Rétta leiðin í kreppunni.

Þjóðir, sem lent haf í kreppu eins og við Íslendingar, hafa reynt að nota ýmis ráð við að vinna bug á henni. Í fljótu bragði kann að virðast sem það að draga allt saman, hverju nafni sem nefnist, sé eina leiðin en svo er þó ekki.

Aðrar þjóðir hafa haft lærdóma af því að nota mismunandi aðferðir við að komast upp úr kreppunni og eitt af því sem best hefur reynst er að efla hvers konar menntun, einkum þeirra, sem eru atvinnulausir.

Kosturinn við slíka "fjárfestingu" er sá að hann nýtist í framtíðinni.

Hér á landi er landlægt að einblína á stóriðju- og virkjanaframkvæmdir sem þjóðráð. 

Þar er á tvennt að líta.

1. Þau störf sem sköpuð eru til framtíðar er dýrustu störf sem mögulegt er að skapa jafnvel þótt öll orka landsins verði sett í álver munu aðeins um 2% vinnaflsins fá vinnu á þann hátt.

2. Þótt einhver þúsund fái atvinnu við framkvæmdir við að reisa álver og virkjanir verða sömu þúsundirnar atvinnulausar aftur þegar framkvæmdum lýkur.  Ég hef kallað þetta "skómigustefnu" vegna þess hve skammsýn hún er.  


mbl.is „Við erum hætt að bíða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreint með ólíkindum.

Hvað er hálka í marga daga á götum Reykjavíkur.  Á því hálfa ári sem líður frá miðjum október til miðs apríl eru þetta þegar klukkustundirnar eru taldar saman líklega um tveir dagar af 180.

Þegar naglarnir komu til sögu fyrir tæpri hálfri öld voru þeir bylting. 

Síðan hefur orðið önnur bylting í gerð dekkja með frábæru mynstri og í harðkorna- og loftbóludekkjum, sem gerir það að verkum að þeir dagar á ári, þar sem negld dekk eru betri, eru, þegar klukkustundurnar eru lagðar saman, kannski hálfur dagur. 

Hér byggi ég á mörgum tilraunum sem gerðar hafa verið erlendis við aðstæður sem fyllilega eru sambærilegar aðstæðum hér heima. 

Negldu dekkin rífa tjöruna upp úr götunum svo hún úðast yfir allt og veldur óþarfa sleipu auk þess sem þau eru aðalorsök svifryks og þess að varasöm vatnsfyllt hjólför myndast í malbikinu. 

Úðinn sest á framrúður og gerir útsýni verra. Allir jöklafarar vita, að brýn nauðsyn er að þvo þessa nagladekkjatjöru af dekkjum jöklajeppa ef þeir eiga að fá fullt grip þegar komið er út fyrir hina tjöru þöktu vegi. 

Þrátt fyrir þetta sér maður og heyrir rök fyrir nagladekkjum sem voru gild fyrir hálfri öld en eru löngu fallin úr gildi. Þetta er hreint með ólíkindum, og þó, því að hliðstæðar bábiljur, byggðar á löngu úreltum forsendum má heyra fyrir ýmsu öðru hjá sömu þjóðinni og keypti á annan tug fótanuddtækja á sinni tið til þess eins að láta þau liggja í geymslu eða fara á haugana. 


mbl.is Fleiri á nagladekkjum í ár en í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"KISS" - "Keep It Simple, Stupid!" (9365)

"Neyðin kennir naktri konu að spinna" og "KISS!" - "Keep It Simple, Stupid!" eru dæmi um orðtök sem lýsa ákveðnu fyrirbæri hugvitssemi og sparnaðar.

Mörg dæmi má nefna um það þegar þessi tvö máltæki hefur mátt nota um ákveðin fyrirbæri varðandi uppfinningar og framfarir eins og við verðum vitni að um þessar mundir. 

"Sandpappinn", frumlegasta hugmyndin í Snilldarlausnum Marels, og tugmilljóna sparnaður á Landsspítalanum með notkun einfaldari tækja og varnings, eru dæmi um þetta. 

Á kreppuárunum milli 1930 og 1940 urðu stórstígar framfarir í gerð bíla og flugvéla sem miðuðu að því að nýta eldsneyti sem best. 

Snillngurinn Alec Issigonis rissaði fyrstu teikninguna af Mini upp á munnþurrku (serviettu) í kvöldverðarboði  þegar menn ræddu um ráð til að bregðast við fyrstu olíukreppunni 1956. 

Ég hef aldrei fengið eins vel greitt fyrir fyrstu gerð dægurlagatexta og fyrir textann "Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott." Sá texti var gerður í krísuástandi.

Svavar Gests hringdi í mig og sagðist vera fyrir mistök með engan texta í höndunum við lag, sem búið væri að spila inn og Elllý og Vilhjálmur ættu að syngja.

Hann sárbað mig um að gera texta við það áður en hann yrði að fara úr stúdíóinu, en það þýddi að ég hefði aðeins um 20 mínútur til umráða.

Í fyrstu harðneitaði ég og fannst þetta fáránlegt og ómögulegt.

Svavar spyrði hvort ég kynni lagið.

Jú, ég kunni það. "Þá ert þú eini maðurinn sem getur þó reynt" sagði hann. "Ég sárbið þig."  

Ég ákvað að slá til þótt mér sýndist þetta næsta vonlaust. 

Á þessum tíma var ég með barnafjölskyldu með ungum börnum og næðið lítið þá stundina og ég fór því niður í geymslukompu í kjallaranum og lokaði að mér um leið og ég velti fyrir mér góðu fréttunum og slæmu fréttunum.

Slæmu fréttirnar voru þær að hafa enga hugmynd um hvað textinn ætti að fjalla um og vera að reyna að gera eitthvað í flýti sem væri ómögulegt eða endaði með einhverri hrákasmíð.

Góðu fréttirnar voru þær að ef ég gæti þetta, fengi ég langhæsta tímakaup, sem ég hefði nokkru sinni fengið fyrir að gera texta og að fátt væri svo með öllu illt, að ei boðaði gott.

Um leið og ég hugsaði þetta nánast hrópaði ég upp yfir mig: "Auðvitað! Þarna er komið yrkisefnið: Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott!  Og þar með varð textinn til á mettíma fyrir metkaup. 

 

P. S. 

Þess má geta að alla tíð hafa laun fyrir gerð dægurlagatexta verið ömurlega lág hér á landi.  "Metkaupið" var því svosem ekkert sérstaklega hátt. 


mbl.is Snilldarlausnin var pappakassi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband