23.11.2010 | 22:40
Fékk pening til að sækja forboðið "slökkvilið".
Farsakenndir atburðir í Hruninu haustið 2008 hrúgast upp með hverri bók eða skýrslu, sem um það er skrifuð.
Í bók Árna M. Mathiesen er ástandi Hrundaganna ágætlega lýst. Við munum öll að fólk hamstraði og vissi ekki frá degi til dags hvort alger vöruskortur yrði. Það var stórmerkilegt að ekki fór verr og að þjóðlífið stöðvaðist ekki þessa ólgudaga þegar bjarga þurfti ótrúlega miklu á alltof stuttum tíma.
En þarna kom fram hinn íslenski hæfileiki til að redda sér þegar allt virðist vonlausast.
Nú kemur upp úr dúrnum að Árni Mathiesen segist hafa kreist síðustu krónurnar út úr Davíð til þess að komast í ferð til útlanda til þess að sækja "slökkvilið" til að slökkva í rústum íslenska bankakerfisins sem hrunið var og brunnið til kaldra kola þótt áður nefndur Davíð hefði hent milljarðatugum króna á bálið til þess eins að þær brynnu upp og yrðu að engu!
Þessi sami Davíð hamaðist þó eins og berserkur þessa haustdaga gegn því að þetta "slökkvilið" yrði kallað út!
Vaá! Maður!
![]() |
Fór með síðasta gjaldeyrinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2010 | 20:39
Frb. 9365: Hugarfarið ræður mestu.
Áskorun Geðhjálpar til fjölmiðla um vandaða umfjöllum um málefni geðveikra leiðir hugann að því hvað okkur hættir til að nota orð, sem tengjast þessu sviði heilbrigðis- og félagsmála, til þess að tala í lítilsvirðandi tón um hvert annað.
Nefna má orðið öryrki í því sambandi og í sjónvarpsviðiðtölum um neikvæðra merkingu orðsins komu fram tvenn sjónarmið. Annars vegar það að skilgreiningin væri röng en hins vegar að að hún væri það ekki, heldur hugarfarið sem lægi að baki notkunar orðsins.
Ég held að hið síðara sé nær sanni.
Á sínum tíma var var notað orðið vitskertur um skort á greind og er það afar gott orð þegar raunveruleg merking þess er skoðuð, því að allir eru í raun skertir á viti á einhverju sviði, það er, það vantar eitthvað einhvers staðar upp á fullkomnun á andans sviði hjá okkur, ófullkomnum manneskjum.
Skerðingin getur verið mismikil en í stað þess að nota þetta orð af hófsemi, yfirvegun og fordómalaust, varð það að slíku skammaryrði að það þýðir nú að viðkomandi sé gersamlega genginn af göflunum, sem er alrangt ef nákvæm hljóðan og merking orðsins er skoðuð.
Stofnun Styrktarfélags vangefinna var mikið framfaraspor á sínum tíma og orðið vangefinn lýsti því að viðkomandi gat sjálfur ekkert að því gert að hafa ekki fengið eins góð spil á hendina í þessu efni og gengur og gerist.
En síðan gerðist það að farið var að nota orðið vangefinn í lítilsvirðandi tóni og sem hálfgert skammaryrði svo að menn sáu sitt óvænna og tóku upp orðið þroskaheftur í staðinn.
Ekki dugði það betur í tímans rás og þetta sýnir, að engin leið er að halda svona áfram út í hið óendanlega með því að finna upp ný og ný orð, heldur verður að leita að ástæðu og uppruna þessa vanda.
Og það sem er að, er hugarfarið sem býr að baki notkun orðanna, ekki orðin sjálf.
Nú um stundir er stunduð óhófleg notkun orðsins geðveikt til að hnykkja á lýsingarorðum, t.d. geðveikt flottur eða geðveikt góður í raun afar ósmekkleg og særandi fyrir þá sem ekki njóta sömu geðheilsu og tíðkast að meðaltali.
Þótt ætlunin með svona orðavali sé kannski ekki byggð á slæmu hugarfari held ég að gott væri að finna einhver önnur orð til að nota til að hnykkja á lýsingarorðum.
Hugarfarið sem hefur gert orðin vangefinn og þroskaheftur að skammaryrði er í raun sjúkara heldur en orðin sjálf og áskorun Geðhjálpar á því ekki aðeins við um umfjöllun fjölmiðla, heldur á hún erindi til okkar allra.
Þetta er áskorun um jafnrétti, mannréttindi og virðingu, hugtök, sem Þjóðfundurinn 2009 setti ofarlega á blað og ætti að vera leiðarljós komandi Stjórnlagaþings.
![]() |
Fjölmiðlar vandi umfjöllun um málefni geðveikra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2010 | 17:52
Þegar valdatafl hefur áhrif á hernað.
Það er ekki nýnæmi að valdatafl hafi áhrif á utanríkisstefnu og jafnvel stríðsrekstur þjóða eins og nú er giskað á að eigi sér stað í Norður-Kóreu.
Ýmsar grunsemdir hafa löngum verið á kreiki varðandi slæm ráð sem Carter Bandaríkjaforseti fékk hjá leyniþjónustunni og hernaðaryfirvöldum varðandi hina misheppnuðu ferð til að frelsa bandaríska gísla í Íran 1979.
Og menn hafa velt vöngum yfir því að stuðningsmenn Repúblikana hafi jafnvel beitt sér fyrir því á bak við tjöldin við Íransstjórn að hún léti gíslana ekki lausa. Það hafi verið gert í því skyni að það kæmi sér illa fyrir Carter svo að hann hrökklaðist frá völdum.
Hafðar hafa verið uppi samsæriskenningar varðandi árás algert andvaraleysi Bandaríkjamanna gagnvart árásinni á Perluhöfn 7. desember 1941 og árásina á Tvíburaturnana 11. september 2001.
Snúast þær um það að þáverandi forsetar, Roosevelt 1941 og Bush 2001 hafi stuðlað að árangri þessara árása af því að það styrkti þá í sessi og þjappaði þjóðinni að baki þeim.
Í ýmsum sagnfræðibókum sjá menn upphaf stríðsins milli Japana og Bandaríkjanna öðruvísi nú en fyrir 70 árum og benda á að hinar hörðu viðskiptahömlur Bandaríkjamanna gagnvart Japönum hafi neytt þá síðarnefndu út í stríð, því að ella myndu þeir "missa andlitið" á niðurlægjandi hátt.
Mörg dæmi eru um það frá þessum árum að japanskir ráðamenn gátu ekki sætt sig við niðurlægiguna sem fólst í eftirgjöf.
Þannig réðu Bandaríkjamenn dulmálskerfi Japana og réðust á flugvél Yamamato, þess hins sama og skipulagði árásina á Perluhöfn, og drápu hann.
Með því tóku þeir áhættuna á því að Japanir legðu saman tvo og tvo og sæu, að Kanarnir hefðu ekki getað gert þetta nema að hafa vitað af því á óeðlilegan hátt.
En í þessu tilfelli var það "andlitsmissir" sem Japanarnir afbáru ekki að viðurkenna að þeim hefði mistekist og þess vegna héldu þeir áfram að nota dulmálið.
Mjög ólíklegt verður að telja að samsæriskenningarnar um Roosevelt og Bush séu réttar.
Það var í báðum tilfellum ekki spurningin um hvort, heldur hvenæar óvinirnir létu til skarar skríða.
![]() |
Valdatafl í Norður-Kóreu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.11.2010 | 12:52
(Frb.9366) Hættan á stigmögnun.
Aðalhættan af Kóreustríðinu 1950-53 var stigmögnun stríðsins. Upphaf stríðsins var það að Stalín taldi það áhættunnar virði að gefa Norður-Kóreumönnum samþykki sitt fyrir óvæntri innrás inn í Suður-Kóreu.
Von hans var sú að með því að koma Suður-Kóreumönnum á óvart og nýta meiri herstyrk Norður-Kóreumanna gæti unnist alger sigur í leifturstríði og að Vesturveldin stæðu þá frammi fyrir orðnum hlut.
Stalín hafði misreiknað styrk Vesturveldanna í Berlínardeilunni og haldið að þeir gætu ekki haldið stöðu sinni þar með loftbrú. Annað kom á daginn og deilan þjappaði vestrænum þjóðum saman.
Eftir deiluna var NATO stofnað með þeirri yfirlýsingu að árás á eitt aðildarríki jafngilti árás á þau öll.
Stalín fór því að svipast um annars staðar og nýstofnað Alþýðulýðveldi Kína hafði fært honum nýjan bandamann í Asíu og stórfellda landvinninga kommúnista þar.
Í Kóreu sá hann ef til vill færi á að bæta upp vonbrigðin í Evrópu, en hann gerði í þá í staðinn önnur mistök, sem sé þau, að hafa stillt því óvart svo til að Sovétmenn höfðu dregið fulltrúa sinn tímabundið út úr Öryggisráðinu.
Fyrir bragðið gátu þeir ekki beitt neitunarvaldi þegar Öryggisráðið ákvað að stofna til herafla SÞ og fela Bandaríkjamönnum yfirstjórn hans.
Litlu munaði að Norður-Kóreumönnum tækist að ná öllum Kóreuskaganum en kannski réði úrslitum um að það tókst ekki, að herafli SÞ varð stærri og fyrr kominn til bardaga en ef Bandaríkjamenn hefðu einir brugðist við.
Þegar herir SÞ sóttu norður Kóreuskagann og voru að ljúka við að leggja Norður-Kóreu undir sig var tekin áhætta á íhlutun Kínverja.
Ráðamenn Vesturveldanna vildu að ekki yrði farið alla leið norður skagann en Douglas McArthur yfirhershöfðingi fór lengra og afleiðingin varð sú að Kínverjar sendu her til að taka þátt í stríðinu, sem sótti langt suður eftir skaganum og tók Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu.
Kannski hefðu Kínverjar hvort eð er blandað sér í stríðið, því að sameining Kóreu í eitt lýðræðisríki að vestrænni fyrirmynd hefði talist ósigur fyrir kommúnistaríkin.
McArthur vildi þá fara í kjarnorkustríð við Kínverja og ráðast inn í Kína en Truman Bandaríkjaforseti rak hann þá úr embætti.
Herjum SÞ tókst að snúa vörn í sókn og þegar pattstaða myndaðist nálægt fyrrum landamæra ríkjanna. Niðurstaðan varð samningaferli sem var einstaklega erfitt og langt vegna djúpstæðrar gagnkvæmrar andúðar og tortryggni.
Hættan nú er nákvæmlega sú sama og fyrir 60 árum, sem sé sú að átök stigmagnist og fari úr böndum.
Aðilar telja sig ekki geta komist hjá því að fara út í hefndaraðgerðir, sem gætu hæglega orðið sífellt stærri og afdrifaríkari.
Leitun er að firrtari og spilltari ráðamönnum í heiminum en alræðisherrum Norður-Kóreu. Í landinu ríkir ömurleg fátækt, kúgun og hungursneyð og eina svar ráðamannanna hefur verið að koma sér upp kjarnorkuvopnum og eldflaugum til þess að nota þau sem hótun til að fá erlenda aðstoð í skiptum fyrir að halda friðinn.
1950-53 óttuðust menn heimsstyrjöld ef ástandið í Kóreu færi meira úr böndunum en orðið var.
Nú er vonandi ekki hætta á slíku en hins vegar myndi kjarnorkustríð á Kóreuskaga verða óskaplegur harmleikur og valda gríðarlegu tjóni í Asíu, miklu verra tjóni en stórstríð þar hefði valdið fyrir 60 árum, því að nú eru Asíuríkin margfalt stærri hluti heimsframleiðslu og viðskipta en þá var.
Stórstríð í Kóreu myndi því valda alheimskreppu.
![]() |
Segja Suður-Kóreu hafa byrjað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.11.2010 | 09:38
(Framb. 9365) "Það endar með því að þeir drepa einhvern..."
Ofangreint er haft eftir karli einum þegar fréttist af því að stórstyrjöld hefði brotist út í Evrópu snemma á síðustu öld. Og nú er spurt í hvað stefni á Kóreuskaga.
Athygli vakti á árunum 1951 til 1953 hve samningaviðræður milli stríðsaðilanna í Kóreustyrjöldinni, annars vegar hers Sameinu þjóðanna og hins vegar hers Kínverja og Norður-Kóreumanna, gengu illa.
Þótti afar óvenjulegt hve mikil gagnkvæm tortryggni, vantraust og vanvirðing ríkti á milli deiluaðila.
Hvað eftir annað slitnaði upp úr viðræðum eða hljóp í þær kergja, þótt fyrir lægi viljayfirlýsing beggja og vilji stórveldanna, annars vegar Bandaríkjamanna og Breta og hins vegar Kína og Sovétríkjanna, til að hætta frekari manndrápum.
Allan tímann, sem viðræðurnar stóðu, reyndi hvor um sig ítrekað að sæta færis og laga samningsaðstöðu sína á vígvellinum með nýjum uppákomum og árásum.
Þúsundum mannslífa var fórnað til þess að reyna að breyta vígstöðu sem allir sáu að var pattstaða sem ekkert fékk haggað eins og kom reyndar á daginn.
Fyrir 60 árum voru það aðallega Kóreumennirnir sem eitruðu andrúmsloftið og var Syngman Rhee, forseti Suður-Kóreu áberandi herskárri en leiðtogi Norður-Kóreumanna, Kim Il-sung, sem hafði þó hafið þetta stríð.
Hann var í veikri aðstöðu því að her hans hafði farið verr út úr átökunum en her Suður-Kóreu.
Á síðustu árum virðist þetta hafa snúist við og má leiða að því líkum að þeim vaxi í augum ímyndaður ávinningur að því að klófesta hið ríka nágrannaland í suðri sem hefur blómstrað á meðan Norður-Kóreumenn lifa við sult og seyru af völdum hinnar hræðilegu alræðisstjórnar landsins.
Það er hastarlegt að næstum 60 árum seinna sé svipað að gerast í samskiptum kóresku ríkjanna og gerðist á tímum Kóreustríðsins 1950-53.
![]() |
Sprengjum varpað á Suður-Kóreu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2010 | 09:09
Hvers vegna var höfnin ekki tveimur kílómetrum vestar?
Um áratuga skeið hef ég fylgst með því úr lofti hvernig aur jökulfljótanna litar sjóinn við ósa ánna.
Úr lofti lítur þetta út eins og aurkeila á yfirborðinu sem nær nokkra kílómetra til hliðar við ströndiha og teygir sig yfirleitt lengra til vesturs en austurs.
ímynda má sér að aurinn komist lengra frá ósunum undir yfirborði sjávarins, en augljóst virðist að hann sé yfirleitt mestur næst ósnum og minnki þegar lengra dregur frá honum.
Af þessu má draga þá eðlilegu ályktun að aurinn sé mestur við ósana en minnki þegar frá dregur.
Því má spyrja hvers vegna höfnin var ekki höfð vestar, til dæmis neðan við Bakkaflugvöll, og hefðu þessi tvö samgöngumannvirki þá verið heppilega nálægt hvort öðru.
![]() |
Áhyggjufullir landeigendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)