Fýkur af "óbeitarhæfu" landi.

Fyrir um það bil 12 til 15 árum var það mat Landgræðslustjóra að afréttirnir, sem nú jarðvegur fýkur nú af, væru "ekki beitarhæfir". Beitin hefur að vísu minnkað talsvert síðan þá en flest er óbreytt.

Ég flaug um hádegi í dag frá Reykjavík norðaustur yfir Hofsjökul og sá þau svæði þar sem moldrokið kom fyrst og varð mest.

Hagavatnsleirurnar eru að vísu óviðráðanlegt vandamál en öðru máli gegnir um sunnanverðan Kjöl, en strókarnir af því svæði kaffærðu Bláfell. Fyrrum var Kjölur vafalaust vafinn þykkum gróðri og kjarri, en nú er aðeins lítill hluti af honum gróinn og á á vök að verjast.

Við Kjalveg eru mógrafir sem vitna um það hvernig kjarrið var hoggið og síðan bætti sauðkindin um betur.

Engu að síður er þetta svæði, sem talið var "óbeitarhæft" enn beitt. Hrunamannaafréttur og jarðvegseyðingin þar er ekki haft í hámæli né önnur svipuð "óbeitarhæf" svæði.

Í fyrradag ók ég yfir Mellöndin á Mývatnsöræfum sem ég sýndi myndir af í sjónvarpi fyrir 22 árum.

Þar er enn beitt fé sem raðar sér í rofabörðin til að gæða sér á nýgræðingnum þegar því er hleypt þangað. Það er að vísu gert á skárri tíma en áður en samt blasir þetta við.

Nýjasta afrekið er 25 kílómetra langt nýtt manngert moldroks- og sandfokssvæði á því 30-40 ferkílómetra svæði sem er þurrt þegar lágt er í Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar snemmsumars.

Ég tók af því myndir um daginn sem ég get væntanlega birt við tækifæri.

Það eru bráðum 30 ár síðan ég byrjaði að fljúga með landgræðslumenn yfir afrétti landsins til að kanna þá. Í kjölfarið fylgdu sjónvarpsþættir sem reittu marga mjög til reiði.

30 ár, og allt er að mestu við það sama.

Steingrímur Hermannsson segir frá því í ævisögu sinni að þegar hann varð landbúnaðarráðerra fyrir 30 árum datt honum í hug að hægt væri að flokka afrétti landsins og leyfa jafnvel aukinn sauðfjárbúskap á svæðum eins og við Húnaflóa þar sem landbúnaður var höfuðatvinnugrein og afréttir góðir , en hjálpa síðan bændum sem hefðu óbeitarhæfa afrétti til að breyta um búskaparhætti.

Steingrímur segir að landsbyggðarþingmenn og bændasamtökin hefður orðið æf og hann hefði passað sig á því að minnast aldrei á þetta framar.

20 árum síðar sagði Hjálmar Jónsson, þáverandi formaður landbúnaðarnefndar ef ég man rétt, svipað í Sjónvarpsviðtali og aftur varð allt vitlaust.

Kannski verður næst minnst á þetta upp úr 2020 til þess eins að allt verði vitlaust í þriðja sinn og engu verði breytt.

Læt síðan fylgja með til gamans skemmtilega vísu sem bóndi einn gerði um mig fyrir aldarfjórðungi:

 

Hefur víða á Frúnni farið, -

filmað bæði hraun og sker.

En ætli´hann hafi augum barið

ofbeitina´á höfði sér?


mbl.is Mesta moldrok í mörg ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fín ábending!

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.7.2009 kl. 15:47

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Moldrokið við Heklu núna kemur að mestu frá Krókslóni. Lónið er núna tómt á meðan viðgerðir standa yfir á Sigölduvirkjun og rásinni sem liggur að henni. Ég flaug þarna yfir fyrir stuttu og náði góðum myndum af atburðinum. Þar var greinilegt að bottfallið í lóninu var að fjúka burt.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 27.7.2009 kl. 17:38

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sauðfé hefur FÆKKAÐ hérlendis um 45% síðastliðna þrjá áratugi (1980-2008), úr 828 þúsundum í 458 þúsund, en hrossum FJÖLGAÐI hér á sama tíma um 48%, úr 52 þúsundum í 77.500.

Og eitt hross étur að sjálfsögðu miklu meira og er mun þyngra en ein kind.

Á Suðurlandi fækkaði sauðfé síðastliðinn áratug (1998-2008) um 21%, úr 98 þúsundum í 78 þúsund, en hrossum fjölgaði þar á sama tímabili um 1%, úr 27.600 í 28 þúsund.

Hagstofan - Landbúnaður

Þorsteinn Briem, 27.7.2009 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband