Lögmál Kissingers um skæruhernað.

Hernaðurinn í Afganistan og í Vietnam á sínum tíma er að því leyti til svipaður, að þar hafa skæruliðar barist við hefðbundinn her.

Þegar Henry Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, íhugaði ástæðuna fyrir því að voldugasta herveldi heims tapaði fyrir skæruliðum fátækrar þjóðar, kom hann niðurstöðunni fyrir í tveimur setningum, sem segja allt: 

Skæruliðaher, sem tapar ekki stríði, vinnur það. 

Hefðbundinn her, sem vinnur ekki stríð, tapar því.  

Með öðrum orðum: Ef hefðbundinn her getur ekki upprætt skæruliðaher að fullu, tapar hann stríðinu, sama hve margar einstakar orrustur hann vinnur og hversu stór hann er eða heldur vel styrkleika sínum.

Skæriliðaherinn getur hins vegar leyft sér að tapa eins mörgum einstökum orrustum og verða vill án þess að tapa stríðinu, svo framarlega sem hann er ekki upprættur. 

Þetta er öðruvísi þegar tveir hefðbundnir herir berjast hvor við annan, því oftast er það svo að takist öðrum þeirra aða vinna nógu stóran sigur í meginorrustu, vinnur hann stríðið sjálfkrafa. 


mbl.is Áætlun um lok stríðsreksturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðaltöl eru vafasöm.

Til eru staðir á hverasvæðum á Íslandi þar sem renna hlið við hlið sjóðheitir lækir og ískaldir.  Segjum að tveir lækir renni hlið við hlið og er annar 70 stiga heitur en hinn 4 stig.

Meðaltalið er 37 stig og samkvæmt því ætti að vera óhætt og meira að segja mjög þægilegt að vaða berfættur út í þá báða. 

Annað dæmi. 

Í fjölskyldu einni eru tveir ríkir menn, sem eiga 250 milljónir hvor, en átta í fjölskyldunni eru öreigar. Meðaltal eigna á hvern meðlim eru 50 milljónir og samkvæmt því hafa allir það gott, líka allir öreigarnir.

Í annarri fjölskyldu á hver meðlimur 17 milljónir. 

Ef borin eru saman meðaltöl eigna í ofangreindum fjölskyldum eru eignirnar í fyrri fjölskyldunni þrisvar sinnum meiri á mann en í síðari fjölskyldunni og kjör fólksins þrefalt betri. 

Ég ólst upp í fjölskyldu þar sem aðstæður voru þannig að þegar fjölskyldufaðrinn var 22ja ára var hann kominn með þrjá syni á framfæri.  Síðar eignaðist hann þrjár dætur.

Þegar við bættist að hann var alveg sérstaklega fjörmikill og ungur í anda var kannski ekki furða þótt við bræðurnir segðum stundum þegar við vorum spurðir um fjölskylduhagi: "Pabbi er elstur af okkur bræðrunum." 

Eða: "Við erum sjö, og svo er mamma." 

Að beita einhverri meðaltalsreglu á þessa fjölskyldu var því útí hött og svipað má áreiðanlega segja um flestar fjölskyldur sem betur fer. 

 

 


mbl.is Elsta systkinið gáfaðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband