4.10.2010 | 23:54
Í slæmum félagsskap.
Nasistar svívirtu grafreiti Gyðinga og brutu rúður í guðshúsum þeirra á sinni tíð.
Öfgafullir Gyðingar brutu nýlega rúður í Mosku Múslima nálægt landnemabyggðum Gyðinga.
Þótt ribbaldar og ofbeldismenn Sturlungaaldar fremdu mörg illvirki létu þeir þó kirkjur landsins í friði og virtu kirkjugrið.
Þeir sem brjóta ítrekað rúður í Dómkirkju landsins skipa sér nú á bekk með nasistum og öðrum ofbeldismönnum erlendum.
Mótmælin nú þurfa á öðru að halda en svona athæfi sem setur blett á okkur sem siðmenntaða þjóð.
![]() |
Rúður brotnar í þinghúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.10.2010 | 21:59
Kapítalismi andskotans ?
Það skyldi þó ekki vera að mun fleira fólk komi nú saman til mótmæla á Austurvelli en flestir áttu von á vegna þess að daglega berast okkur fréttir af því hvernig bankarnir fara silkihönskum um þá sem voru innstu koppar í aðdraganda Hrunsins á sama tíma sem venjulegt fólk er keyrt í þrot ?
Upphæðirnar, sem þessar fréttir greina eftirgjafir frá varðandi sægreifa og auðmenn, eru svo háar, að venjulegt fólk á erfitt með að ná upp í þær.
Upplýst er að Bjarni Ármannsson hafi eina milljón króna í tekjur á dag en samt fékk hann 800 milljóna króna eftirgjöf frá Glitni!
Upplýst er að hinar miklu tekjur hans fáist vegna vel heppnaðra fjárfestinga. Hins vegar hafi ein fjárfestingin mistekist hjá honum.
Ef rétt er hermt um hagi Bjarna og lögmálin sem hann ætti að hlíta á markaðstorgi fjárfestinganna, ætti það að vera eðlilegt að hann tæki á sig tapið af þessari einu mislukkuðu fjárfestingu, enda gæti hann greitt þessar 800 milljónir upp á þremur árum ef rétt er hermt um tekjur hans af hinum fjárfestingunum.
En svo virðist sem um þetta mál gildi aðeins helmingur markaðslögmálanna, sem sé það að viðkomandi eigi rétt á að njóta óhemju arðs af því sem vel gengur, en hins vegar eigi hann að sleppa við afleiðingarnar af rangri fjárfestingu sinni.
Sama á við um fjölskyldufyrirtæki sægreifafjölskyldu Halldórs Ásgrímssonar á Hornafirði.
Þar komst þetta forréttindafólk upp með það að skammta sér 600 milljóna króna arð af fyrirtæki, sem stefndi í þrot, með því að taka fé að láni, ef rétt er eftir hermt.
Bankinn, sem lét það viðgangast að gefa þessum sægreifum þar að auki eftir 2600 milljónir króna, er í eigu ríkisins, það er í eigu almennings.
Er furða að þúsundir fólks, sem teljast eigendur þessa banka, sé reitt þegar því er sagt að éta það sem úti frýs og missa húsnæði sitt og taka um leið þátt í því að gefa auðgreifum þúsundir milljóna króna á silfurfati ?
Þau útgjöld bankans eru á kostnað allra eigenda hans, líka þeirra sem nú er hundsað að liðsinna í þrengingum þeirra.
Það vantaði ekki að fljótt og vel væri brugðist við varðandi auðgreifana en þúsundir fólks þurfa hins vegar enn að bíða eftir því að eitthvað sé gert í þeirra málum.
Ég ítreka það sem ég hef áður sagt og Valgerður Bjarnadóttir var að segja nú rétt áðan í þingræðu, að það verður að útskýra það strax og afdráttarlaust hvers vegna svona ákvarðanir eru teknar í ríkisbönkum.
Ef það er ekki hægt verður að breyta lögum án tafar til þess að ráðast gegn þeim þeim kapítalistma andskotans, sem fólki finnst vera slegið utan í sig daglega eins og blautri tusku þessa dagana.
![]() |
Bankarnir hafa dregið lappirnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.10.2010 | 11:26
Búsáhaldabyltingu breytt í "tunnubyltingu"?
Búsáhaldabyltingin er nú orðið nafn, sem viðurkennt er sem samheiti um þau mótmæli sem viðhöfð voru frá október 2008 til janúar 2009.
Það er að vísu erfiðara að rogast með tunnur niður á Austurvöll en venjuleg búsáhöld en áberandi stækkun á tækjum mótmælenda gæti samt fest nafn tunnunnar í sessi ef mál þróast á þann veg að hægt sé að tengja þessi tól við mótmæli eða jafnvel umskipti, "tunnubyltingu".
Tunnan hefur að vísu dálítið sérstakt tilfinningalegt gildi fyrir mig því að þegar nemendur 2. bekkjar Lindagötuskólans föndruðu við það að setja saman róttækan framboðslista unglinga við bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík í janúar 1954 á vegum "Farísea og fræðimannaflokksins", steig ég upp á öskutunnu fyrir framan skólann og flutti þar ræðu, sem hlaut nafnið "öskutunnuræðan."
Síðan vekur nafnið öskutunna alltaf svolítið sérkennilegar minningar frá unglingsárum mínum.
Aldrei varð neitt úr öskutunnubyltingunni og vænta mátti en ég held samt að hugmyndin hafi ekki verið galin, bara 56 árum á undan samtíð sinni.
![]() |
Tunnumótmæli við stefnuræðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.10.2010 | 11:10
Eldsneytisgjöldin enn skásti skatturinn.
Vel þarf að ígrunda opinberar álögur á umferðina. Miðað við núverandi ástand og næstu framtíð eru gjöld á eldsneyti, þótt óvinsæl séu, skásta skattlagningin.
Sá, sem vill eða þarf að aka mikið og vill nota stóran bíl, greiðir þá gjöld í samræmi við það.
En það þarf líka að líta á fleira. Á ágætri mynd Gísla Marteins Baldurssonar af sama götukaflanum með mismunandi farartækjum, 1. myndin með götunni þar sem allir eru á bílum, 2. myndin af sömu götu þar sem allir ferðast með strætó og 3ja myndin af sömu götu, þar sem allir ferðast á reiðhjólum, sést að bílarnir taka langmest rými og þess vegna krefjast þeir lang fyrirferðarmestu og dýrustu samgöngumannirkjanna.
En það vantar 4ðu myndina hjá Gísla. Hún er af þessum götukafla þar sem bílarnir eru allir 1,5 metrum styttri. Þá myndi sjást að það fer að sjálfsögðu eftir lengd bílanna hve mikið rými og hve stór og dýr samgöngutæki löngu bílarnir taka umfram þá stuttu.
Í Japan er óbeint skattlagt í samræmi við þetta og njóta bílar, sem eru styttri en 3,40 metrar skattfríðinda.
Í GPS mælingu framtíðarinnar á notkun á malbikinu mætti taka tillit til þess hve mikið rými bíllinn notar.
Ég held hins vegar að eldsneytisgjöldum sé ekki skynsamlegt að kasta alveg fyrir róða. Stórir og þungir bílar bæði eyða meiri gjaldeyri en litlir og léttir og slíta auk þess vegum meira.
![]() |
Veggjöld um GPS í stað eldsneytisskatta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)