27.7.2009 | 20:00
Að hafa alla í hendi sér, - "take the money and run!"
Bandaríska máltækið "take the money and run!" hefur ráðið ferðinni hjá Íslendingum undanfarinn áratug. Stóriðju- og virkjanaæðið byggist á þessu, - millifærslur Glitnisbankastjóranna byggðust á þessu, - öll bankasápukúlan byggðist á þessu.
Nú kemur fram að Glitnir hafi verið lifandi lík síðla árs 2007. Innstu koppar í búri vissu þetta vafalaust, bæði þar og í öðrum bönkum.
Sú ráðstöfun að hafa Icesave í útibúi Landsbankans var í þessum anda því að þá var hægt að flytja peningana fljótt og vel heim til Íslands en það hefði verið miklu seinlegra ef Iceasave hefði verið í dótturfélagi bankans í Bretlandi.
Hin "tæra snilld" á bak við Icesave byggðis á því að þetta félli vel í kramið hjá landanum. Icesave-snillingarnir vissu líka að orð Davíðs um að þeir hefðu ekkert leyfi til að setja íslensku þjóðina á hausinn og pressan á það að flytja Icesave í dótturfélag hafði ekkert á bak við sig.
Íslensk stjórnvöld, sem sofið höfðu á verðinum myndu ekki þora að rugga bátnum eða standa við hótanir og þrýsting, því yrði slíkt opinbert myndi það benda til þess að eitthvað væri að.
Íslenska þjóðin fékk ekki að vita að bankakerfið væri orðið tíföld árleg þjóðarframleiðsla fyrr en tæpum mánuði fyrir hrunið.
Ég fæ ekki betur séð en að ofurlaunasnillingarnir hafi haft allt og alla í hendi sér. Fá þeir að hafa það áfram?
![]() |
Millifærðu hundruð milljóna milli landa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.7.2009 | 14:59
Fýkur af "óbeitarhæfu" landi.
Fyrir um það bil 12 til 15 árum var það mat Landgræðslustjóra að afréttirnir, sem nú jarðvegur fýkur nú af, væru "ekki beitarhæfir". Beitin hefur að vísu minnkað talsvert síðan þá en flest er óbreytt.
Ég flaug um hádegi í dag frá Reykjavík norðaustur yfir Hofsjökul og sá þau svæði þar sem moldrokið kom fyrst og varð mest.
Hagavatnsleirurnar eru að vísu óviðráðanlegt vandamál en öðru máli gegnir um sunnanverðan Kjöl, en strókarnir af því svæði kaffærðu Bláfell. Fyrrum var Kjölur vafalaust vafinn þykkum gróðri og kjarri, en nú er aðeins lítill hluti af honum gróinn og á á vök að verjast.
Við Kjalveg eru mógrafir sem vitna um það hvernig kjarrið var hoggið og síðan bætti sauðkindin um betur.
Engu að síður er þetta svæði, sem talið var "óbeitarhæft" enn beitt. Hrunamannaafréttur og jarðvegseyðingin þar er ekki haft í hámæli né önnur svipuð "óbeitarhæf" svæði.
Í fyrradag ók ég yfir Mellöndin á Mývatnsöræfum sem ég sýndi myndir af í sjónvarpi fyrir 22 árum.
Þar er enn beitt fé sem raðar sér í rofabörðin til að gæða sér á nýgræðingnum þegar því er hleypt þangað. Það er að vísu gert á skárri tíma en áður en samt blasir þetta við.
Nýjasta afrekið er 25 kílómetra langt nýtt manngert moldroks- og sandfokssvæði á því 30-40 ferkílómetra svæði sem er þurrt þegar lágt er í Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar snemmsumars.
Ég tók af því myndir um daginn sem ég get væntanlega birt við tækifæri.
Það eru bráðum 30 ár síðan ég byrjaði að fljúga með landgræðslumenn yfir afrétti landsins til að kanna þá. Í kjölfarið fylgdu sjónvarpsþættir sem reittu marga mjög til reiði.
30 ár, og allt er að mestu við það sama.
Steingrímur Hermannsson segir frá því í ævisögu sinni að þegar hann varð landbúnaðarráðerra fyrir 30 árum datt honum í hug að hægt væri að flokka afrétti landsins og leyfa jafnvel aukinn sauðfjárbúskap á svæðum eins og við Húnaflóa þar sem landbúnaður var höfuðatvinnugrein og afréttir góðir , en hjálpa síðan bændum sem hefðu óbeitarhæfa afrétti til að breyta um búskaparhætti.
Steingrímur segir að landsbyggðarþingmenn og bændasamtökin hefður orðið æf og hann hefði passað sig á því að minnast aldrei á þetta framar.
20 árum síðar sagði Hjálmar Jónsson, þáverandi formaður landbúnaðarnefndar ef ég man rétt, svipað í Sjónvarpsviðtali og aftur varð allt vitlaust.
Kannski verður næst minnst á þetta upp úr 2020 til þess eins að allt verði vitlaust í þriðja sinn og engu verði breytt.
Læt síðan fylgja með til gamans skemmtilega vísu sem bóndi einn gerði um mig fyrir aldarfjórðungi:
Hefur víða á Frúnni farið, -
filmað bæði hraun og sker.
En ætli´hann hafi augum barið
ofbeitina´á höfði sér?
![]() |
Mesta moldrok í mörg ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)