Afrek innan veggja þinghúsa.

Um áratugaskeið hafa áhrif Alþingis verið skammarlega lítil vegna ofríkis framkvæmdavaldsins. Þetta er bagalegt vegna þess að þegar völdin hafa færst í svona miklum mæli til ríkisstjórnanna hafa þau færst frá kjósendum, þannig að milliliðirnir milli þeirra og valdhafanna eru tveir en ekki einn.

Hægt er að nefna tvo bandaríska stjórnmálamenn sem höfðu fyrst og fremst áhrif vegna frammistöðu sinnar innan veggja þinghússins, þá Lyndon B. Johnson og Edward Kennedy. 

Þótt John F. Kennedy væri glæsilegur stjórnmálamaður og legði sig allan fram sem forseti um að koma réttindamálum blökkumanna í Bandaríkjunum á rekspöl auk fleiri endurbóta var það þó eftirmaður hans, Lyndon B. Johnson, sem náði miklu meiri árangri. 

Það var svo mikill árangur að enn í dag er bið á því að hliðstætt gerist. Barátta Obama fyrir endurbótum á heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum virðist til dæmis ætla að verða harla harðsótt þrátt fyrir færni og hæfileika forsetans. 

Ástæða velgengni Johnsons byggðist ekki á flekklausum ferli, glæsileika né bumbuslætti. Johnson var um margt grófgerður og stundum ófyrirleitinn, ekki vandur að meðulum og hafði ýmsa ágalla. 

Sumir ásökuðu hann um tækifærismennsku, rustamennsku og lýðskrum. 

En um snilld hans í þingstörfum efast enginn. Hann hafði einstakt lag á að ná sambandi við menn úr báðum þingflokkunum og naut þess að ýmsu leyti að vera með næsta venjulegt og alþýðlegt fas. 

Það var andstæða hins yfirstéttarlega glæsileika sem einkenndi Kennedy og hans fylgisveina, sem komu margir úr röðum háskólafólks, leikara, listamanna og þeirra sem betur máttu sín, en vildu samt leggja sitt af mörkum fyrir þá sem minna máttu sín.

Johnson var meistari leikflétta og stjórnmálabragða á bak við tjöldin, - hann var realpólitíkus eins og þeir gerast eindregnastir.

Hann var maður sem spurði að leikslokum, ekki vopnaviðskiptum.

Vietnamstríðið varð Johnson að falli og hefði sennilega fellt hvaða forseta sem var, líka John F. Kennedy hefði hann lifað, þótt aldrei verði það sannað, af eða á, hvort hann hefði breytt um stefnu. 

Nú hefur annar þingsnillingur, Edward Kennedy, safnast til feðra sinna. Ferill Kennedys sýnir að hann var svo sem "enginn engill heldur" frekar en Johnson, eins og segir í Þórsmerkurljóði, og varð hann þess vegna að takast á við erfiðleika, oft sjálfskaparvíti, sem voru stærri en svo að meðalmenn hefðu ráðið fram úr því. 

En í lok ferils hans situr aðeins virðingin eftir, - virðing fyrir þingsnillingi sem með mannkostum sínum tókst að yfirstíga sjálfan sig og ná árangri á mörgum sviðum sem tekur fram því sem ýmsir forsetar hafa afrekað. Hann hrasaði hvað eftir annað en stóð alltaf upp aftur og hélt áfram.

Þingsnilldin fólst í mannlegum samskiptum og því að missa aldrei sjónar á háleitum stefnumiðum. 

Allir menn eru ófullkomnir en Edward Kennedy tókst á við erfiðleikana á sinn hátt svo að eftir verður munað. 

Í sumar hefur þess orðið vart að von er til þess að Alþingi takist að láta meira til sín taka en fyrr. Það væri gott, því að það er einungis tilhlökkunarefni ef við Íslendingar getum eignast þingsnillinga eins og þeir gerast bestir hjá öðrum þjóðum. 

Því verður að hamra áfram járnið um bráðnauðsynlegar og tímabærar stjórnlagabreytingar sem verður að koma á koppinn.  


mbl.is Obama kvaddi vin og læriföður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyfjafíkn, hættuspil við dauðans dyr.

Fíkniefni bjóða upp á hættuspil við dauðans dyr þegar þau hafa smám saman gert fíkilinn ófæran um að forðast þau.

Tvenns konar tilfelli eru miklu fleiri en fólk gerir sér grein fyrir hvað snertir fíkniefnanotkun:

1. Lygilega margt fólk hefur sloppið naumlega við að fara yfirum.

2. Dánarorsökin hefur ótrúlega oft verið beinlínis vegna lyfjamisnotkunar.

Þetta er feimnismál fyrir alla aðila. Ég hef alla tíð verið afar smeykur við notkun lyfja og fíkniefna og ek á bíl með einkanúmerinu "EDRÚ" til þess að senda öðrum skilaboð um þetta.

Allir lenda þó í þeim aðstæðum að ekki verður komist hjá notkun lyfja eða efna, sem geta orðið vanabindandi.

Ég játa að ég er fíkill á tvö af lúmskustu fíkniefnum nútímans: Hvítasykur og koffein. Hvort tveggja fæ ég með því að drekka Cola-drykki og þarf að vera á tánum á hverjum degi vegna þessarar neyslu.

Súkkulaði er lúmskt fíkniefni, inniheldur bæði mikla fitu og sykur, og á gríðarlega mikinn þátt í offitu fólks sem er eitthvert dýrasta heilbrigðisvandamál heimsins.

Ég hef á síðustu fjórum mánuðum létt mig um 5-6 kíló með því að taka í lurginn á súkkulaðineyslunni en játa að ég þarf að standa mig betur ef ég vil ná enn betri árangri.

Í fyrra varð að nota sterkasta sýklalyfið, Augmentin, til þess að stöðva hættulega sýkingu í baki mínu, og kostaði það spítalavist og tók alls sex vikur.

Í framhaldinu fékk ég lifrarbilun vegna áhrifa sýklalyfsins, sem varð til þess að í þrjá mánuði glímdi ég við svonefnda stíflugulu og ofsakláða sem rændi mig svefni.

Ein áhrifamesta pyndingaaðferð í nútíma fangabúðum er að ræna fangana svefni og eftir reynsluna í fyrra af svefnleysinu í þrjá mánuði skil ég vel angist Michaels Jacksons, sem varð háður svefnlyfjum þegar hann brenndist illa í upptöku á auglýsingamyndbandi.

Hann var andvaka nóttina áður en hann dó þrátt fyrir lyfjagjöf og ljóst er að hann stefndi rakleiðis í átt til þess að líkaminn einfaldlega gæfist upp, orðin nánast aðeins skinn og bein.

Svefnleysið veldur þyngdartapi (ég léttist um 16 kíló á þremur mánuðum), blóðmissi og þrekleysi og standi þetta ástand nógu lengi missir viðkomandi smám saman vitglóruna.

Þegar menn eins og Jackson og Presley eru komnir á efsta stig hinnar botnlausu og óviðráðanlegu fíknar neyta þeir allra bragða til að útvega sér lyf og ég veit af dæmum hér heima að læknar eiga oft mjög erfitt með að varast slægð þessara sjúklinga þar sem allt snýst orðið um að taka lyf, stundum ótrúlega mörg, til þess að beita þeim gegn aukaverkunum hvers annars.

Ef í ofanálag er drukkið áfengi ofan í þetta er voðinn vís.

Sjúklingarnir eru oft búnir að koma sér í sambönd við marga lækna, nýta sér það til hins ítrasta og spila á þá.

Svefnleysi er lúmskur kvilli sem getur stigmagnast. Ég vil deila reynslu minni með ykkur, sem þetta lesið, til þess að upplýsa og vekja umræðu.

Það getur stundum verið erfitt að glíma við andvökur, en með skipulagningu á svefni sínum og störfum á hverjum sólarhring má ná árangri.

Meðan engin lyf eru tekin er þetta kannski það eina sem ég get sagt um þetta vandamál:

Eina leiðin án lyfja við svefnleysi er að vaka. Fara jafnvel kannski framúr rúminu og vinna eitthvað góða stund til að verða þreyttur og sofna.

Láta sig hafa það daginn eftir að hafa átt erfiða nótt í þeirri vissu, að að því kemur að þreytan sér um það að venjulegur svefn náist.


mbl.is Lát Jacksons úrskurðað sem manndráp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband