Ali okkar tíma ?

Ef Monica Brant er Arnold Schwarzenegger okkar tíma stefnir Manny Paquiao í það að verða Ali okkar tíma eftir frábæra frammistöðu sína í nótt í bardaga við Antonio Margarito.

Pacman eins og hann er kallaður var umfjöllunarefni 60 mínútna þáttarins sem sýndur var í dag, en sárasjaldgæft er að hnefaleikarar séu taldir þess verðir. 

Fram kom í þættinum að Paquiao væri af sumum þeim reyndustu í bransanum vera orðinn betri en nokkur annar hnefaleikari í sögunni, Muhammad Ali meðtalinn. 

Raunar var alveg frábær hnefaleikanótt í nótt og unun að lýsa síðustu bardögunum. 

Sennilega hefur aldrei neinn íþróttamaður notið eins mikillar hylli í heimalandi sínu og Paquiao. Allir, bókstaflega ALLIR á Filippseyjum, horfa á bardaga hans, hvar sem því verður við komið.

Þessi ljúfi maður á hvert bein í öllum, og 75 þúsund manns fylltu hina risastóru höll í Arlington í Texas þar sem viðstaddir sögðu, að andrúmsloftið væri magnaðra en á nokkrum öðrum stórviðburði í íþróttum.

Paquiao hefur hlotið heimsmeistaratitla í átta þyngdarflokkum en það á sér enga hliðstæðu í sögu hnefaleikanna. 

Sumir telja að hann sé nú besti hnefaleikari sem uppi hefur verið, betri en Sugar Ray Robinson og Muhammad Ali. 

Allir þessir meistarar hafa átt það sameiginlegt að hraðinn var þeirra helsta vopn, svo skætt, að um það mátti nota orðin "hraðinn drepur." 

Hnefaleikarar missa hraðann fyrr en höggþyngdina með aldrinum og er það ákaflega persónubundið hvenær hraðinn fer að minnka. 

Paquiao er þingmaður og er það farið að bitna á æfingum hans og undirbúningi.  

Þetta og það, að andstæðingur hans í nótt var 12 sentimetrum hærri og þyngri og öflugri á alla lund, skapaði spennu fyrir þennan bardaga. 

En Paquiao sýndi fádæma yfirburði í bardaganum, vann hverja lotuna á fætur annarri og nýtt sér til hins ítrasta helstu kosti sína, yfirburða hraða og hreyfanleika og hnitmiðuð, nákvæm, hröð og þung högg sem voru búin að fara svo illa með andlit Margarito, að dómarinn hefði átt að stöðva bardagann í 11. lotu. 

En í 12. lotu sýndi Paquiao mikið göfulyndi og miskunn.  Í stað þess að fara hamförum og ganga endanlega frá Margarito, tók hann því rólega mestalla síðustu lotuna og hlífði Margarito greinilega við því að taka á sig svo mörg högg að það hefði getað skaðað hann til framtíðar. 

Freddie Roach sagði fyrir bardagann að að því myndi koma að skyndilega yrði Paquiao þingmaður en ekki hnefaleikari lengur. 

Dæmi er um að þeir bestu hafi dofnað við að dreifa athyglinni að öðru en íþróttinni.

Jack Dempsey linaðist á sínum tíma í hinu ljúfa samkvæmislífi, Ali fór í þriggja og hálfs árs keppnisbann vegna þátttöku í stjórnmálum, Joe Frazier fór að syngja með hljómsveit og var niðurlægður af George Foreman, Tyson klúðraði einkamálum sínum og Lennox Lewis fór að leika í Hollywood og lét Hasim Rachman rota sig. 

Yfirburðir Roy Jones jr. byggðust á fádæma hraða. Um leið og hann minnkaði varð hann skyndlega að ósköp venjulegum hnefaleikara sem var rotaður ítrekað í stað þess að geta leyft sér að brjóta reglurnar á ævintýralegan hátt. 

Persónubundið er hvenær hraðinn fer að minnka. 100 metra hlauparar geta ekki blekkt klukkuna og lengstum hefur verið talið á líkamlegt hámark hraðans og atgerfisins sé um 25 ára aldur. 

Linford Christie sýndi hins vegar að hann hélt hraðanum til 35 ára aldurs. 

Þess vegna gæti Paquiao haldið hraðanum eitthvað enn en líka þurft að sæta því að vera sviptur sínu skæðasta vopni fyrirvaralítið. 


mbl.is „Arnold Schwarzenegger kvenna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

 Þú góður að lýsa, eins og venjulega og þvílíkur boxari og grand finale.

Tryggvi L. Skjaldarson, 14.11.2010 kl. 20:26

2 Smámynd: Tryggvi Hübner

Boxið er í eðli sínu gróf og ruddaleg íþrótt en svo kemur maður eins og Manny Pacquiao og frammistaða hans í gær var einfaldlega fegurðin ein. Algjör upplifun að fylgjast með þessu, maðurinn er tvímælalaust einn af fremstu íþróttamönnum heims í dag. Og sýndi auk þess íþróttamennsku í hæsta gæðaflokki í síðustu lotunum. En Mayweather er minn maður og yrði sigurstranglegri að mínu mati. Einnig var skemmtilegur upphitunarbardaginn, þar átti Sotokarras skilið að vinna. Stórkostlegt boxkvöld -takk fyrir !

TH

Tryggvi Hübner, 15.11.2010 kl. 02:44

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mayweather er besti varnarmaðurinn og stærri en Paquiao. Það er stærsti harmur hnefaleikanna í dag að fá ekki að sjá þessa tvo bestu leiða saman hesta sína.

Ótalinð er eitt sem heillar ævinlega: Það er þegar sá sem er minni sigrar þann stærri, Davíð og móti Golíat, Ali á móti Foreman. 

Ómar Ragnarsson, 15.11.2010 kl. 14:22

4 Smámynd: Handoltafregnir - Allt um handbolta!

Takk fyrir þetta æðislega kvöld. Það er unun að hlusta á þig lýsa, þú veist svo mikið um box. Þú átt eftir að lýsa þangað til þú kveður okkur og þá mun ekki vera neinn arftaki sem veit jafn mikið og þú. En þetta kvöld var algjör snilld. Mike Jones í annari lotuni var algjör unun að horfa á 100 högg, en hann sprengdi sig og tapaði 3,4,5,6,7,8,9,10,11 og 12 lotunni svo Soto Karass átti sigur skilið. Ótrúlegt skrokkhögg hjá Guillermo Rigondeaux, eitt þeirra sló andstæðinginn niður. Pacquiao er frábær boxari sem verður að berjast við Floyd Mayweather en þeir sega báðir í kross hann þorir ekki að berjast við mig. Vonandi verður að bardaganum sem yrði stærsti bardagi, ja hva, síðan hvenær eiginlega??

Takk fyrir kvöldið ;)

Handoltafregnir - Allt um handbolta!, 17.11.2010 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband