8.9.2009 | 23:25
Sveppir af ýmsu tagi.
Sveppir eru mögnuð fyrirbæri eins og kemur fram í frétt á mbl.is. Stundum er eins og einhver skilyrði myndist fyrir þá á svæðum þar sem annars sjást sjaldan eða aldrei sveppir.
Þegar ég var í sveit í Langadal gerðist það eitt sumarið túnið fylltist allt af sveppum. Þetta gerðist aðeins einu sinni þau fimm sumur sem ég var þar.
Húsfreyjan, frænka mín, var ekki viss um hvort óhætt væri að tína sveppina og var ekki alveg með gagnsemi þeirra á hreinu.
Svo vel vildi til að erlendir gestir, Toft-hjónin frá Reykjavík, (margir muna vafalaust eftir versluninni H. Toft á Skólavörðustíg), höfðu komið í heimsókn og virtust vita allt um sveppi og nýtingu þeirra til matar.
Við tíndum því sveppina og gæddum okkur þeim í nokkra daga.
Fyrir nokkrum árum fór ég með Paul Cox, heimsfrægan læknavísindamann, inn í Kringilsárrana.
Þar, í 650 metra hæð yfir sjó, rákumst við á sveppi. Ég var smeykur um að þeir gætu verið eitraðiir og spurði Cox hvort hægt væri að éta þessan sveppi.
"Já", svaraði hann, - "að minnsta kosti einu sinni."
Allir kannast við Sveppa, gamanleikara. Hitt vita færri að löngu á undan honum var einn skemmtilegur vinur Ragnars, sonar míns, kallaður Sveppi og aldrei neitt annað.
Sá heitir Sveinbjörn Gröndal, einn af aðal sprautunum í "Hreystimannafélaginu" sem svo var kallað.
![]() |
Sveppatínsla frábært fjölskyldusport |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.9.2009 | 14:51
Nei, hvað segið þið? "Eitthvað annað"?
Djúpivogur liggur utan við áhrifasvæði álversins á Reyðarfirði og ruðningsáhrifin af framkvæmdunum fyrir austan voru neikvæð fyrir Djúpavog og fleiri byggðarlög.
Ruðningsáhrif er það kallað þegar mikill fjáraustur og einblíning á eina risastóra fjárfestingu ryður öllum öðrum fjárfestingarmöguleikum í burtu.
Þeir sem að slíku stóðu töluðu síðan í fyrirlitningartóni um "eitthvað annað" þegar færð voru rök að því að fénu hefði verið betur varið á annan hátt.
Það hefur lengi verið lenska fyrir austan að tala niður til fólksins á Djúpavogi. Auk hæðnitónsins um "eitthvað annað" kölluðu sumir Hornfirðingar Djúpavog Kongó og átti sú líking líklega að tákna hvað þorpið væri lítið og afskekkt, útundan og vanþróað.
En nú hefur fólkið þar sýnt að "eitthvað annað" er bæði til og auk þess raunhæft.
Auk vatnsútflutnings er verið er að leggja að því drög að skemmtiferðaskip hafi þar viðkomu, enda er það stórlega vanmetin auðlind sem felst í því að laða ferðamenn að fallegum stöðum, þar sem hægt er að kynnast merkilegum lífsháttum og atvinnuháttum heimamanna.
Ég hef margbent á gildi strandveiðanna í þessu efni og mun blogga von bráðar um það sem ég kalla "sjortara-ferðamennsku" eða "skammdvalar-ferðamennsku" sem er að mínum dómi of mikið ráðandi hér á landi utan þjónustunnar við skemmtiferðaskipin.
Hún miðast fyrst og fremst við þrönga hagsmuni sterkra aðila á höfuðborgarsvæðinu og hamlar meiri fjölbreytni sem getur komið sem viðbót við "skammdvalarferðamennskuna".
![]() |
Djúpavogshreppur í vatnsútflutning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)