25.7.2009 | 23:18
Fjötrar vanans. Framtíðin er á morgun.
Þegar margar kynslóðir hafa alist upp við ákveðin viðmið þarf mikið átak til að breyta þeim.

Þetta skynjum við vel sem höfum farið í dag frá Akureyri til Breiðdalsvíkur til að vekja athygli á því að það skeið mannkynssögunnar sem í sögubókum framtíðarinnar verður kallað "olíuöld" samanber steinöld og bronsöld fer nú að komast á seinni hluta sinn eftir að hafa varað í aðeins rúm 100 ár.

Myndirnar hér við hliðina eru frá nokkrum áföngum metanbílsins, sem ekið var í dag meðal annars með viðkomu og stuttu staldri á eftirtöldum stöðum: Akureyri, Húsavík (Mærudagar) , Reykjahlíð, Egilsstaðir, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður (Franskir dagar), Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík.
Á tveimur stöðum hafa komið til okkar menn í dag sem hafa þurft að glíma við losun úrgangs vegna fiskveiða.
Annar glímir við það vandasama verkefni að finna mögulega staði til að grafa úrganginn í jörðu, en hinn sagðist glíma við það að losa sig við hann í sjó.

Ég vísa á blogg mitt í gær um metanbíla en vil bæta því við hægt væri að knýja 15000 metanbíla á Íslandi með orku úr sorphaugum landsins, en þá er ótalin sú orka sem hægt væri að vinna úr öðrum lífmassa frá sjávarútvegi, landbúnaði og öðrum greinum, auk þess að ræktun gróðurlenda gæti skapað hráefni í metanframleiðslu.

Alls staðar sem við komum undrast fólk hve litlar breytingar þarf að gera á bílum til að þeir gangi fyrir metani og hve litla aukaþyngd það kostar (40 kíló).
Litla stykkið á miðri myndinni hér fyrir neðan myndina frá Reyðarfirði er það sem bætist við í vélarsal bílsins.
Einnig fannst fólki það merkilegt að hægt væri að kaupa bíla sem gengju sitt á hvað fyrir metani og bensíni þannig að þegar metanið þryti og ekki væri tiltæk átöppunarstöð skipti bíllinn sjálfkrafa yfir á flæði úr bensíngeyminum án þess að nokkrir hnökrar væru á.

Fólki fannst líka mikils virði að þurfa ekki að borga erlendum þjóðum fyrir eldsneyti í beinhörðum gjaldeyri.
Og orkuöryggið sem felst í því vakti líka athygli, sem og það, að ef olía fyndist í hafsbotni við ísland yrði það líklegast í formi gass, sem hægt væri að nota beint á metanbíla.
Öll eru þessi mál í þróun en hún gengur hægt og rekur sig á ýmsar hindranir vegna tregðu vanans og kerfisins.

En eitt er ljóst: Olíuöldin hefur náð hámarki og nýir orkugjafar og orkuvinnsla munu koma til sögunnar, hvaða álit sem menn hafa á einstökum aðferðum og leiðum út úr þeim vanda sem orkumál veraldar standa frammi fyrir.
Því fyrr sem við Íslendingar áttum okkur á þessu, því betra.

Að lokum vísa dagsins, tileinkuð akstrinum framhjá Möðrudal og um sandana á Suðurlandi á morgun:
Yfir kaldan eyðisand
við einfalt trixið kunnum
að aka hring um okkar land
á orku´úr ruslatunnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.7.2009 | 22:29
Alparnir eru í Mið-Evrópu.
Á ferðalagi um Norðurland í dag heyrði ég sagt við Mývatn að ætlun þess sem talaði væri að fara í ferðalag til "Norðlensku Alpanna", Tröllaskaga. Hafði aldrei heyrt þetta fyrr.
Áður hafa fjöllin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar fengið nafnið "Vestfirsku Alparnir."
Ísland þarf að mínu mati ekki á slíkum heitum að halda vegna þess að þau lýsa minnimáttarkennd sem brýst fram í yfirlæti. Þeir sem hafa skoðað firðina á vesturströnd Noregs, fjöllin á Grænlandi handan Grænlandssunds og sjálfa Alpana í Mið-Evrópu átta sig á þvílíkum stærðarmun þeirra og hinna svonefndu "Alpa" hér á Íslandi, að heitin"Vestfirskir Alpar" og "Norððlenskir Alpar eru brosleg.
Aðeins 285 kílómetra frá Hornströndum gnæfa við himin 3700 metra há fjöll upp af Blosserville-ströndinni.
Hæsta fjall hinna svonefndu "Vestfirsku Alpa" er aðeins 998 metra hátt !
Þegar komið er til baka til Hornstranda eftir flug yfir að Grænlandsströnd segir maður við sjálfan sig: "Hornbjarg úr djúpinu rís" - hvað? 534 metrar á hæð !
Og tindar hinna sönnu Alpa í Mið-Evrópu ná upp í meira en 4800 metra hæð.
Á hinn bóginn á Ísland gnægð náttúrufyrirbæra sem eru einstæð á heimsvísu.
Hinn eldvirki hluti Íslands er talinn í hópi 40 mestu náttúruundra heims.
Grímsvötn eru talin í hópi sex merkilegustu sýnilegra eldfjalla heims.
Við eigum að halda á lofti því sem raunverulega er meðal mestu náttúrugersema heims en ekki að rembast við að nefna fjöll nafni sem vísar á ofurstærð sem þau standa ekki undir heldur virkja hjákátleg fyrir bragðið.
Skátarnir á skátamótinu hrifust af eldfjöllum Suðvesturlands sem mögnuðum náttúrufyrirbærum þar sem stærðin skipti ekki máli heldur eðli þeirra, lögun og fegurð án tillits til stærðar.
"Hornbjarg úr djúpinu rís" er dýrleg setning í ljóði Kristjáns frá Djúpalæk sem lýsir djúpum tilfinningum þess sem kanna að meta það án þess að því sé líkt við Alpana.
Hornbjarg, Hælavíkurbjarg og Látrabjarg eru þrjú stærstu fuglabjörg Evrópu og eiga enga keppinauta í þeirri álfu hvað það snertir. Ketildalir við Arnarfjörð og Drangaskörð eru fágæt náttúrufyrirbæri sem ég veit ekki að eigi samsvörum í Evrópu.
Öll þessi fyrirbæri eru á Vestfjörðum þau þurfa engin stækkunarheiti því að Vestfirðir standa alveg undir sér án þess.
Setjum sem svo að milli tveggja fjarða á Austfjörðum væri fjallaskagi sem væri um 300 metra hár og menn færu að kalla þau "Austfirska Tröllaskagann". Myndi Norðlendingum ekki finnast það hjákátlegt?
![]() |
Íslensku fjöllin lítil og sæt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)