Vorferð á Vatnajökul - þriðji dagur.

Það var byrjað að létta til á hvítasunnudag, einkum á norðaustanverðum Vatnajökli og því ákveðið að fara í Kverkfjöll þar sem fjórir leiðangursmenn ætluðu að vera við mælingar í nokkra daga. dscf5294.jpg

Vélarhlífin var tekin af Súkkunni til að auka kælingu en ég kem að því máli síðar í sérstökum pistli.

1. Færið var gott á miðjum jöklinum og áð þegar komið var inn í heiðríkjuna sem ríkti á norðaustanverðum jöklinum. 

(Hægt að stækka myndirnar og láta fylla út í allan skjáinn með því að smella á þær í tveimur áföngum. Númera myndirnar eftir röð, talið að ofan. 

 

2. Brátt blasti "djásnið í kórónu landsins" við, - ekki amalegt að stansa á nokkrum stöðum, bara til að taka myndir og njóta útsýnisins.

Á næsteftstu mynd er stefnt niður að Kverkfjöllum og horft til norðurs yfir Efri-Hveradal með Herðubreið í baksýn.

Kverkfjöll eru þriðja hæsta fjall landsins, rísa 1920 metra yfir sjávarmál. 

dscf5298.jpg

 

3. Útsýnið er líka mikið til vesturs yfir Dyngjujökul og Trölladyngju.dscf5297.jpg

 

 

 

 

4. Skálinn efst í fjöllunum er lítill en stendur á fallegum stað. 

Þar var áð og haldið í sleða- göngu- og snjóbílsferðir um nágrennið. dscf5304.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

5. Frá skálanum blasir við eystra lónið í fjöllunum, sem hlaut nafnið Gengissig þegar það fór að sýna mönnum kúnstir við ris og sig, líkt og íslenska krónan. dscf5330.jpg

Fyrir tíu árum stóð þannig á að íshrafl var við fjörur og á fjörum vegna íshruns í lónið en innan um íshraflið glytti í sjóðandi hveragöt.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

dscf5310.jpg

 

 

 

6. Þannig var það ekki núna en samspil íss og jarðhita bauð samt upp á sjónarspil.  

 

7. Gufurnar stíga upp úr hverasvæðinu með Vatnajökul í baksýn.  

 

 

 

 

 

dscf5323.jpg

 

 8. Lónið fylgir íslensku krónunni um þessar mundir og hefur lækkað í því. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

DSCF5334

9. Farið var til mælinga í Efri-Hveradal sem er stórkostlegur staður að öllu leyti. Horft er til norðurs í gegnum hamrahliðið sem markar skil Neðri- og Efri-Hveraalds. Mælingamenn eru neðst á myndinni.  

 

 

 

 

10.  Horft til suðurs eftir Efri-Hveradal. 

Fólk stendur í gufunni frá hverunum á botni dalsins en fjær sést í norðurenda lónsins innst í dalnum og Vatnajökull gnæfir yfir í baksýn.

Lónið hvarf alveg í nokkur ár en kom aftur.  

 

Það má kalla Kverkfjöll og Grímsvötn systur að því leyti að hvergi í veröldinni sést eins stórfenglegt sjónarspil átaka elds og íss.

Í ljóðinu "Kóróna landsins" er þetta erindi um Kverkfjöll: 

DSCF5338

 

Endalaus teygir sig auðnin, svo víð, - 

ögrun við tækniheim mannsins. 

Kaga við jökul með kraumandi hlíð 

Kverkfjöll í hillingum sandsins. 

Ísbreiðan heyr þar sitt eilífa stríð

við eldsmiðju darraðardansins. 

Drottnandi gnæfa þau, dæmalaus smíð, 

djásnið í kórónu landsins. 

 

Seytlar í sál 

seiðandi mál: 

Fjallanna firrð, 

friður og kyrrð. 

 


Flugvélarlagaða bensínstöðin.

Ég man vel eftir því hvað bensínstöðin að Laugavegi 180 var allt öðruvísi og nýtískulegri en aðrar bensínstöðvar þegar hún var reist. Á þeim tíma voru hönnuðir mjög hrifnir af flugvélum og sást það til dæmis vel á bílum fram til 1960.

Þegar horft var á bensínstöðina úr vestri leit hún út eins framendi á flugvél þar sem stöðin sjálf var framendi flugvélarskrokksins með tvo vængi, sem bílunum var ekið undir.

Bensínstöð með þessu lagi hef ég hvergi séð í öðrum löndum.

Illu heilli var þessu gjörbreytt í það horf að gera bensínstöðina sem líkasta öðrum bensínstöðvum í stað þess að endurbæta upprunalegt lag hennar og viðhalda sérstæðu lagi hennar. Þetta hefði aldrei fengið að gerast ef þetta hefði verið kirkja eða opinber bygging og sýnir hvernig menn hafa litið niður á mannvirki á borð við bensínstöðvar sem skjól fyrir óæðri starfsemi.

Hér á landi virðist unnið að því hörðum höndum að gera allar bensínstöðvar og áningarstaði við þjóðvegina eins og gengur og gerist í öðrum löndum. Þetta er orðið þannig að þegar komið er í Staðarskála og helstu bensínstöðvar á Íslandi gæti maður verið í bensínstöð í hvaða landi sem er.

Aðeins einstaka staðir eins og Litla kaffistofan halda velli en hið staðlaða og tilbreytingarsnauða form ryður sér til rúms.

Einhvern tíma rennur upp sá tími að endurnýja þurfi hið 60 ára afmælisbarn dagsins og mig dreymir um að hún verði þá færð í sem líkast form og hún var í upphafi.


mbl.is Fagna 60 ára afmæli bensínstöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glöggt er gests augað.

Robert Wade hefur nú kveðið upp úr með það sem öllum mátti ljóst vera, að samhliða glýjunni um "Íslenska efnahagsundrið" var jafnve enn meiri blekking og glýja í gangi varðandi það að á Íslandi væri minnsta spilling á byggðu bóli í heiminum.

Wade spyr hvernig í ósköpunum hefði verið hægt að komast að jafn fráleitri niðurstöðu um land þar sem allt væri morandi í spilltum hagsmunatengslum og vinatengslum sem sköpuðu sjálfttöku- og oftökustjórnmál, sjálfa kveikju spilltrar einkavinavæðingu bankanna með tilheyrandi afleiðingum.

Ekki bætti úr skák slímseta tveggja stjórnmálaflokka í ríkisstjórn í áraraðir.

Wade leggur til að færir erlendir vísindamenn rannsaki það hvernig þetta gat orðið. Hann hefur þá væntanlega í huga að hægt verði að koma í veg fyrir að einstakar þjóðir komist framvegis upp með það að gefa öðrum þjóðum alranga mynd af raunverulegu ástandi mála hjá sér.

Ég skal nefna eitt lítið dæmi. Fyrir nokkrum árum var gerð alþjóðleg úttekt á því hvernig umhverfismálum væri háttað í löndum heims.

Ísland komst hátt á blað í þessari könnun og það beint í kjölfar mestu umhverfisspjalla sögunnar við Kárahnjúka. Ísland komst hátt á blað þrátt fyrir hina hrikalegu jarðvegseyðingu sem hér hefur viðgengist og stafar á sumum afréttum landsins af því að þeir eru beittir með sauðfé þótt þeir séu ekki beitarhæfir.

Ég bað um skýrsluna hjá Umhverfisráðuneytinu og þegar ég fór að glugga í hana sá ég að í reitnum "ástand jarðvegs" skiluðu Íslendingar skammstöfuninni "NA", sem sé "not awailable."

Íslendingar sögðu blákalt við alþjóðasamfélagið að ekki lægju fyrir gögn um þetta atriði þótt Ólafur Arnalds hefði nokkrum árum áður fengið Umhverfisverðlaun Norðurlanda fyrir rannsóknir sínar á þessu sviði.

Þegar ég gluggaði betur í skýrsluna sá ég að nokkrar aðrar þjóðir, svo sem Króatía og Ukraina höfðu gert það sama og Íslendingar varðandi upplýsingar um ástand jarðvegs. Sameiginlegt var þessum löndun að vera með allt niður um sig í þessum málum.

Í Ukrainu höfðu til dæmis orðið stórfelld spjöll vegna Chernobyl-slyssins og voru Íslendingar þarna í hinum versta selskap.

Þöggunin á Íslandi um raunverulegt ástand og einstök málefni á sér slæmar hliðstæður erlendis. Nú eru 20 ár frá atburðunum á Torgi hins himneska friðar. Í Kína hefur ríkt þöggun um þennan atburð og allt er gert sem unnt er til þess að viðhalda þeirri þöggun.


Allt gengur of hægt.

Göran Persson sem var forsætisráðherra Svía í kreppunni þar snemma á tíunda áratugnum brýndi íslenska ráðamenn síðastliðið haust til að taka slaginn alvarlega og strax og grípa hið snarasta til ítrustu ráðstafana gegn kreppunni.

Nú kemur æ betur í ljós hve það háir okkur að hafa til dæmis ekki tekið strax til hendi í ríkisfjármálunum af fullum þunga. Það er liðið það langt á árið að æ erfiðara verður að ná því markmiði sem nauðsynlegt er í samdrætti ríkisútgjalda á þessu ári, því að 3ja til 6 mánaða tregða er til dæmis innifalin í því að fækka ríkisstarfsmönnum eða breyta kjörum þeirra.

Það eru ekki allir á sömu buxunum og Ögmundur Jónasson að afsala sér sjálfviljugir því sem þeir eiga lagalegan rétt á.

Gjáin er enn opin á milli krafna aðila vinnumarkaðarins og aðgerða Seðlabankans og því allt í uppnámi í kjaramálum.

Róðurinn þyngist og þær óhjákvæmilega óvinsælu og hörðu aðgerðir sem nauðsynlegar eru verða bara enn sársaukafyllri fyrir bragðið.


mbl.is Vextir lækkaðir í 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband