8.5.2009 | 14:48
Mismunandi upplifun.
Fróðlegt er að bera saman mismunandi viðhorf Þorvaldar Gylfasonar og Ögmundar Jónassonar til Aþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Þorvaldur lýsir AGS í blaðagrein sem ígildi Vogs þar sem fíklar fara í meðferð til þess að komast á réttan kjöl. Vogur er styrktur af almennafé til þess að þeir, sem sjá fram á það að fara í þrot vegna fíknar sinnar, geti komist á hæli, þar sem þeir verða að vísu að gangast undir harðar reglur breyttrar hegðunar, sem jafngilda tímabundinni frelsissviptingu.
En þeim er jafnframt ljóst að hin leiðin, að halda áfram á sömu braut, er ófær.
Ég hef áður bloggað í þessa veru varðandi þá stöðu sem við Íslendingar erum komnir í gagnvart alþjóðasamfélaginu.
Þorvaldur getur þess ekki að jafnfram tímabundinni frelsissviptingu, afvötnun og endurhæfingu, kemur oft til beinn stuðningur, til dæmis frá vinnuveitanda sem sér til þess að fíkillinn fá greidd laun á meðan á meðferðinni stendur, rétt eins og hann hefði orðið veikur af einhverjum öðrum sjúkdómi og orðiða að fara á spítala.
Harðneskja Breta og skilningsleysi ýmissa annarra erlendra aðila er í hrópandi ósamræmi við þann velvilja, skilning og stuðning sem sá, sem fer á Vog, fær yfirleitt frá umhverfi sínu.
Ögmundur upplifir AGS sem illskeytta handrukkara alþjóðlegra gróðaafla og vondra kapítalista.
Þorvaldur vann á sínum tíma hjá AGS og þekkir þar nokkuð til mála. Ég hallast frekar að því sem hann segir.
Það er rétt hjá Ögmundi að fjármálakerfi heimsins er kapitalískt. Honum finnst það vont og þá spyr maður hvað hann vilji í staðinn. Sósíalískt kerfi?
Ögmundur trúir því vafalaust á gagnsemi byltingar í fjármálakerfi heimsins. Gallinn er bara sá að ekki er hægt að sjá minnstu möguleika á því að því verði umbylt á þann hátt sem Ögmund dreymir um.
Þótt nú sé unnið að því af krafti að lagfæra það sem fór úrskeiðis verður fjármálahagkerfi heimsins áfram í meginatriðum kapitalískt, sama hvað Ögmundur og hans trúbræður vilja.
Að sumu leyti minnir afstaða Ögmundar mig á viðhorf fíkils sem finnst allir vera vondir við sig og finnur allt að öllum nema sjálfum sér.
Fíkillinn, sem fer á Vog, hefur áttað sig á því, að hann sjálfur er meginorsök vandræðanna, ekki umhverfið eða aðrir. Þótt honum sé í nöp við umhverfið og þjóðfélagið og getir fundið því flest til foráttu, verður hann að sætta sig við það að þurfa að leita hjálpar þess þegar honum reynist um megn að ráða sjálfur við vandamál sín.
Óraunhæf sjónarmið Ögmundar eru meginástæða þess að ég get ekki gengið til liðs við Vinstri græna þótt innan raða þeirra sé fólk eins og hann, sem ég met persónulega mjög mikils og eru frábærir samherjar mínir í umhverfismálum.
Við höfum svipaðan skilning á eðli stórfyrirtækja sem ásælast íslenskar auðlndir og fara illa með þjóðir og byggðalög í harðsvíraðri sókn eftir gróða. Okkur dreymir um betri heim og viljum leggja okkar af mörkum til að stöðva þá rányrkju og græðgi sem mun bitna hart á afkomendum okkar.
Við erum sammála um að jafnrétti til frelsis gildi ekki aðeins um núlifandi kynslóð, heldur líka jafnrétti á milli kynslóða. En það er óraunhæft að láta eins og að við getum farið út úr alþjóðasamfélaginu rétt si svona, og orðið að eins konar Norður-Kóreu Evrópu.
Því miður, Ömmi góði frændi, - getum við ekki orðið sammála um alla hluti þótt fáa viti ég vini betri eða betri menn en þig.
![]() |
Heimslögregla kapítalismans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
8.5.2009 | 14:14
Töluðu við "skrílinn."
Þegar mótmælin voru sem fjölmennust í janúar í vetur töluðu sumir stjórnmálaleiðtogar um mótmælendur sem "skríl."
Látinn var í ljós efi um að fólkið væri fulltrúar þjóðarinnar og talað niður til mótmælenda. Nú mun sjálfsagt einhverjir tala um "fámennan skríl" eða "örfáa öfgamenn."
Þannig var talað um mótmælendurna sem sýndu aðfáunarvert úthald og þrautseigju, þegar þeir mótmæltu Kárahnjúkavirkjun daglega veturinn 2002-2003.
Talað var háðslega um "örfáa öfgamenn" og "atvinnumótmælendur."
Sérkennilegt orðaval í ljósi þess að þetta fólk var ekki launum eins og hinir raunverulegu "atvinnumeðmælendur" sem fá margir hverjir hálaun á kostnað almennings fyrir það að mæla með þeim aðgerðum og framkvæmdum sem það er í forsvari fyrir.
En þrautseigja "atvinnumótmælendanna" bar þó um síðir þann árangur að við Ráðhús Reykjavíkur var haldinn langfjölmennasti mótmælafundurinn til þess dags, vel á annað þúsund manns komu þangað til að mótmæla því þegar borgarstjórn gaf grænt ljós á mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar.
Aðgerðirnar í dag voru illa auglýstar og á slæmum tíma. Þær gefa alranga mynd af þeirri undiröldu sem er í þjóðfélaginu.
Þegar Jökulsárgangan var farin í september 2006 fóru 15 þúsund manns bónleið til búðar að Alþingishúsinu. Þótt auglýst hefði verið að við húsið yrði afhentur áttblöðungurinn sem borinn hafði verið í gefnum borgina, lét enginn ráðamaður sjá sig þar til þess að tala við "skrílinn."
Í dag létu Jóhanna og Steingrímur þó svo lítið að tala við "skrílinn" við Stjórnarráðshúsið þótt fámennur væri.
Það var skynsamlegt og rétt hjá þeim. Þótt þetta hafi ekki verið margt fólk ber þess að gæta, að það var heldur ekkert svo margt fólk sem kom á fyrstu samkomurnar á Austurvelli, tónleika Bubba og félaga og síðan á sívaxandi mótmælafundi undir forgöngu Harðar Torfasonar.
Ef undiraldan er þung brýst hún um síðir upp á yfirborðið. Ágæt grein Einars Björns Bjarnasonar í Morgublaðinu í dag varpar ljósi á það hve umfang vandans er mikið og í hve miklu tímahraki og mannahallæri stjórnvöld eru.
Það ætti að verða brýning fyrir oddvita ríkisstjórnarinnar sem buðu fulltrúum "skrílsins" inn til sín í dag, brýning til að spýta í lófana.
![]() |
Buðu mótmælendum til viðræðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.5.2009 | 12:14
Tók mikla áhættu og tapaði.
Alex Ferguson er ekki einn um það að hafa sýnst brottvísun Darren Fletchers hafa verið réttmæt. Þetta sýndist mér og mörgum öðrum þangað til búið var að sýna atvikið nógu oft til þess að sjá að eitt ógnarsmátt sekúndubrot snerti fótur Fletchers boltann.
Á hitt verður að líta að miðað við stöðuna og þó einkum stöðu sína tók Fletcher allt of mikla áhættu með því að reyna að teygja fótinn á þennan hátt þvert fram fyrir mótherjann í þeirri að því er virtist alltof veiku von að ná að snerta boltann.
Dómarinn er hluti af vellinum og var ekki í aðstöðu til að sjá þetta fremur en svo margir aðrir.
Það sem maður sá var ævintýraleg, glæfraleg og fífldjörf tilraun sem mistókst. Þótt nákvæmar endursýningar sýni annað er niðurstaða mín sú, að Fletcher var að vísu refsað grimmilega, ranglega miðað við tæknilegar upplýsingar eftirá en að nokkru leyti verðskuldað vegna þeirrar miklu áhættu sem hann tók.
![]() |
Er svartsýnn fyrir hönd Fletchers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.5.2009 | 12:05
Enginn betri en keppinautarnir leyfa.
Ofangreint máltæki er grimmur sannleikur íþróttanna og lífsins og það skynjar Eiður Smári Guðjohnsen. Í framlínu Barcelona eru menn sem eru meðal allra bestu leikmanna heims. Það þarf mikið til að taka stöðu þeirra.
Aðeins ef þeir meiðast er von um að komast að einhverju marki inn á völlinn. Þetta er bara svona.
Mörg dæmi eru um hliðstæður.
Á sjöunda og áttunda áratugnum var mesta blómatímabilið í þungavigt hnefaleikanna. Menn eins og Henry Cooper, Jerry Quarry, Ken Norton, Ernie Shavers og Ron Lyle hefðu getað orðið óumdeilanlegir heimsmeistarar á hvaða öðrum áratugum sem var.
En Liston, Ali, Frazier og Foreman leyfðu það ekki.
Það er hægt að nefna nöfn nokkurra frábærra körfuboltamanna á fyrri hluta síðasta áratugs liðinnar aldar sem hefðu getað verið óumdeilanlega bestir hvenær sem var á öðrum tíma.
En Michael Jordan leyfði það ekki.
Alfreð Hitschcock hefði átt að fá Óskarsverðlaun en fékk þau ekki. Hann var svo óheppinn að ævinlega var einhver önnur mynd á ferðinni einmitt á óheppilegasta tíma fyrir hann, sem hreppti verðlaunin.
Eiður Smári verður að taka erfiða ákvörðun og hann hefur ekki mikinn tíma því að í íþróttum er blómatímabil hvers manns ekki langt.
![]() |
Eiður vill fara frá Barcelona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)