10.6.2009 | 15:12
Endurtekur sagan frá 1771 sig?
Í Landsnefnd svonefndri sem Kristján 7. skipaði 1771 til að standa fyrir umbótum á Íslandi var einn erlendur maður.
Umbótaöfl í Kaupmannahöfn fengu því til leiðar komið að Norðmaður sem var formaður nefndarinnar. Það átti að tryggja að nefndinni tækist að framfylgja umbótatillögum konungs sem hann setti fram í tíu liðum.
Niðurstaðan varð sú að Norðmaðurinn var ofurliði borinn af innlendum ráðamönnum og nær ekkert var gert í málinu.
Þetta seinkaði framförum á Íslandi um meira en heila öld. Þjóð í hlekkjum hugarfarsins blæddi.
Það yrði eftir öðru ef eini útlendingurinn, sem fenginn hefur verið til að fara ofan í saumana á efnahagshruninu yrði hrakinn frá störfum.
Í fámennis- og klíkuþjóðfélagi okkar hefði eina vonin verið sú að algerlega óháðir erlendir aðilar stjórnuðu rannsóknum og aðgerðum til að hreinsa hér út, hefðu um það úrslitavald og bæru á því ábyrgð.
Ætlar sagan frá 1771 að endurtaka sig?
![]() |
Eva Joly íhugar að hætta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
10.6.2009 | 12:39
Umhverfið virðist engu skipta.
Morgunblaðið hefur fylgst vel með djúpboruninni í Vítismóum. Er það vel. Aldrei eru þó sýndar myndir af henni.
Myndin hér efst sýnir hluta borbúnaðarins og hvernig hann kallast á við Leirhnjúk, sem er í baksýn skammt frá.
Myndirnar má stækka og láta þær fylla út í skjáinn með því að smella á þær í tveimur áföngum.
Næst efsta myndin sýnir hvernnig borbúnaðurinn blasir við frá bílastæði ferðamanna sem ætla að ganga að Leirhnjúki.

Á mynd númer þrjú sést frá víðu sjónarhorni afstaða bílastæðisins til vinstri, borstaðarins og Leirhnjúks, en næst okkur á myndinni er heljarinnar gufuleiðsla sem lögð hefur verið frá borholu ofan við sprengigíginn Víti, sem kallast þannig á við Leirhnjúk, að djúpborunarstaðurinn er þar á milli.
Holurnar sem kallast á við Leirhnjúk og Víti eru nefnilega á þremur stöðum.
Núna heyrist ekki mannsins mál fyrir hávaða frá blásandi holu við Víti.
Á fjórðu mynd talið ofan frá er horft yfir holuna í átt að Víti og Leirhnjúki.
Á fimmtu myndinni er horft yfir gíginn sjálfan yfir til ferðamannanna sem eru á barminum hinum megin við hann.
Nú er stefnt að því að innramma þetta svæði allt í virkjanamannvirki.
Líklega þætti það ekki sjálfsagt mál að innramma Kerið í Grímsnesi inn í einskonar Hellisheiðarvirkjun við gíginn og er sá gígur þó stórum minna virði en gígarnir Víti við Kröflu og Víti í Öskju.

En þetta þykir sjálfsagt þarna fyrir norðan.
Er þó verið að rótast um á svæði sem kalla má heimsundur og stefnt að því að leggja það allt undir virkjanir.
Þetta er eini staðurinn á jörðinni þar sem hægt er að upplifa "Sköpun jarðar og ferðir til mars."
Ég er með kvikmynd í smíðum með því nafni.
Ástæðan er sú að í níu eldgosum 1975-84 færðust meginlandsflekar Evrópu og Ameríku hvor frá öðrum og hraun fossaði upp um sprungur í landinu.
Teknar voru af því myndir sem nota má til að setja sig inn í aðstæður og ganga ofan á gjár þar sem Evrópa er á aðra hönd en Ameríka á hina og ganga fram á stað þar sem hraunið þrýstist upp úr sprungunni og fellur niður í hana á víxl auk þess sem það breiðir úr sér og myndar nýtt land.
Alþjóðasamtök áhugafólks og kunnáttumanna um ferðir til mars hafa valið svæðið sem æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.
Þetta fólk mun þó vafalaust draga þetta til baka ef þetta verður allt virkjað. Marsfarar æfa sig ekki innan um borholur, gufuleiðslur, háspennulínur og stöðvarhús.
Þetta svæði tekur fram sjálfri Öskju sem hefur öðlast sess og aðdráttarafl vegna þess að þar þykja vera aðstæður sem gera fólki kleift að upplifa sköpun jarðar og ferðir til tunglsins eftir að tunglfararnir komu þangað 1967.
Þar skortir hins vegar allar myndir af umbrotunum og engin eru þar merki um það hvernig meginlöndin færðust hvort frá öðru.
Í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum skapar miðstöð um skógareldana þar 1988 hundruð starfa í miðstöð sem helguð er skógareldunum og nýtir sér myndir af þeim.
Mun magnaðri miðstöð mætti reisa undir nafninu "Sköpun jarðar og ferðir til mars" fyrir norðan og byggja á náttúruverndarnýtingu til að skapa hundruð starfa í stað þess að umturna svæðinu til að skapa ígildi 10-20 starfa í álveri í 70 kílómetra fjarlægð.
Greinilegt er að gildi umhverfisins virðist engu skipta á svæðinu Leirhnjúkur-Gjástykki.
Í fyrstu virtist djúpborunarholan ekki valda miklu raski en þegar snjóa er að leysa kemur í ljós að jarðýtur hafa farið þar hamförum.
Hluti þess sést á myndum fyrir neðan myndina af Víti.
Þar fyrir neðan er mynd tekin ofan við borholusvæðið fyrir ofan Víti og sést glytta í Leirhnjúk í gegnum gufuna en djúpborunarholan dylst á bak við gufuna.
Ég veit ekki hve oft ég hef fjallað um það sem þarna er að gerast án þess að það veki hin minnstu viðbrögð.
Þetta er eins og að klappa í stein, slík er tilbeiðslan við álguðinn.
Ég mun þó ekki hætta umfjöllun um þetta, hversu vonlaus sem hún kann að sýnast.
Þeir sem eru orðnir leiðir á henni geta einfaldlega sleppt því að kynna sér hana og haldið áfram að víkja þessum málum frá sér.
P. S.
Vegna athugasemda þess efnis að þetta sé svæði sem ekki sé eftirsjá að ætla ég að bæta við myndum af því fyrir neðan myndirnar af rótinu við djúpborunarholuna.



![]() |
Enn eru erfiðleikar við djúpborun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)