Gætum nú vel að.

Drög að tillögum mannréttindaráðs Reykjavíkur varðandi hlut kristni, siðfræði og trúarbragðafræðum og samstarf skóla og trúfélaga hafa vakið athyglisverð skoðanaskipti á blogginu og í samfélaginu.

Í bloggi séra Þórhalls Heimissonar og athugasemdum við það hefur verið deilt um þetta og hefur hann mátt hafa sig allan við að leiðrétta ýmsan misskilning og beinar rangfærslur um málið. 

Má þar nefna ásakanir um ótilhlýðilega innrás trúfélags í skóla, sem þrátt fyrir ítrekaða ósk Þórhalls um að yrði rökstudd með dæmi, fékkst ekki staðfest.

Einnig komu fram miklir fordómar og vanþekking á menntun presta og annarra sem hafa annast þessa þjónustu hingað til.

Nú er það svo að vel þarf að gæta að því að gildandi ákvæði um trúfrelsi í stjórnarskránni séu virt á öllum sviðum þjóðlífsins. Hins vegar er engin leið að komast fram hjá áhrifum kristninnar á menningu okkar og þjóðlíf og þetta á ekki aðeins við um okkar land heldur önnur lönd þar sem ólíkir siður og trúarbrögð ríkja. 

Í öllum löndum eru hátíðisdagar, hátíðahald og menningarleg starfsemi sem hafa mikil áhrif á daglegt líf. Ekki er möguleiki að komast hjá því að útskýra af hverju þessi atriði eru sprottin og sinna þeim menningarlegu perlum sem þeim tengjast. 

Af sumum athugasemdum um þetta mál mætti ráða að maður verði að fara að hugsa sig alvarlega um áður en maður tekur þátt í ýmsum athöfnum, sem tengjast kristinni trú. 

Þannig hefur það verið ómissandi þáttur í lífi mínu að fara með félögum í Lionsklúbbnum Ægi austur á Sólheima í Grímsnes og taka þátt í litlu jólunum þar með fólkinu. Sú samkoma hefur endað á því að við höfum sungið öll saman "Litla jólabarn" og "Heims um ból". 

Sólheimar hafa lengi notið eðlilegs ríkisstyrks og heyrt að því leyti undir félagsmálaráðuneytið. Að því leyti til er þetta opinber stofnun. 

Nú fara að renna á mann tvær grímur ef maður tekur mark á því sjónarmiði að útrýma skuli "áróðri" fyrir kristni í opinberum stofnunum. 

Ég telst þá væntalega vera sekur um "áróður" með því að syngja Litla jólabarn, að ekki sé nú talað um að hafa samið þennan texta og sungið hann inn á plötu á sínum tíma. 

Því segi ég: Gætum nú vel að hvað við gerum og flönum ekki að neinu. 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ingólfsson

Það er rangur misskilningur hjá þér Ómar þegar þú segir:

"Ég telst þá væntalega vera sekur um "áróður" með því að syngja Litla jólabarn, að ekki sé nú talað um að hafa samið þennan texta og sungið hann inn á plötu á sínum tíma."

Þér og öðrum er heimilt að hafa uppi hvern þann "áróður" sem ykkur hugnast og engin ástæða til að þrengja þann tjáningarrétt.

Málið snýst um það hvort skólarnir eigi að standa opnir fyrir sumum "áróðri" en ekki öðrum.

Þó svo að settt séu almenn "áróðursviðmið" fyrir skóla, -þá er áfram opið að ríkið fjármagni einstakar stofnanir (Sólheima) sem haf tengsl við kirkjuna. Slíkt er ekki langsóttara en ríkisframlög til kirkjunnar sjálfrar.

Aukinn trúboðsáhugi kirkjunnar í skólum og leikskólum er víst mikið til af völdum sjónvörpunar barnaefnis á sunnudagsmorgnum. Þetta sjónvarpsgláp barnanna drap sunnudagaskóla kirkjunnar. Stór hluti þess fólks sem er burðarásar sinna söfnuða, sem og stór hluti prestaflórunnar fékk sína trúaruppeldi í sunnudagaskólunum. Það er því skiljanlegt að kirkjan sé farin að smala eftir öðrum leiðum.

Það er hinsvegar eðlileg krafa að kirkjan reki sig á eigin forsendum, í eigin tíma og í eigin húsnæði, rétt eins og önnur félagsstarfsemi í landinu og sé ekki að valda óþarfa árekstrum í almennu skólastarfi.

