Og Pacquiao gjörsigraði Hatton.

Ef sigur Barcelona var sætur á erfiðum útivelli var sætur var magnaður sigur Manny Pacquiao á Ricky Hatton í hnefaleikum næturinnar ekki síður sætur.

Ricky Hatton, ástmögur Manchesterborgar, kom með sjálfan Tom Jones til Las Vegas til að syngja breska þjóðsönginn og stuðlög Manchester hljómuðu um troðfullan risasal þar sem þúsundir voru utan salar að fylgjast með á skjám.

Ricky hafði að baki glæsiferil með aðeins einu tapi, og það var gegn besta hnefaleikara heims á þeim tíma, Flyod Mayweather, og ekki fyrr en vel var liðið á þann bardaga.

Manny "Packman" hafði að vísu unnið Oscar De La Hoya í sjö lotum, en mönnum bar saman um að Gulldrengurinn hefði ekki verið hinn sami og áður var.

Búist var við því að árásarhraði og höggþungi Hattons ásamt skæðum skrokkhöggum í návígi myndu gera Manny lífið leitt og svo virtist ætla að verða fyrstu mínúturnar.

En þá byrjaðu yfirgenglegur hraði, hreyfanleiki, viðbragðsflýtir og yfirvegun Pacquiaos að koma í ljós og hann sló Hatton í gólfið með svo snöggu höggi að maður sá það ekki fyrr en í endursýningu. Hatton hafði aldrei á ferlinum lent í neinu þvílíku og mátti þakka fyrir að sleppa inn í mínútuhléð eftir lotuna.

En það var til lítils. Pacquiao afgreiddi hann strax eftir hléð með leiftursókn sem endaði með svo snöggum og hörðum vinstri krók að Hatton lá lengi steinrotaður í striganum.

Bob Arum, sá gamalreyndi umboðsmaður, sagði eftir bardagann að Pacquiao væri á leiðinni að verða mesti bardagamaður allra tíma!

Hann er aðeins 31. árs gamall svo að tíminn verður að leiða í ljós hvort þessi dirfskufulli spádómur hins gamla refs á eftir að sannast.

En Manny Pacquiao gaf þeim sem á horfðu í nótt sjaldgæfa kennslustund í boxi eins og það verður allra best.

Þess utan eru hógværð, lítillæti og hugarró þessa mikla afreksmanns nóg til þess að lyfta honum hátt yfir aðra íþróttamenn um þessar mundir, alveg burtséð frá íþróttinni sem hann stundar.


mbl.is Barcelona gjörsigraði Real Madríd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já svakalegur þessi filipseyingur.   Heyrði þjálfara Hattons segja honum að hreyfa sig meira til hliðanna í lotuhléinu en hann fór ekki nógu mikið eftir því, eflaust smá ruglaður eftir fyrsta höggið kannski og hugsunin ekki í 100% fókus.

Ari (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband