22.10.2010 | 22:40
Meðábyrgð Íslendinga.
Fyrir tæpum átta árum ákváðu tveir íslenskir ráðamenn einslega að Íslendingar legðu lið ólöglegum hernaði á hendur fjarlægri þjóð sem stuðningsmenn og viljugir bandamenn Bandaríkjamanna og Breta.
Þótt fyrirliggjandi tölur um mannfall í röðum Íraka sveiflist á milli 77 þúsund og 109 þúsund skiptir það ekki höfuðmáli heldur hitt að með alræðisákvörðun sinni voru við Íslendingar gerðir ábyrgir fyrir því sem gerst hefur í Írak af völdum hernaðarins þar.
Menn geta svo sem giskað á hve margir hefðu látið lífið af völdum hins illa einræðisherra Saddams Husseins en vafasamt er að þeir hefðu orðið svona margir og varla hefði verið hægt að telja okkur Íslendinga meðábyrga.
![]() |
109 þúsund Írakar látnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.10.2010 | 13:04
Var þetta leikrit hjá Rooney ?
Ekki þarf að efa að Waney Rooney hlýtur að hafa gert góðan og hagstæðan samning fyrir sig við Manchester United. Sú spurning mun samt líklega vakna hvort þarna hafi verið um meðvitað eða ómeðvitað "leikrit" af hans hálfu til þess að láta á það reyna hvað hann gæti haft upp úr krafsinu með því að hóta að fara annað.
En mér þykir hins vegar alltaf réttara að ætla mönnum ekki neitt nema annað sannist.
Rooney kann, þótt ungur sé að árum, hafa fengið svipaða tilfinningu og Ingimar heitinn Eydal lýsti á sínum tíma, sem sé þá að honum fyndist hann, með réttu eða röngu, vera orðinn eins konar húsgagn á vinnustað sínum.
Sem sagt, orðinn leiður á vistinni.
Viðbrögðin, sem Rooney fékk þegar hann sagðist vilja fara, hafa hins vegar sýnt honum að hjá M.U. gæti hann búist við góðum og uppörvandi tímum. Ef það er niðurstaðan, var það bara hið besta mál hjá honum, að tala hreint út og hreinsa síðan andrúmsloftið.
![]() |
Rooney með fimm ára samning við Man.Utd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.10.2010 | 10:00
Gætum nú vel að.
Drög að tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkur varðandi hlut kristni, siðfræði og trúarbragðafræðum og samstarf skóla og trúfélaga hafa vakið athyglisverð skoðanaskipti á blogginu og í samfélaginu.
Í bloggi séra Þórhalls Heimissonar og athugasemdum við það hefur verið deilt um þetta og hefur hann mátt hafa sig allan við að leiðrétta ýmsan misskilning og beinar rangfærslur um málið.
Má þar nefna ásakanir um ótilhlýðilega innrás trúfélags í skóla, sem þrátt fyrir ítrekaða ósk Þórhalls um að yrði rökstudd með dæmi, fékkst ekki staðfest.
Einnig komu fram miklir fordómar og vanþekking á menntun presta og annarra sem hafa annast þessa þjónustu hingað til.Nú er það svo að vel þarf að gæta að því að gildandi ákvæði um trúfrelsi í stjórnarskránni séu virt á öllum sviðum þjóðlífsins. Hins vegar er engin leið að komast fram hjá áhrifum kristninnar á menningu okkar og þjóðlíf og þetta á ekki aðeins við um okkar land heldur önnur lönd þar sem ólíkir siður og trúarbrögð ríkja.
Í öllum löndum eru hátíðisdagar, hátíðahald og menningarleg starfsemi sem hafa mikil áhrif á daglegt líf. Ekki er möguleiki að komast hjá því að útskýra af hverju þessi atriði eru sprottin og sinna þeim menningarlegu perlum sem þeim tengjast.
Af sumum athugasemdum um þetta mál mætti ráða að maður verði að fara að hugsa sig alvarlega um áður en maður tekur þátt í ýmsum athöfnum, sem tengjast kristinni trú.
Þannig hefur það verið ómissandi þáttur í lífi mínu að fara með félögum í Lionsklúbbnum Ægi austur á Sólheima í Grímsnes og taka þátt í litlu jólunum þar með fólkinu. Sú samkoma hefur endað á því að við höfum sungið öll saman "Litla jólabarn" og "Heims um ból".
Sólheimar hafa lengi notið eðlilegs ríkisstyrks og heyrt að því leyti undir félagsmálaráðuneytið. Að því leyti til er þetta opinber stofnun.
Nú fara að renna á mann tvær grímur ef maður tekur mark á því sjónarmiði að útrýma skuli "áróðri" fyrir kristni í opinberum stofnunum.
Ég telst þá væntalega vera sekur um "áróður" með því að syngja Litla jólabarn, að ekki sé nú talað um að hafa samið þennan texta og sungið hann inn á plötu á sínum tíma.
Því segi ég: Gætum nú vel að hvað við gerum og flönum ekki að neinu.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)