12.7.2009 | 17:39
Hver vill vera í hlutverki Óla skans? Enginn.
Vafasamt er hvort nokkurn tíma verður upplýst um tíðni heimilisofbeldis kvenna gagnvart körlum.
Þetta verður áfram óupplýst stærð og óráðin gáta.
Það er feimnismál fyrir karla að vera undir járnhæl kvenna sinna, samanber vísurnar gömlu um Óla skans sem var "ógnar vesalingur" og var alger andstæða við Völu, konu sína.
Um það skass var sungið: "Vala hans, Vala hans, veit nú hvað hún syngur."
Sem sagt ekki aðeins líkamlegir yfirburðir heldur fyrst og fremst andlegir yfirburðir.
Vala niðurlægði Óla á allan hátt og lét hann heyra það að að hann væri nautheimskur:
"Þú ert naut, þú ert naut, /
þannig hóf hún tölu. /
Óli gaut, Óli gaut /
augunum til völu.
Óli, Óli, Óli skans. /
Voðalegur vargur er hún Vala, kona hans.
Hvaða karlmaður vill viðurkenna að vera í hlutverki Óla skans? Auðvitað enginn. Hann verður hafður að háði og spotti eins og vesalingurinn Óli.
Ég minnist myndskreyttrar útgáfu af textum þar sem var mynd af þeim hjónakornunum.
Mér er enn minnistæð teiknimyndin af þeim hjónum, - ofsahræðslan við Völu sem skein út úr vesalingnum Óla þar sem hann horfði í angist upp til hinnar stórvöxnu konu sinnar.
Það verður varla nema um eitt tilfelli að ræða ef menn leita að játningu karls um það að kona hans beiti hann heimilisofbeldi.
Það verður skýrsla Óla skans og ekkert hægt að gera með hana því að þau hjón eru bæði löngu dauð.
Í Gísla sögu Súrssonar örlar fyrir játningu á því að á bænum þar sem kerlingin, kona Refs bónda, leyndi Gísla undir sér í rúmi sínu, svo að leitarmenn fyndu hann ekki og dræpu hann, hafi hún verið orðlagt skass og vargur sem lét alla í kringum sig finna til tevatnsins ef því var að skipta, - í þetta skipti þá sem komnir voru undir alvæpni að leita að Gísla.
"Veitti hún þeim ágauð (gauð, no. dregið af sögninni að geyja, gelta) svo mikla að þá mátti minni til reka" segir í sögunni.
En í allri hinni óborganlegu lýsingu af einstæðri frekju, vargskap og ágengni kerlingar eru mál þeirra hjóna gerð upp í dásamlega stuttorðri lýsingu sem maður veit ekki enn í dag hvort var háð eða sannleikur: "Með þeim Ref var jafnræði."!
Sem sagt: Aldagamalt feimnismál.
![]() |
Heimilisofbeldi gegn körlum óþekkt stærð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2009 | 02:11
"Spilaborgin", "Hallærisplanið" og "Flóttamannaleiðin".
Í Reykjavík og nágrenni er að finna nokkur mannvirki sem annað hvort hafa öðlastl táknræn nöfn eða munu gera það.
Ofarlega í hugum þess unga íslenska fólks, sem nú verður að flýja land, verður vafalaust hin hrikastóra bygging sem gnæfir yfir allt og alla við Borgartún í Reykjavík og verður tóm að mestu um sinn.

Á meðfylgjandi mynd sést hvernig hún blasir við séð frá Sæbraut.
Hið myndarlega stórhýsi gegnt Höfða, sem hefur hýst mörg fyrirtæki og stofnanir er eins og smáhýsi undir þessu stóra glerskrímsli sem ég vil gefa nafnið "Spilaborgin", tákn um þá spilaborg ímyndaðra verðmæta að mestu, sem hrundi yfir landið í fyrra.
Sjálfur Höfði er eins og dúfnakofi í samanburðinum.
Spilaborgin átti sér hliðstæðu á stríðsárunum og lengi eftir stríð.
Það var vegur sem Bretar lögðu ofan byggða milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsvegar við Rauðavatn og hlaut nafnið "Flóttamannaleið" vegna þess að á þeim tíma voru Bretar á flótta undan öxulveldunum um allan heim, á Balkanskaga, í Norður-Afríku og Malasíu þar sem sjálf Sinagpore féll og 80 þúsund breskir hermenn voru teknir til fanga.
Íslendingar göntuðust með það að leiðin sú arna væri lögð til þess að breska setuliðið ætti flóttaleið frá Reykjavík þegar Þjóðverjarnir kæmu.
Síðar var þessi leið kærkomin "flóttamannaleið" fyrir þá sem vildu forðast lögreglu eða aðra eftirgrennslan.
"Hallærisplanið" þar sem nú er Ingólfstorg hlaut sitt háðska heiti vegna þess að þar þóttu afskiptir karlar í kvennaleit eða konur í karlaleit, fólk í hallæri á þessu sviði, vera í miklum meirihluta.
Í Mývatnssveit kölluðu gárungar ógnvekjandi melöldu sem stefndi inn í Dimmuborgir "Féþúfu" vegna þess að Landgræðslan sóttist eftir fjárstuðningi við að græða hana upp. Það var gert og nú ógnar sandur ekki um sinn Dimmuborgum.
"Spilaborgin" hefur tekið frá mér útsýnið sem ég hafði úr blokkinni minni til Snæfellsjökuls.
Þess vegna er mér það ekki leitt að nefna þessa risabygginu þessu nafni, sem er svo táknrænt fyrir gróðærið sem hrundi eins yfir unga fólkið sem átti að erfa landið en verður nú að gjalda fyrir ruglið sem náði hér yfirhöndinni.
Við getum leikið okkur með öll þessi nöfn í einni setningu sem lýsir ástandinu:
Trúgirni okkar var gerð að Féþúfu sem hrundi eins og Spilaborg svo að margt ungt fólk helst ekki við á því Hallærisplani sem Ísland er orðið heldur verður að flýja Flóttamannaleið til útlanda.
![]() |
Framtíðin utan Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.7.2009 | 00:22
Hlýnun loftslags hjálpar til.
Þessa dagana nýtur þjóðin þess að hér blása hlýrri vindar víðast hvar en gerist og gengur á sumrin. Landsmótið á Akureyri, knattspyrnuleikirnir og hvaðeina sem fram fer utan húss verður svo miklu ljúfara og skemmtilegra en í hinum dæmigerða íslenska vindbelgingi með tilheyrandi raka.
Að vísu njóta annesins fyrir norðan þessa ekki vegna áhrifa sjávar. Það er hins vegar áberandi, einkum í flugi yfir landið, að þetta loft er talsvert "erlendis" eins og Bjöggi myndi segja, - þetta er hlýr loftmassi sem umlykur alla norðanverða Evrópu.
Einn helsti ókostur íslensk veðurfars hefur verið hve sumrin hér eru kaldari en í nokkru öðru landi Evrópu, - meira að segja talsvert kaldari en í nyrstu héruðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Þetta munar nokkrum stigum og maður finnur það.
Það er hægt að sætta sig við það að það sé kalt á veturna en erfiðara á sumrin.
"Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott" var setning sem skaut eins og bjarvætti upp í koll mér þegar ég stóð frammi fyrir því að gera texta fyrir Ellý og Villa á 20 mínútum. Af því er saga sem er efni í pistil en hitt vildi ég sagt hafa að þetta má segja um allar þær ófarir sem spáð er að dynji yfir margar þjóðir vegna hlýnunar andrúmsloftsins.
Þær geta reynst mannkyninu dýrkeyptar en hins vegar er það smá sárabót ef íslenska sumarið verður hlýrra og skaplegra en áður. Íslenska sumarið er hins vegar ekki langt. Eftir aðeins átta daga verður hámarki sumarhitans náð.
Að meðaltali nær hann hámarki um 20. júlí en síðan fer næturhúmið að sækja að og hitinn að lækka.
![]() |
Vel heppnað Landsmót UMFÍ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)