Þegar valdatafl hefur áhrif á hernað.

Það er ekki nýnæmi að valdatafl hafi áhrif á utanríkisstefnu og jafnvel stríðsrekstur þjóða eins og nú er giskað á að eigi sér stað í Norður-Kóreu.

Ýmsar grunsemdir hafa löngum verið á kreiki varðandi slæm ráð sem Carter Bandaríkjaforseti fékk hjá leyniþjónustunni og hernaðaryfirvöldum varðandi hina misheppnuðu ferð til að frelsa bandaríska gísla í Íran 1979. 

Og menn hafa velt vöngum yfir því að stuðningsmenn Repúblikana hafi jafnvel beitt sér fyrir því á bak við tjöldin við Íransstjórn að hún léti gíslana ekki lausa.  Það hafi verið gert í því skyni að það kæmi sér illa fyrir Carter svo að hann hrökklaðist frá völdum.

Hafðar hafa verið uppi samsæriskenningar varðandi árás algert andvaraleysi Bandaríkjamanna gagnvart árásinni á Perluhöfn 7. desember 1941 og árásina á Tvíburaturnana 11. september 2001. 

Snúast þær um það að þáverandi forsetar, Roosevelt 1941 og Bush 2001 hafi stuðlað að árangri þessara árása af því að það styrkti þá í sessi og þjappaði þjóðinni að baki þeim. 

Í ýmsum sagnfræðibókum sjá menn upphaf stríðsins milli Japana og Bandaríkjanna öðruvísi nú en fyrir 70 árum og benda á að hinar hörðu viðskiptahömlur Bandaríkjamanna gagnvart Japönum hafi neytt þá síðarnefndu út í stríð, því að ella myndu þeir "missa andlitið" á niðurlægjandi hátt. 

Mörg dæmi eru um það frá þessum árum að japanskir ráðamenn gátu ekki sætt sig við niðurlægiguna sem fólst í eftirgjöf. 

Þannig réðu Bandaríkjamenn dulmálskerfi Japana og réðust á flugvél Yamamato, þess hins sama og skipulagði árásina á Perluhöfn, og drápu hann. 

Með því tóku þeir áhættuna á því að Japanir legðu saman tvo og tvo og sæu, að Kanarnir hefðu ekki getað gert þetta nema að hafa vitað af því á óeðlilegan hátt. 

En í þessu tilfelli var það "andlitsmissir" sem Japanarnir afbáru ekki að viðurkenna að þeim hefði mistekist og þess vegna héldu þeir áfram að nota dulmálið. 

Mjög ólíklegt verður að telja að samsæriskenningarnar um Roosevelt og Bush séu réttar. 

Það var í báðum tilfellum ekki spurningin um hvort, heldur hvenæar óvinirnir létu til skarar skríða. 


mbl.is Valdatafl í Norður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það er ekkert nýtt að gerast þarna. Norður-Kóreu stafar miklu meiri hætta af Suður-Kóreu en öfugt. Kínverjar vilja ekki stríð, Japanir vilja ekki stríð USA vill ekki stríð og Norður-Korea vill eki stríð.

Þetta eru heimildir sem ég hef frá einu af efsta laginu í Suður-Kóreanska hernum.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 23.11.2010 kl. 22:40

2 identicon

Bara smá innlegg í söguna ;)

1: Viðskiptaþvinganir á Japan.

Bandaríkjamenn beittu fantalegum viðskiptaþvingunum á Japan, - það er rétt, og varð sjálfsagt kveikjan að hernaði þeirra. En þvingunin (embargo) kom til m.a. vegna hernaðar Japana í Kína. Bandaríkjamenn höfðu reyndar átt sitt innlegg þar fyrr, þar sem þeirhéldu úti lofthernaði (Chenault & the Flying Tigers) Kína megin fyrir stríð.

2: Pearl Harbour.

Pearl Harbour var ekki upphaf Kyrrahafshernaðar Japana. Fyrstu kúlurnar byrjuðu að þjóta gegn Bretum nokkrum tímum fyrr, ég held í Burma. Það er austar þannig að sólarupprásin er fyrr.

Svo kom árás Yamamotos á Pearl. Hún var vel skipulögð, og honum tókst að fela flota sinn ótrúlega vel með óvenjulegri siglingarleið í gegnum fáfarið leiðinda-veðurbelti á Kyrrahafi. Hérna kemur andvaraleysi Bandaríkjamanna uppá borðið all rækilega, því að þennan sunnudagsmorgun 7. des birtist innrásin á ratsjá og var hunsuð af einum manni. Japanir komu því eins og þruma úr heiðskíru lofti og komu sínu fram, nema það að þeir náðu ekki í skottið á Bandarísku flugmóðurskipunum, sem höfðu siglt í burtu aðeins fyrr.

Andvaraleysið var ekki búið að segja sitt síðasta. McArthur var yfir herafla Bandaríkjamanna á Filippseyjum. Japanir náðu honum líka nánast í hengirúminu, þar sem að loftárás nánast bögglaði saman þeim flugvélastyrk sem hann hafði yfir að ráða, og það var EFTIR að hann hafði fréttir af Pearl Harbour. Andvaraleysið (eða of mikið sjálfstraust kannski?) manífestaði sig svo þegar Þjóðverjar lýstu stríði á hendur Bandaríkjunum (grundvöllurinn var Öxulveldasamningurinn) og settu kafbáta sína í feitan mat undan austurströnd Bandaríkjanna.

Ég sé ekkert samsæri úr þessu. Bara aulaskap og klaufaskap, mannlega heimsku og græðgi.

Japanir ÞURFTU ekkert að fara í stríð við Bandaríkjamenn. Þeir þurftu ekkert að leggja Kína undir sig heldur. Þeir þurftu kannski bara að læra að haga sér meðal þjóða og semja með það sem þeir höfðu. Stríð við Bandaríkin var keyrt í gegn af herforingjaklíku og gegn allri skynsemi. Meir að segja Yamamoto var ekki hrifinn af hugmyndinni.

Bandaríkjamenn hefðu betur hlustað aðeins á Breta. Það var ekki fyrr en 1941 sem þeir samþykktu með naumindum að gera kaupleigusamning á vopnum (lend-lease) til Breta, - örfá atkvæði skildu þar á milli þrátt fyrir eindreginn stuðning forsetans. Stríðið var að draga sig að húströppum USA, en þeir horfðust ekki í augu við það. Það má nefna að samningurinn var Bretum ekki ódýr, - "vopnin" voru til að byrja með 50 úreltir fyrsta stríðs tundurspillar, Bretar urðu að opna öll sín tæknilegu leyndarmál til Bandaríkjamanna (t.a.m. hreyfilsmíði, ratsjár o.fl.) og greiða út í gulli sem sótt var þegar í stað af Bandarísku Beitiskipi. Greiðslum Breta af þessum samningi lauk nýlega.

Og ekki var barnalegt sjálfstraustið búið þarna. Þegar Þjóðverjar höfðu lýst yfir stríði á hendur Bandaríkjunum og fært kafbáta sína að þeirra ströndum, þá gerðu Bandaríkjamenn lengi vel nánast engar ráðstafanir til að vernda sinn skipakost. Útkoman var hryllileg sláturtíð undan ströndum, og lagaðist ekki fyrr en þeir fóru yfir í "breska módelið", þ.e.a.s. skipalestir með öflugri vernd.

Annar "barnaskapur" átti sér næstum stað þegar Stalín pressaði sem mest á að vesturveldin opnuðu aðrar vígstöðvar á móti Þjóðverjum. Bandaríkjamenn voru frekar á því að hægt væri að ráðast inn í Frakkland 1943 eða svo, en Churchill snéri þeim frá þeirri meiningu, bæði með strandhögginu í Dieppe, og svo með átökum í N-Afríku. Hann vissi betur kallinn.

En nóg um það. Japanir ákváðu sjálfir að freista gæfunnar með því að taka stórt spil á Kyrrahafi. Þeir töpuðu. Ég er ekki enn að átta mig á því af hverju þeir óðu ekki aftur í Rússana, sem voru í hryllilegri nauðvörn gegn þjóðverjum. Af hverju þurftu Þjóðverjar líka að lýsa yfir stríði við Bandaríkin á grundvelli Öxulveldasamningsins, en Japanir ekki jafnframt gegn Bretum 1939/1940????

Og eins neyðarlegt og það er, þá var það fullvissa Rússa (í gegn um njósnarann Sorge) sem gerði þeim kleyft að bjarga Moskvu á ögurstundu með því að færa mestallt herlið austan frá til Moskvu í Desember 1941. Þá voru Japanir nokkru áður búnir að ákveða hernað sinn á hendur Bandaríkjamönnum.

Niðurstaða mín er að þarna hafi ekki verið neitt Roosevelt-samsæri, heldur hafi kallinn bara þurft að tuskast við alveg ótrúlega veruleikafirrta og hrokafulla hálfbjána sín megin borðs, á meðan alvöru samsærispúkarnir voru öxulmegin.

Svo er það dulmálið.....það kemur síðar.

Jón Logi (IP-tala skráð) 24.11.2010 kl. 10:12

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er rétt hjá þér, Jón Logi, að Japanir báru í raun alla sök á stríðinu við Bandaríkin og ég hef oft verið að hugsa um það að í raun hófst Heimsstyrjöldin síðari 1937 þegar þeir réðust af villimannslegu offorsi á Kínverja.

Raunar er talið að engin þjóð hafi orðið fyrir öðru eins mannfalli og Kínverjar, því að jafnvel fleiri hafi fallið þar en ca 20 milljónirnar sem Rússar misstu.

Það er engin furða því að þetta stríð stóð í átta ár.

Einangrunarsinnarnir í Bandaríkjunum ollu miklu um það hve barnaleg utanríkisstefna landsins var og varð til mikillar óþurftar.

Ómar Ragnarsson, 24.11.2010 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband