.
Strax síðasta haust ráðlagði Göran Persson okkur, reynslunni ríkari frá kreppunni í Svíþjóð á níunda áratugnum, að taka á afleiðingum hrunsins strax og af fullum þrótti en ekki að fresta óhjákvæmilegum aðgerðum.
Núverandi stjórn er með þingmeirihluta og hefur enn meirihlutastuðning í skoðanakönnunum og því getur hún ekki vikist undan þessu. Ef kjarkur hennar bilar núna verður hún fljót að lenda í minnihluta meðal þjóðarinnar eins og fyrri stjórn og ný Búsáhaldabylting mun sigla í kjörfarið.
Á sama tíma verður að gera tafarlausar ráðstafanir áður en það er of seint og sýna áræði. Vextina verður að keyra niður til samræmis við núverandi verðbólgu, - það er skaðlegt viðmið að láta hálfs árs verðbólguskot vera að þvælast enn inn í útreikningum þegar verðbólgan hefur þó minnkað síðustu mánuði.
Með því að halda þessari liðnu verðbólgu inni er verið að lengja áhrif hrunsins og gera málin verri viðfangs.
Meira en hálft ár er liðið frá hruninu og enn hefur ekki tekist að leiða allan sannleikann fram um stöðu allra mála.
Borgarstjórn Reykjavíkur náði sögulegri lægð í álit almennings á síðasta ári. Hún er að læra af því og þótt þar sé meirihluti við völd hafa meirihluti og minnihluti komið sér saman um að vinna eins náið saman að lausn erfiðra mála og unnt er.
Þetta er til sóma fyrir bæði meirihluta og minnihluta. Þetta hugarfar verður að koma á hjá nýkjörnu Alþingi.
Það er nöturlegt ef hlutirnir eiga eftir að snúast þannig við að Alþingi fari niður á plan borgarstjórnar fyrir ári á sama tíma og borgarstjórn hefur tekið sér tak.
![]() |
Stjórnarsáttmáli í smíðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.5.2009 | 04:52
Og Pacquiao gjörsigraði Hatton.
Ef sigur Barcelona var sætur á erfiðum útivelli var sætur var magnaður sigur Manny Pacquiao á Ricky Hatton í hnefaleikum næturinnar ekki síður sætur.
Ricky Hatton, ástmögur Manchesterborgar, kom með sjálfan Tom Jones til Las Vegas til að syngja breska þjóðsönginn og stuðlög Manchester hljómuðu um troðfullan risasal þar sem þúsundir voru utan salar að fylgjast með á skjám.
Ricky hafði að baki glæsiferil með aðeins einu tapi, og það var gegn besta hnefaleikara heims á þeim tíma, Flyod Mayweather, og ekki fyrr en vel var liðið á þann bardaga.
Manny "Packman" hafði að vísu unnið Oscar De La Hoya í sjö lotum, en mönnum bar saman um að Gulldrengurinn hefði ekki verið hinn sami og áður var.
Búist var við því að árásarhraði og höggþungi Hattons ásamt skæðum skrokkhöggum í návígi myndu gera Manny lífið leitt og svo virtist ætla að verða fyrstu mínúturnar.
En þá byrjaðu yfirgenglegur hraði, hreyfanleiki, viðbragðsflýtir og yfirvegun Pacquiaos að koma í ljós og hann sló Hatton í gólfið með svo snöggu höggi að maður sá það ekki fyrr en í endursýningu. Hatton hafði aldrei á ferlinum lent í neinu þvílíku og mátti þakka fyrir að sleppa inn í mínútuhléð eftir lotuna.
En það var til lítils. Pacquiao afgreiddi hann strax eftir hléð með leiftursókn sem endaði með svo snöggum og hörðum vinstri krók að Hatton lá lengi steinrotaður í striganum.
Bob Arum, sá gamalreyndi umboðsmaður, sagði eftir bardagann að Pacquiao væri á leiðinni að verða mesti bardagamaður allra tíma!
Hann er aðeins 31. árs gamall svo að tíminn verður að leiða í ljós hvort þessi dirfskufulli spádómur hins gamla refs á eftir að sannast.
En Manny Pacquiao gaf þeim sem á horfðu í nótt sjaldgæfa kennslustund í boxi eins og það verður allra best.
Þess utan eru hógværð, lítillæti og hugarró þessa mikla afreksmanns nóg til þess að lyfta honum hátt yfir aðra íþróttamenn um þessar mundir, alveg burtséð frá íþróttinni sem hann stundar.
![]() |
Barcelona gjörsigraði Real Madríd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)