Spurningin um langtímaúthaldið.

Í hinum frábæra aðdraganda að því að íslenska landsliðið er komið í undanúrslit hefur mætt mjög mikið á sömu mönnunum. 

Aðall leiks okkar hefur verið óhemju snerpa og hraði í vörninni. Til þess að geta haldið þessari snerpu og hraða í 60 mínútna leik þarf geysilegt úthald, hvað þá í heilu móti. Í síðustu leikjum mótsins getur þetta langtímaálag farið að bitna á mönnum, sama hve vel þjálfaðir þeir eru. 

Þetta er auðvitað vandamál allra í hinum hraða nútímahandbolta en í síðustu leikjunum mun ráða úrslitum hvort hægt verði að halda sömu snerpu og hraða allt til enda í hverjum einasta leik.

Við munum eftir hinu frábæra rússneska knattspyrnulandsliði á síðasta stórmót þegar það sýndi áður óþekktan hraða og keyrslu fram og til baka eftir vellinum.

Liðið hélt út í þessu vel inn í mótið, en síðan kom að því að útlokað var að halda þessari hraðakeyrslu uppi heilt mót.

Á HM 1961 var Ingólfur Óskarsson geymdur sem leynivopn í byrjun og kom síðan inn á í leik við Svía, sem þá voru með annað af tveimur bestu liðum heims.

Ingólfur var einhver mesta skytta sem Ísland hefur átt og gerðist Svíabani í þessum leik.

Manni dettur Logi Geirsson í hug núna, en munurinn er sá að 1961 var Ingólfur óþekktur en Logi er þekktur leikmaður.

Hins vegar gæti hungur hans og það að hann er óþreyttur og óslitinn af álagi gert það að verkum að það muni um hann.

Þetta verður spennandi. Hraður varnarleikur er líka aðall Frakkanna og kannski munu þeir eiga við sömu vandamál að stríða og við.  


mbl.is EM: Ísland mætir Frakklandi í undanúrslitum á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eitthvað annað".

Samningurinn um koltrefjaverksmiðjuna á Akureyri er dæmi um "eitthvað annað" sem álfíklar hafa nefnt svo í háðungarskyni til aðgreiningar frá risaálverum sem eiga að vera eina lausnin við atvinnuvanda Íslendinga.

Húsvíkingar hafa nú hengt allt sitt á álver á Bakka og Akureyringar ætla sér að njóta þess að fá "eitthvað annað" til sín.

Koltrefjaefni sækja nú á önnur efni, sem eru létt og sterk. Vinsælustu einkaflugvélar heims eru nú gerðar úr koltrefjum og nýjasta þota Boeing verður að stórum hluta úr koltrefjaefnum.

Forstjóri Boeing hefur sagt að þessi efni muni ryðja álinu burt, meðal annars vegna þess hve notkun þess sparar mörg störf við flugvélasmíðina.

Í fréttinni frá Akureyri er ekki greint frá því hve margir muni fá vinnu við verksmiðjuna né hve mikla orku hún muni nota.

Mig grunar þó að hún muni skapa fleiri störf á orkueiningu en álver, enda eru álver "orkufrekur iðnaður" eins og það er kallað og hefur verið flaggað sem jákvæðu orði, sem það auðvitað ekki er, því að þvert á móti ættu Norðlendingar að sækjast eftir iðnaði sem skapar fleiri störf á hvert megavatt og kaupendum orku, sem eru fleiri og smærri og henta því vel við virkjun jarðvarmasvæða, þar sem virkjað er hægt og bítandi í áföngum.

Sennilega verður maður að bera sig eftir nánari upplýsingum um störf, orkunotkun og mengun því að fréttamenn virðast ekki hafa áhuga á að spyrja að slíku ef marka má það að ekkert er greint frá þessum höfuðatriðum.

Ljóst er þó að metangasnotkunin er plús að öllu leyti, bæði umhverfislega séð og af hagkvæmnissjónarmiðum.


mbl.is Rammasamningur um koltrefjaverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við ætlum í gegn hvort eð er."

Þegar leitað var útskýringa á því á sínum tíma hvers vegna ítarlegar könnunarboranir hefðu verið gerðar á öllum gangaleiðum Kárahnjúkavirkjunar nema á 7 kílómetra kafla í miðri leið lengstu ganganna, þar sem sást úr lofti að væri mesta misgengi á þessu svæði sem gæti kollvarpað öllum áætlunum um virkjunina var svarið: "Við spöruðum tíma og fé með því að sleppa þessu enda ætluðum við í gegn þarna hvort eð var."

Þetta er lýsandi fyrir hugarfarið á bak við virkjana- og stóriðjuæðið sem ríkt hefur í anda gróðærisbólunnnar, hrunsins og framhaldsins af því.

Menn voru tilbúnir til að taka óheyrilega áhættu með stærstu framkvæmd Íslandssögunnar í trausti þess að hún væri hvort eð er ríkistryggð. Þeir sluppu ótrúlega  og óverðskuldað með sjö mánaða töf.

Sama hugarfarið ríkir í Helguvík og á Bakka. Það er farið af stað þótt eftir sé að sjá hvaða orka geti fengist fyrir 360 þúsund tonna risaálver, án þess að búið sé að útkljá um umhverfisáhrif virkjana, án þess að búið sé að klára rammaáætlun um þessi mál og án þess að huga að því hvort ekki sé með þessu vikið í burtu öðrum skaplegri og minni kaupendurm sem gæfu fleiri störf fyrir orkueiningu án mengunar.  

Auk þess var látið í veðri vaka í byrjun að álverið yrðí miklu minna en nú er komið á daginn að það verður að verða.

Línurnar og virkjanirnar verða í alls tólf sveitarfélögum en samt var farið af stað þótt eftir væri að leysa öll þau mál.

Um þetta og allt annað í þessum málum gildir Kárahnjúkamottóið: "Við ætlum í gegn hvort eð er."

Ólíkt því sem var um vatnsaflsvirkjanirnar við Búrfell og þar austur af er ekki vitað hve mikla orku er að fá á hverju jarðvarmasvæði fyrir sig heldur fullyrt og auglýst í síbylju frammi fyrir þjóðinni og heiminum að þarna verði um endurnýjanlega og hreina orku að ræða.

Íbúar í austasta hluta Reykjavíkur hafa nú fengið að vita hve tandurhreinar þessar virkjanir séu.  

Tveir sérfræðingar lýstu því í Morgunblaðsgrein að enda þótt ekki væri hægt að vita um endingu jarðvarmans fyrr en með árunum eftir að virkjað væri, væri samt hægt að halda orkunni endurnýjanlegri ef hún dalaði með því að minnka orkuvinnsluna nægilega.  

Einmitt það, já. Ef svona fer, verður þá orkan sem álverið á að fá minnkuð að sama skapi? Auðvitað ekki, það verður að standa við gerða samninga um þá landsölu sem er fólgin í því að tvö stórfyrirtæki hafi orku heils landshluta í gíslingu.

Og þá þarf að huga að því að fara lengra, í Kerlingafjöll og Landmannalaugar til að redda málum þegar þar að kemur, ef það verður þá ekki þegar búið að stúta þessum svæðum öllum burtséð frá öllum rammaætlunum sem menn hafa ekki látið tefja sig. 

Skammsýnið og fyrirhyggjuleysið er algert. Ábyrgðarleysið gagnvart komandi kynslóðum sömuleiðis.

Við ætlum að stúta þessu öllu hvort eð er eins og Flosi heitinn Ólafsson lýsti svo vel:

 

Seljum fossa og fjöll !

Föl er náttúran öll !

Og landið mitt taki tröll !  


mbl.is Fagnar ákvörðun umhverfisráðuneytisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættulegt að hugsa um jafntefli.

"Íslenska liðinu dugar jafntefli." "Þriggja marka tap getur dugað." "Hagstæð önnur úrslit geta dugað." 

Hugarfarið í ofangreindum þremur setningum getur verið varasamt ef það síast inn í undirmeðvitund íslenska landsliðsins í handbolta í leiknum við Norðmenn í dag.

Í tveimur leikjum liðsins kom í ljós hve stutt er á milli þess að vinna með einu marki eða gera jafntefli og það er alveg jafn lítill munur á því að gera jafntefli og tapa.

Íslenska liðið fór greinilega inn í síðustu leiki sína með því hugarfarið að vinna og sama hugarfar mun reynast þeim drýgst í leiknum við Norðmenn í dag.  


mbl.is EM: Sama munstur og 2002?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband