14.11.2010 | 22:45
Gott, en jafnast ekki á við raunveruleikann.
Fyrir nokkrum árum fékk ég að prófa nokkurs konar flughermi þar sem hægt var að fljúga í tölvugerðu útsýnisflugi um allt land.
Ég þurfti ekki að fljúga lengi til að sjá að það var afar mismunandi hvað maður fékk út úr þessu flugi.
Niðurstaðan var sú að það væri helst á Vestfjörðum, Miðnorðurlandi og Austfjörðum sem þetta flug líktist raunverulegu flugi.
Hins vegar var flug í flatara landslagi sumstaðar algerlega sviplaust og gaf litla mynd af raunverulegu útsýni, svo sem í nágrenni Reykjavíkur, á Suðurlandsundirlendinu og yfir hraunlandslagi.
Svona tölvugert flug í hermi getur verið mjög gagnlegt og orðið góður undirbúningur fyrir raunverulega flugferð. En enn um sinn mun raunveruleikinn þó taka eftirlíkingunni langt fram.
![]() |
Í flughermi um Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.11.2010 | 19:27
Ali okkar tíma ?
Ef Monica Brant er Arnold Schwarzenegger okkar tíma stefnir Manny Paquiao í það að verða Ali okkar tíma eftir frábæra frammistöðu sína í nótt í bardaga við Antonio Margarito.
Pacman eins og hann er kallaður var umfjöllunarefni 60 mínútna þáttarins sem sýndur var í dag, en sárasjaldgæft er að hnefaleikarar séu taldir þess verðir.
Fram kom í þættinum að Paquiao væri af sumum þeim reyndustu í bransanum vera orðinn betri en nokkur annar hnefaleikari í sögunni, Muhammad Ali meðtalinn.
Raunar var alveg frábær hnefaleikanótt í nótt og unun að lýsa síðustu bardögunum.
Sennilega hefur aldrei neinn íþróttamaður notið eins mikillar hylli í heimalandi sínu og Paquiao. Allir, bókstaflega ALLIR á Filippseyjum, horfa á bardaga hans, hvar sem því verður við komið.
Þessi ljúfi maður á hvert bein í öllum, og 75 þúsund manns fylltu hina risastóru höll í Arlington í Texas þar sem viðstaddir sögðu, að andrúmsloftið væri magnaðra en á nokkrum öðrum stórviðburði í íþróttum.
Paquiao hefur hlotið heimsmeistaratitla í átta þyngdarflokkum en það á sér enga hliðstæðu í sögu hnefaleikanna.
Sumir telja að hann sé nú besti hnefaleikari sem uppi hefur verið, betri en Sugar Ray Robinson og Muhammad Ali.
Allir þessir meistarar hafa átt það sameiginlegt að hraðinn var þeirra helsta vopn, svo skætt, að um það mátti nota orðin "hraðinn drepur."
Hnefaleikarar missa hraðann fyrr en höggþyngdina með aldrinum og er það ákaflega persónubundið hvenær hraðinn fer að minnka.
Paquiao er þingmaður og er það farið að bitna á æfingum hans og undirbúningi.
Þetta og það, að andstæðingur hans í nótt var 12 sentimetrum hærri og þyngri og öflugri á alla lund, skapaði spennu fyrir þennan bardaga.
En Paquiao sýndi fádæma yfirburði í bardaganum, vann hverja lotuna á fætur annarri og nýtt sér til hins ítrasta helstu kosti sína, yfirburða hraða og hreyfanleika og hnitmiðuð, nákvæm, hröð og þung högg sem voru búin að fara svo illa með andlit Margarito, að dómarinn hefði átt að stöðva bardagann í 11. lotu.
En í 12. lotu sýndi Paquiao mikið göfulyndi og miskunn. Í stað þess að fara hamförum og ganga endanlega frá Margarito, tók hann því rólega mestalla síðustu lotuna og hlífði Margarito greinilega við því að taka á sig svo mörg högg að það hefði getað skaðað hann til framtíðar.
Freddie Roach sagði fyrir bardagann að að því myndi koma að skyndilega yrði Paquiao þingmaður en ekki hnefaleikari lengur.
Dæmi er um að þeir bestu hafi dofnað við að dreifa athyglinni að öðru en íþróttinni.
Jack Dempsey linaðist á sínum tíma í hinu ljúfa samkvæmislífi, Ali fór í þriggja og hálfs árs keppnisbann vegna þátttöku í stjórnmálum, Joe Frazier fór að syngja með hljómsveit og var niðurlægður af George Foreman, Tyson klúðraði einkamálum sínum og Lennox Lewis fór að leika í Hollywood og lét Hasim Rachman rota sig.
Yfirburðir Roy Jones jr. byggðust á fádæma hraða. Um leið og hann minnkaði varð hann skyndlega að ósköp venjulegum hnefaleikara sem var rotaður ítrekað í stað þess að geta leyft sér að brjóta reglurnar á ævintýralegan hátt.
Persónubundið er hvenær hraðinn fer að minnka. 100 metra hlauparar geta ekki blekkt klukkuna og lengstum hefur verið talið á líkamlegt hámark hraðans og atgerfisins sé um 25 ára aldur.
Linford Christie sýndi hins vegar að hann hélt hraðanum til 35 ára aldurs.
Þess vegna gæti Paquiao haldið hraðanum eitthvað enn en líka þurft að sæta því að vera sviptur sínu skæðasta vopni fyrirvaralítið.
![]() |
Arnold Schwarzenegger kvenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)