Jésús Jósefsson sagði víst um árið: -Leifið börnunum að koma til mín. Hann hefur örugglega ekki haft hugmyndaflug til að segja: -Leifið prestunum að fara í skólana og sækja börnin!

Verð að skjóta með sögunni af 7 ára guttanum sem fór ásamt foreldrunum að sjá hefðbundna uppsetningu á helgileiknum í fjárhúsinu í sínum skóla. Þegar vitringarnir gengu í salinn í eyðimerkurklæðnaðinum, benti þá stutti á þá og sagði allhátt við móður sína; -Nei-nei-nei-nei, þessir eru sko alveg eins og Al-kaida.....

Karl Ingólfsson, 22.10.2010 kl. 11:16

2 identicon

Það rifjast upp fyrir mér, að það var sóknarpresturinn sem kenndi okkur skólasystkinum söguna um Múhameð. Og Múhameðstrú. Og fleira var nefnt, s.s. guðatrú og andatrú, trú á stokka og steina, og trú á ekki neitt.

Þegar ég rifja þetta upp (yfir 30 ár), þá dáist ég að því hversu vel þetta fór. Það var enginn áróður í þessu hjá klerki, heldur algert umburðarlyndi.

Svo ber að hugsa til þess að almenn löggjöf okkar þjóðfélags byggist á kristnum gildum, ákv. umhyggja fyrir náunganum, ákv. skilgreining á glæp og margt fleira. Þetta er ekkert sem fer "úr tísku".

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 12:35

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég á við það að það flokkist sem ólöglegur áróður að syngja þennan texta á opinberum stofnunum.

Hins vegar er það rétt að heimilt er að semja svona texta og lög en það er samt svolítið nýtt fyrir mér ef flokka má efni þeirra undir "áróður", þótt löglegur sé. 

Ómar Ragnarsson, 22.10.2010 kl. 13:10

4 identicon

Góð grein sem hittir í mark. Bestu þakkir fyrir hana. Kristin trú er svo samofin íslenskri menningarsögu og áhrif Biblíunnar svo snar þáttur í þeirri sögu að um leið og íslenskt menntakerfi hyggst afgreiða þessa þætti sem feimnismál sem ýta beri til hliðar þá er það kerfi á villigötum. Ásakanir um "trúboð" í skólum eiga ekki við rök að styðjast.

Gunnlaugur A. Jónsson (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 15:39

5 identicon

Hvað með krakkanna sem eru múslimstrúar, ásatrúar eða trúlausir? Eiga þeir ekki rétt á menntun þar sem ekki er verið að troða öðrum trúm uppá þau? Það var líka held ég tekið skýrt fram að jóla- og páskahald verður áfram eins og vanalega.

Það  var nú einu sinni hluti af menningu okkar að leggjast í víking, eigum við að fara stunda það aftur? Bara af því að það var einu sinni alltaf gert eru ekki góð rök fyrir því að við ættum að halda áfram að gera það.

Magnús Eggertsson (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 18:35

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Krakkarnir sem eru múslimstrúar, ásatrúar eða trúlausir" eiga rétt á menntun þar sem ekki er "verið að troða öðrum trúm upp á þau."

Með framangreindu orðalagi Magnúsar Eggertssonar er gefið í skyn að hver grunnskólanemandi eigi rétt á því að fá aðeins fræðslu um þau trúarbrögð sem foreldrar hans aðhlyllist og engum öðrum trúarbrögðum sé "troðið upp á hann.

Ef ég væri ungur maður með fjölskyldu og ætti heima í landi með önnur trúarbrögð en okkar þætti mér það eðliegt og í raun praktískt að börn mín fengju sem besta fræðslu um þau trúarbrögð til þess að þau áttuðu sig betur á viðkomandi samfélagi og gildunum, sem ríktu í því. 

Með því væri ekkert verið að "troða" þeim trúarbrögðum upp á þau. 

Það er ekkert "verið að troða trú" upp á nemendur íslenskra grunnskóla þótt þeir fái að vita þau trúarbrögð sem mest áhrif hafa haft á menningu og þjóðlíf okkar.

En jafnframt ættii að vera skylt að veita sem víðfeðmasta fræðslu um önnur helstu trúarbrögð veraldar. 

Meðan þau eru svona mikill hluti af ólíkum menningarheimum er beinínis lífsnauðsynlegt fyrir skilning á milli þjóða að vita sem mest um þá til að vinna gegn fordómum, sem byggjast á fáfræði. 

Ómar Ragnarsson, 22.10.2010 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband