17.1.2010 | 20:55
Veturinn er vanmetin auðlind.
Janúarferðalag jeppaklúbbs NFS fór fram um þessa helgi og var gott dæmi um þá möguleika sem gefast að vetrarlagi til þess að njóta landsins okkar. Hátt á fjórða tug manna á 15 aldrifsbílum fóru í þessa ferð.

.
Að þessu sinni var dvalið í Hrauneyjum og farin á laugardeginum um jeppaslóð yfir Búðarháls að fossinum Dynk í Þjórsá.
Lára mín og Haukur Olavsson ásamt Iðunni Huldu dóttur þeirra fóru í ferðina að vanda á hinum 21. árs gamla Toyota Hi-lux pallbíl, sem ég hef notað til að draga bátinn Örkina austur á Kárahnjúkasvæðinu og telst vera minnsti Toyota jöklajeppi landsins.

Að þessu sinni var minnsti jöklajeppi landsins, Suzuki Fox ´86, ekki tiltækur fyrir mig vegna bilunar og "vakti ég því upp" 19 ára gamlan Geo Tracker blæjujeppa, sem var bandarísk útgáfa af Suzuki Vitara og hafði verið geymdur úti í fjögur ár suður í Kapelluhrauni.
Á efstu myndinni sést "Örkin" draga einn þátttakandann upp skafl sem reyndist flestum erfiður.
Aldrifsbílarnir spönnuðu allan regnbogann, allt frá Dodge Ram pallbíl á 49 tommu dekkjum niður í Toyota Rav 4x4 og hjálpsemi og ferðagleði voru í fyrirrúmi.

Ferðir af þessu tagi eru alveg óborganlegar, bæði skemmtilegar og gefandi allan tímann.
Akstursleiðin bauð upp á fjölbreytni, meðal annars akstur yfir á með ísskörum og tveimur vöðum.
Ferðin sýndi að óþarfi er að láta reynsluleysi eða litla getu fararskjótanna draga úr sér kjark til að fara svona ferðir, svo framarlega sem með í ferð séu einnig reyndir jeppamenn á sæmilega öflugum bílum.

Veðrið var betra en spáð hafði verið, bæði mildara og ekki eins mikil úrkoma og spáin hafði sýnt.
Ekki var útsýni til fjallahringsins ofan af Búðarhálsi með Heklu, Kerlingarfjöll og alla jöklana við sjóndeildarhringnum en það skipti engu höfuðmáli, aðalatriðið var ferðagleðinu og félagsskapurinn.
Ýmislegt varð að varast og sýna bæði aðgæslu og útsjónarsemi, því að flughált var víða og víða erfitt að fóta sig.
Slóðinn að Dynk nær ekki alla leið að fossinum, flughált í hallanum þar sem gönguslóðin liggur að honum, og þar að var auki orðið framorðið eftir tafsama ferð og varð því að láta nægja að skoða fossinn í klakaböndum vetrarins úr allmikilli fjarlægð eins og sést á myndinni af ferðafólkinu þar sem fossinn er í baksýn, langt í burtu.

Gljúfurleitarfoss hafði verið á dagskránni en hann verður að bíða betri tíma.
Raunar er bagalegt hve aðgengi er lélegt að þessum tveimur af tíu mestu stórfossum landsins.
Um kvöldið var "veisla hjá innfæddra eldi" eins og segir í söngnum góða, fyrst lambakjöt og síðan tekið forskot á sæluna með þorramat.
Í fjöldasöng kom sér vel að hafa NFS-hljómsveitarmennina Sigga storm, formann klúbbsins, og Róbert Marshall í för eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Rautt ennisband er einkennishöfuðfat í svona ferðum en í mynd af þeim Sævari Jóhannessyni, Sigmundi Erni Rúnarssyni og Hauki Holm sést að sá síðastnefndi býr yfir sundurgerðarhæfni af bestu gerð.
Um miðnætti var síðan brenna en förinni lauk síðan í dag, sunndag.
Veturinn er vanmetin auðlnd hjá okkur Íslendingum.
Okkur er tamt að líta á hann sem eitthvað erfitt og drungalegt, sem við þurfum að þola á meðan við bíðum eftir því að það fari að birta og hlýna.

En þetta þarf ekki að vera svona.
Veturinn er ekki aðeins auðlind vegna þess að hann bjóði upp á möguleika til stóraukins ferðamannastraums í skammdeginu, svonefndrar upplifunarferðamennsku.
Hann er ekki síður mikils virði fyrir okkur sjálf til að njóta náttúruundra landsins og öðlast gefandi upplifun í góðum félagssskap.


Bloggar | Breytt 18.1.2010 kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.1.2010 | 18:25
Margir fara flatt á því...
![]() |
Kvensamur Íslendingur rændur í Taílandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2010 | 17:36
Er ESB-aðild ekki of flókin líka?
Þegar VG bar fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna Kárahnjúkavirkjunar var ein af mótbárunum gegn því sú, að málið væri of flókið, það þyrfti svo miklu meiri upplýsingar um það en lægju fyrir, bæði hvað snerti aðra möguleika á nýtingu svæðisins, aðrsemisútreikninga og hvað eina sem snerti svo viðamikið mál.
Auk þess væri þetta ekki rétti tíminn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu því að hún myndi skyggja á önnur mál í komandi kosningum.
Samkvæmt því var mikilvægara að láta kosningar snúa um hinn smærri mál í einstökum kjördæmum.
Ef gerður verður aðildarsamningur við ESB verður hann og áhrif hans afar flókið mál með mismunandi og umdeilanlegum áhrifum á marga málaflokka. Hann er líka milliríkjamál eins og Iceasave. Er þá ekki rangt að bera hann undir þjóðaratkvæði?
Í Bandaríkjunum eru ekki aðeins kosnir þingmenn í kosningum heldur mikill fjöldi embættismanna. Er það ekki of flókið mál fyrir kjósendurnar sem eru af mjög mismunandi sauðahúsi?
Icesav-deilan verður sett í þjóðaratkvæðagreiðslu lögum samkvæmt hvort sem mönnum finnst hún vera of flókin eða ekki.
Nema um það náist þverpólitísk samstaða að leysa málið í tæka tíð á þann hátt að þjóðaratkvæðagreiðslan verði óþörf, til dæmis með því að fá fram niðurstöðu í samningum við Breta og Hollendinga sem sátt er um að sé álíka viðunandi fyrir okkur og lögin frá því í ágúst voru.
Nú nægir ekki að afturkalla lögin eins og gert var 2004 til þess að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin.
Reynslan síðustu 65 ár sýnir að ef þverpólitísk samstaða er um eitthvað eitt málefni, þá er hún um það að aldrei fari fram þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilsverðustu mál. Annar hefði einhver slík atkvæðagreiðsla farið fram í öll þessi 65 ár.
![]() |
Of flókið fyrir atkvæðagreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2010 | 13:53
Óvitaskapur að hleypa lífi í dauð sjávarpláss?
Framkvæmdastjóri LÍÚ sýnir ákveðna firrningu þegar hann telur það vera óvitaskap að leyfa hóflegar strandveiðar og hleypa með því lífi í sjávarpláss, sem hin dauða hönd kvótakerfsins hefur lagt á.
Hann metur það einskis að nú geti ferðamenn komið á þessa staði og fengið betur en áður nasasjón af því heillandi mannlífi sem að jafnaði þrífst í kringum fiskveiðar og bæði þéttbýlisfólk og útlendingar þrá að upplifa í þeirri upplifunarferðamennsku sem nýtur sívaxandi vinsælda.
Á fundi um tillögur Íslandsrhreyfingarinnar um strandveiðar fyrir kosningar 2007 var Friðrik annar frummælenda og hafði allt á hornum sér varðandi þessar hugmyndir, taldi að veiðarnar myndu fara algerlega úr böndunum og veiðin verða alltof mikil, allt að 20-30 þúsund tonn á ári.
Vitnaði hann þá í smábátaveiðarnar á tíunda áratug síðustu aldar sem hefðu farið úr böndunum.
Við héldum því fram að með því að fara af stað í smáum stíl með vel ígrunduðum takmörkunum væri þetta framfaraspor, bæði menningarlega og efnahagslega ef horft er út fyrir hinn þrönga hring stórúgerðarmanna.
Strandveiðarnar sýna að þetta er framkvæmanlegt þótt vissulega þurfi að vera vel á tánum til þess að tryggja að þær fari ekki úr böndunum.
![]() |
Óvitaskapur í sjávarútvegsráðuneytinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
17.1.2010 | 04:03
Svipað hjá Íslendingi fyrir löngu.
Lúðvík Karlsson, íslenskur svifflugmaður, var einhver mesti ævintýramaður sem Ísland hefur alið og ekki skemmdi fyrir magnaðasta frásagnargáfa sem ég hef orðið vitni að .
Ein af mörgum sögunum af ævintýrum Lúlla upp úr miðri síðustu öld var þegar hann var að keppa á alþjóðlegu svifflugmóti, en misreiknaði sig eitthvað og varð að lenda á öryggissvæði kjarnorkuvers.
Skytturnar sem ollu uppnámi í Texas eru því ekki þeir fyrstu sem hafa lent í svona ef marka má söguna af Lúlla.
Lúðvík var svo góður enskumaður að hann talaði það tungumál betur en íslensku. Þetta kom sér vel fyrir hann oftar en einu sinni þegar hann lenti í klandri og þurfi á enskunni að halda til að bjarga sér á jafn ævintýralegan hátt og uppákomurnar sjálfar voru.
Í bæði þau skipti sem ég þekki til að slíkt hafði gerst sýndi hann snilldartilþrif við að kjafta sig út úr vandræðunum.
![]() |
Uppnám í kjarnorkuveri út af gæsaskyttum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)