Ekki í fyrsta sinn.

Þegar kreppti að 1930 var gripið til gjaldeyrishafta, tollmúra og innflutningsgjalda. Þegar ástandið 1929 er borið saman við árin sem á eftir fylgdu, má sjá, að það sem átti að verða tímabundið ástand varaði í minnst 40 ár, eða allt þar til íslendingar gengu í EFTA.

Því miður er það oft svo í efnum sem þessum að það sem á að verða bráðabirgðaúrræði verður miklu langlífara ástand en nokkurn óraði fyrir. Þótt nú sé dimmt framundn verður ástandið núna ekki vonandi ekki eins langlíft og það sem tók völdin upp úr 1930.


mbl.is Gjaldeyrishöft hugsanlega nokkur ár í viðbót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Urðu fyrir bílveltu." Lenti veltan á þeim?

Ég gefst upp. Það virðist vonlaust verk að fá því framgengt að því sé lýst á stysta, einfaldasta og rökréttasta hátt þegar bílar velta.

Það er ekki tekið gilt að segja "bíll valt." 

Aldrei framar mun nokkur bíll velta á Íslandi eða neinn lenda í bílveltu ef svo heldur fram sem horfir í málnotkun.

Málsóðar í fjölmiðlum ætla að hafa það af að gera bílveltuna að sérstökum hlut sem "verður" út um allt.

Með síbilju sinni "bílvelta varð" kemst ekkert annað að. Engir bílar velta lengur.

Nýjasta skrefið var stigið í fréttinni sem þessi pistill er tengdur við.

Sagt var: "Þrír erlendir ferðamenn urðu fyrir bílveltu" fyrir vestan.

Hingað til hefur það verið hluti af þeirri hættu sem stafar af farartækjum að menn geti orðið fyrir þeim, lent fyrir bíl eða lent undir bíl.

En nú verða menn líka að hafa augun hjá sér gagnvart alveg nýrri hættu: Grandalaus getur maður orðið fyrir bílveltu. Nú eru það ekki aðeins bílar sem koma aðvífandi á fullri ferð, sem maður getur orðið fyrir, heldur geta bílveltur komið á mikilli ferð og maður orðið fyrir þeim, hugsanlega orðið undir bílveltum. 

Í bílaralli geta menn lent í því að velta bílum sínum. Mig óraði aldrei fyrir því að ég gæti sloppið svo vel í gamla daga að velta aldrei bíl, heldur verða bara fyrir bílveltum.

Raunar er hægt að líta á þetta frá öfugri hlið. Kannski er skárra að maður velti bílnum og hafi þá eitthvað með það að gera heldur en að verða fyrir bílveltum sem komandi æðandi að manni.   


mbl.is Bílveltur á Snæfellsnesi og Dynjandisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lambalæri", nautn sumarblíðunnar.

Ég heyrði um daginn hjá Lönu Kolbrúnu Eddudóttur að texti Hank Williams, Jambalaya, fjallar um uppáhaldskjötrétt og nokkurs konar tákn borgarinnar New Orleans í Bandaríkjunum.

Sömuleiðis að Fats Domino, sem kom þessu lag hátt á vinsældalista á upphafstíma rokksins, héldi svo mikið upp á þennan rétt, að hann léti útbúa hann fyrir sig hvar sem hann færi um heiminn.

Þetta hafði ég ekki vitað fyrr og fór að hugsa um hvaða hliðstæðu væri að finna á Íslandi. Og viti menn: Það er jafn langt orð og með þrjá sömu sérhljóðana af fjórum, sem sé lambalæri.

Og varla hægt að hugsa sér kjötrétt sem er eins rammíslenskur og eins ofarlega í huga og á grilltímum sumarblíðunnar.

Fram spratt textinn "Lambalæri" og í framhaldi af því skellti ég mér með Lúdó-sextett og Stefáni í stúdíó og kláraði í dag að hljóðrita "Lambalæri" við lag Hanks Williams.

Lagið er helgað þeirri fjölbreyttu stuðstemningu sem grill og lambakjöt færa íslensku þjóðinni.

Í útgáfu okkar er þetta dúett tveggja manna sem rekast inn á stað þar sem verið er að grilla lambalæri og eins og heyrist á textanum er fjörugt og föngulegt fólk á staðnum.

Mér fannst alveg tilefni til þess arna, samtals hundrað ára starfsafmæli mín og sextettsins, báðir aðilar búnir að vera að í bransanum í 50 ár.

Þar að auki lágu leiðir mín og Lúdó-sextetts oft saman á upphafsárum rokksins.

''Ég söng lagið "Ég hef aldrei nóg" inn á disk í gamla daga með Lúdó og söng fleiri lög með þeim á tónleikum, auk þess sem ég gerði nokkra texta fyrir Lúdó svo sem "Því ekki?", "Halló, Akureyri!", "Ég er glataður án þín," "Rokk um alla blokk" og "Hafnarljós.".

Við stefnum á að gera eitthvað saman í haust því að ég á ýmsa texta við lög, sem Lúdó hefur spilað í gegnum tíðina og það er virkilega gaman af því að taka upp gamlan þráð með þessum síungu rokkurum

Á tónlistarspilaranum hér vinstra megin á síðunni  á að vera hægt að smella inn á lagið "Lambalæri", en mér tekst það reyndar ekki nú og það verður að bíða morguns að sjá, hvað veldur því.

Hins vegar er textinn hér fyrir neðan.

Í athugun er síðan að skutla laginu inn á tonlist.is 

 

LAMBALÆRI. (Jambalaya)

 

Vertu hress vegna þess, vinur kæri,  /

að komast bærilega í tæri við tækifæri.  /

Taktu séns, trylltan skrens, gaurinn glæri. /

Njóttu nú þín við þetta grín. Þó nú væri !  /

Meðan að blóðheit bjóðast góð lambalæri. /  

 

Nú skal gramsa og kjamsa og gæða  /

sér á góðgæti´á glóð og það snæða,  /

leika milla og grilla og glefsa´í 

gómsæta lostætið, sem ilmar, nautn nefs í, /

kneifa í stólum Kóka-kóla og Pepsí.

 

Lambalæri´eru ljúf eins og lömbin.  /

Þegar lömbin koma´á diskinn, þá kýlist vömbin. /

Mat og víf, nautnalíf, mjög ég mæri.  / 

Þessvegna óð er okkar þjóð í lambalæri. /

 

Lambalæri nú lyst okkar vekur  / 

meðan lendar sínar sprellandi gellan skekur. / 

Tökum séns, trylltan skrens, gaurinn glæri ! /

Njóttu nú þín við þetta grín. Þó nú væri !  /

 

Ég og þú étum nú. Enginn efar  /

að ef að glás er af krás maður slefar.  /

Nautnaseggirnir, sleggjurnar hneggja. /

Vöðvaða steggina hér leggirnir eggja. /

Úti við veggi drekkum dreggjarnar geggjað!  / 

 

Lambalæri´eru ljúf. Í mér hrærir  /

þessi lífsnautn, sem oss ærir og endurnærir. /

Eftir sult farðu´á fullt, gaurinn glæri,   /

annars flengi ég þig í keng og hengi´í snæri !

 

Lambalæri´eru ljúf eins og lífið,  /

lostætt nammi þegar hrífur oss dívu-vífið.  /

Mat og víf, nautnalíf mjög ég mæri.  /

Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri !  /  

Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri !  

 

 

 


mbl.is Óvenju mikil umferð á mánudegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband