Fjötrar vanans. Framtíðin er á morgun.

Þegar margar kynslóðir hafa alist upp við ákveðin viðmið þarf mikið átak til að breyta þeim.

P1010098

Þetta skynjum við vel sem höfum farið í dag frá Akureyri til Breiðdalsvíkur til að vekja athygli á því að það skeið mannkynssögunnar sem í sögubókum framtíðarinnar verður kallað "olíuöld" samanber steinöld og bronsöld fer nú að komast á seinni hluta sinn eftir að hafa varað í aðeins rúm 100 ár. 

P1010103

 

 

Myndirnar hér við hliðina eru frá nokkrum áföngum metanbílsins, sem ekið var í dag meðal annars með viðkomu og stuttu staldri á eftirtöldum stöðum: Akureyri, Húsavík (Mærudagar) , Reykjahlíð, Egilsstaðir, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður (Franskir dagar), Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík.

 

 

Á tveimur stöðum hafa komið til okkar menn í dag sem hafa þurft að glíma við losun úrgangs vegna fiskveiða.

Annar glímir við það vandasama verkefni að finna mögulega staði til að grafa úrganginn í jörðu, en hinn sagðist glíma við það að losa sig við hann í sjó.

P1010106

 

 

Ég vísa á blogg mitt í gær um metanbíla en vil bæta því við hægt væri að knýja 15000 metanbíla á Íslandi með orku úr sorphaugum landsins, en þá er ótalin sú orka sem hægt væri að vinna úr öðrum lífmassa frá sjávarútvegi, landbúnaði og öðrum greinum, auk þess að ræktun gróðurlenda gæti skapað hráefni í metanframleiðslu.

 

P1010097

 

Alls staðar sem við komum undrast fólk hve litlar breytingar þarf að gera á bílum til að þeir gangi fyrir metani og hve litla aukaþyngd það kostar (40 kíló).

 

Litla stykkið á miðri myndinni hér fyrir neðan myndina frá Reyðarfirði er það sem bætist við í vélarsal bílsins.  

 

Einnig fannst fólki það merkilegt að hægt væri að kaupa bíla sem gengju sitt á hvað fyrir metani og bensíni þannig að þegar metanið þryti og ekki væri tiltæk átöppunarstöð skipti bíllinn sjálfkrafa yfir á flæði úr bensíngeyminum án þess að nokkrir hnökrar væru á.  

P1010110

 

 

 

Fólki fannst líka mikils virði að þurfa ekki að borga erlendum þjóðum fyrir eldsneyti í beinhörðum gjaldeyri. 

 

Og orkuöryggið sem felst í því vakti líka athygli, sem og það, að ef olía fyndist í hafsbotni við ísland yrði það líklegast í formi gass, sem hægt væri að nota beint á metanbíla.  

 

 

Öll eru þessi mál í þróun en hún gengur hægt og rekur sig á ýmsar hindranir vegna tregðu vanans og kerfisins.

P1010111

 

 

 En eitt er ljóst: Olíuöldin hefur náð hámarki og nýir orkugjafar og orkuvinnsla munu koma til sögunnar, hvaða álit sem menn hafa á einstökum aðferðum og leiðum út úr þeim vanda sem orkumál veraldar standa frammi fyrir.

Því fyrr sem við Íslendingar áttum okkur á þessu, því betra. 

P1010113

 

Að lokum vísa dagsins, tileinkuð akstrinum framhjá Möðrudal og um sandana á Suðurlandi á morgun: 

 

 

Yfir kaldan eyðisand

við einfalt trixið kunnum

að aka hring um okkar land

á orku´úr ruslatunnum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ómar. Þú ert gersemi.

Rómverji (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 23:44

2 identicon

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 25.7.2009 kl. 23:45

3 Smámynd: Jack Daniel's

Ég hef mikið velt því fyrir mér hvers vegna það má ekki gera þessar breytingar á bílum án einhvers sérstaks leyfis frá yfirvöldum.

En takk fyrir þennan fróðleik og síðast en ekki síst fyrir vísuna.  Tær snilld.

Jack Daniel's, 26.7.2009 kl. 08:21

4 identicon

Ég get sagt þér það Jack.

í REGLUGERÐ

um gerð og búnað ökutækja

nr. 822/2004

kemur fram í lið 13 í 18.10

"Óheimilt er án sérstaks leyfis Umferðarstofu að tengja við eldsneytiskerfi bifreiðar búnað sem breytt

getur samsetningu útblásturslofts."

Þetta leifi hefur enn ekki fengist

sigurður ástgeirsson (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 08:51

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gott framtak hjá ykkur rauðhausunum (þar sem lit er enn að finna) að vekja athygli á metaninu. Þetta reyndi ég að gera meðan ég var enn að skrifa í blöð.

En þetta með að breyta bíl fyrir metan: Ég kannaði í fyrra hvað það myndi kosta að breyta mínum bíl, Honda CR V, svo hann gæti brennt metani. Svar. 700 þúsund. Það er bara of mikið. Hve lengi væri ég að ná mismuninum inn?

Góð kveðja 

Sigurður Hreiðar, 26.7.2009 kl. 12:40

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég athugaði líka hvað þetta myndi kosta í fyrra, reikningurinn hefði orðið um 900 þúsund krónur fyrir breytingar á Ford Focus station (miðað við gengið þá, mér skilst að eitthvað af hlutunum til breytingana komi erlendis frá). Full mikið þá (einnig þegar horft er til verðs bílsins), spurning hvort að dæmið horfi öðruvísi við núna þegar bensínverðið er hærra eins og það er í dag.

Svo má einnig líta til þess að við þurfum að líta til fleiri orkugjafa, því eins og Ómar tekur fram þá eru líkur á því að Olíuöldin fari að taka enda. 

Gott framtak hjá ykkur Ómar og Einar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.7.2009 kl. 16:01

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er búið að reikna það út að ef viðkomandi bíl er ætlað að endast í 5-6 ár með alls 100 km akstur myndi sparnaðurinn verða 1,4 milljónir króna. Það þýðir að eftir 2-2,5 ár fer þetta að verða hreinn ágóði fyrir eigandann.

Ómar Ragnarsson, 26.7.2009 kl. 20:20

8 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gaman að fylgjast með þessu

Gunnar Helgi Eysteinsson, 26.7.2009 kl. 20:38

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég ek ekki svona mikið lengur. Á fjórum undanförnum árum hef ég ekið bíl mínum rúma 50 þús km. alls. Svo þú verður að bjóða betur, minn kæri. Og hvers vegna þarf breytingin að vera svona dýr?

Kv.

Sigurður Hreiðar, 26.7.2009 kl. 21:30

10 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Svo gleymdi ég líka nokkru: Hve langt líður -- ef farið verður að nota metan á bíla að einhverju marki -- þangað til vegagjaldinu verður bætt við metanverðið eins og nú er gert með bensín og dísilolíu? Og verður hagkvæmnin þá ekki öllu lakari?

Kv.

Sigurður Hreiðar, 26.7.2009 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband