Minnir hrollvekjandi á Tenerifeslysið.

Atvikið á Luxemborgarflugvelli minnir óþægilega á mesta flugslys sögunnar á Los Rodeos á Tenerife þar sem 583 manns fórust við árekstur tveggja stórra farþegaþotna í þokusúld. 

Flugslys verða ævinlega hræðilegri en önnur slys þegar árekstrar verða eins og leiðir af eðli máls, miklum hraða, fjölda fólksins sem á í hlut og hæð frá jörðu eins og oftast er. 

En á jörðu niðri verða flugslysin líka verri en önnur. Væntanlega hafa ekki verið margir um borð í Cargolux-flutningavélinni en nógu mikill voru hraði og massi vélarinnar til að gera atvikið dramatískt. 

Fyrir mörgum áratugum var ég eitt sinn að aka flugvél minni að braut 20 (sem nú er 19) og yfir hana að skýli 4. Ég gangsetti hana þar sem hún stóð skammt frá brautinni og fékk samstundis heimild til að aka yfir. Það var þokusúld og lélegt skyggni og ætlunin aðeins að færa vélina yfir á svæðið við Fluggarða. 

Það liðu varla nema 20-30 sekúndur frá því komst í samband við turninn og fékk heimildina þangað til ég kom að brautinni. 

Þegar ég ver í þann veginn að aka inn á hana varð mér litið af tilviljun til hægri og sá þá þotu koma æðandi eftir henni út úr súldinni beint í áttina að mér. 

Ég stansaði auðvitað, dauðskelkaður og ringlaður, því að ég hafði ekki heyrt að þotan fengi flugtaksheimild. 

Þegar ég spurði flugumferðarstjórann hvers vegna þetta hefði gerst var hann alveg miður sín og sagði að þotan hefði verið búin að fá flugtaksheimild áður en ég komst í samband við turninn, en henni hefði dvalist það lengi úti á flugbrautarendanum, að hann hefði verið búinn að gleyma henni þegar hann gaf mér heimildina, enda sá hann ekki þotuna úr turninum vegna súldarinnar. 

Síðan þetta gerðist lít ég ævinlega vandlega til beggja hliða áður en ég eki flugvél yfir braut þótt ég hafi fengið heimild úr turni til aksturs og jafnvel þótt veðrið sé eins gott og hugsast getur. 

Augnablikið þegar þotan kom æðandi í áttina að mér gleymist aldrei. 

 


mbl.is Flugvél Cargolux lenti á bíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bóndadagur og maðurinn sem fann upp þorramatinn.

Þegar ég var að stálpast voru gömlu íslensku mánuðirnir og dagarnir að hverfa úr vitund fólks ef undan eru skildir sumardagurinn fyrsti og fyrsti vetrardagur.

En á sjötta áratugnum hóf Halldór Gröndal, þá veitingamaður að bjóða upp á sérstakan matseðil á þorranum og fyrr en varði urðu fyrirbrigðin þorramatur og þorrablót á hvers manns vörum. 

Síðar bættist endurlífgun bóndadagsins við og í tilefni af því birti ég hér texta við lag, sem nokkrar konur úr sönghópi, sem tók sér nafnið Árórur, sungu í morgunútvarpinu í morgun. Agnar Magnússon lék undir en Margrét Pálmadóttir útsetti.

Lagið var flutt fyrir 13 árum á bóndadaginn í þættinum Dagsljósi.  

Lagið er í valstakti en í síðasta erindinu brugðu konurnar á leik fóru í geggjaða gospel-sveiflu með lagið.  

 

TIL BÓNDANS Á BÓNDADAG.   (Með sínu lagi)

 

Þótt mörk séu körlum sem kynverum sett   /

og karlanna hlutverk sé skammvinnt og nett  /

þeir fá okkar hrós, sem þeim finnst mikilsvert,  / 

:,: fyrir það sem að þeir geta þó gert  :;:

 

Ég dekra við bóndann á bóndadag.   /

Blessaður karlinn, hann fær þetta lag.  /

Alltaf að basla og bæta minn hag.

:,: Blóm frá mér fær hann á bóndadag :,:  

 

Víst er hann ágætur, maðurinn minn  /

þótt megi hann bæta, -  hann er besta skinn.  /

Hann er svona´og svona, - ég elska hann þó,  /

:,: því án hans þá væri ég svipt allri ró :,:  

 

Ég daðra við bóndann á bóndadag.  /

Blessaður karlinn, hann fær þetta lag.  /

Alltaf að basla og bæta minn hag.  / 

:;: Blóm frá mér fær hann á bóndadag :;:

 

Ég daðra við bóndann á bóndadag   /

á dúndrandi balli við glaðbeittan brag. 

Barinn er opinn, nú hressa minn hag  /

hrútspungar vænir með örvandi lag,  /

sem bóndann minn gleðja á bóndadag !  / 

 

Nú er lag !     

 


mbl.is Íslenskt bygg í þorrabjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

30 ár afturábak.

Í samdrætti og niðurskurði kreppunnar eru sum staðar tekin risaskref afturábak. Það gerist nú hjá RUV og stefnir í enn verra hjá Landhelgisgæslunni. 

Fyrir þrjátíu árum var ég einn í hópi einhuga sjónvarpsmanna sem gagnrýndu byggingu útvarpshússins harðlega og ályktuðu gegn því að vera fluttir úr bílasmiðjuhúsinu við Laugaveg.

Er áreiðanlega fátítt að starfsmenn stofnunar álykti gegn því að vera fluttir í nýtt og stærra húsnæði.  

Ástæðan var sú að útvarpshúsið var ekki í upphafi hannað fyrir sjónvarp og nýting þess varð því óhjákvæmilega bæði slæm og röng þegar reynt var að troða sjónvarpi og útvarpi inn í rými sem átti upphaflega eingöngu að vera fyrir yfirstjórnina og hljóðvarpið. 

Nú sitjum við uppi með þetta hús sem er miklu stærra en það þyrfit að vea og kostar mikið fé að reka það út af fyrir sig og engin leið er að minnka kostnaðinn á þann hátt að minnka húsið 30 ár aftur í tímann. 

Hrafn Gunnlaugsson orðaði það svo að útvarps- og sjónvarpshús væru húsnæði til að framleiða dagskrá á sem hagkvæmastan hátt og einskis annars. 

Mér varð hugsað til þessa þegar ég kom suður á Florida til að sjá í hvernig húsnæði stórrar sjónvarpsstöðvar 300 milljón manna þjóðar var þar.

Í mörg ár hefur hljómað krafa um að hallareksur RUV verði stöðvaður.

Nú er verið að gera það og þá heyrir maður strax suma af þeim sem heimtuðu hressilegan niðurskurð leika Ragnar Reykás af miklum móð.

Þetta er að byrja að koma fram og því ekki auðvelt að sjá hvort rétt verður að þessum hrikalega niðurskurði staðið.

Þessir dagar eru svartir dagar í sögu kjölfestu íslenskrar fjölmiðlunar á þeim tíma þegar nauðsyn eflingar hennar er mest.

Manni er eiginlega orða vant yfir þessum ótíðindum og spyr: Þarf þetta að fara á þennan veg? 


mbl.is Svæðisfréttamönnum sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Strákarnir okkar."

Rústabjörgunarsveitarmennirnir sem vöktu athygli heimspressunnar á Haiti eru "strákarnir okkar" þessa dagana og skal þá ekkert lítið gert úr því að við stöndum með "strákunum" okkar á EM í Austurríki.  

Að sumu leyti er það sérkennileg tilviljun að eftir að efnahagskerfi landsins er í rúst skuli sveit af þessu tagi halda uppi heiðri þjóðarinnar.

Ég hef komið á alla vettvanga hörmulegra mannskaða á Íslandi síðan í snjóflóðinu í Neskaupstað 1972 og hef því verið í návígi við "strákana okkar" á innlendum vettvangi. Hef reyndar sjálfur verið félagi í björgunarsveit í þrjátíu ár.

Það sem þeir og heilbrigðisstéttirnar ganga í gegnum er ósambærilegt við allt annað sem fengist er við í þessu þjóðfélagi.

Þess vegna er frammistaða þeirra ekki bara ljós í hræðilegu myrkri hinna óskaplegu hamfara á Haiti heldur líka ljós á myrkum vetrardögum hér á landi, þar sem fengist er við rústabjörgun efnahagslegra hamfara.   


mbl.is Rústabjörgunarsveitin snýr heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband