30.11.2010 | 19:02
Þjóðfundurinn og þjóðin eru baklandið.
Þegar menn reyna fyrirfram að gera lítið úr því sem koma mun frá nýkjörnu Stjórnlagaþingi ættu þeir að huga að því að bakland þess er Þjóðfundurinn á dögunum, sem var 1000 manna samkoma, valin með slembiúrtaki úr þjóðskrá, og því engan veginn hægt að efast um hún gæfi rétta mynd af þjóðinni.
Þanbnig var þjóðin sjálf bakland Þjóðfundarihns sem lagði ákveðnar línur.
Þær tilögur komandi Stjórnlagaþings, sem eiga samsvörun við helstu línurnar sem Þjóðfundurinn lagði, hafa því meira vægi en margir munu vilja vera láta.
Ég hef í skrifum mínu í aðdraganda kosninganna lagt áherslu á breiða samstöðu Stjórnlagaþingsins og samhljóm við þjóðina og tillit til minnihlutahópa auk þess sem hugað verði að því að við verðum ekki áfram nánast eina þjóðin í okkar heimshluta sem ekki hefur nein ákvæði í stjórrnarskrá sem hugar að hagsmunum komandi kynslóða.
Þegar hafa heyrst raddir um að frumvarp Stjórnlagaþingsins verði einhliða í þágu þéttbýlsins á suðvesturhorni landsins vegna þess að 22 fulltrúar eigi þar búsetu.
Ekki þarf annað en að líta á ýmis skrif mín í aðdraganda kosninganna til að sjá að búsetan ein ræður ekki öllu, því að ég hef reifað ýmsar hugmyndir í þá veru að ekki verði gengið á rétt einstakra landshluta í henni, til dæmis með ýmsum útfærslum á blöndu af landinu sem einu kjördæmi og hins vegar nokkrum einmennings- eða tvímenningskjördæmum, sem skiluðu 9-12 þingmönnum á þing til að koma í veg fyrir að einstakir landshlutar fái engan fulltrúa á Alþingi en jafnframt að þessir sérstöku fulltrúar verði það fáir að ekki sé hægt að segja að um misvægi atkvæða sé að ræða.
Ég tel líka að úrslitin í þessum kosningum þurfi ekki endilega að þýða það að hlutföllin verði svona í hlutfallskosningum með landslistum í landinu öllu sem einu kjördæmi, því að væntanlega myndu einstök framboð huga að því að hafa ekki misvægi á sínum listum.
Að lokum vil ég í þessum pistli þakka það traust sem mér var veitt í þessum kosningum og er mér dýrmætt veganesti inn á Stjórnlagaþing.
Mér líst vel á það fólk sem þar verður og þar ríður á miklu að allir séu jafningjar og komist sameiginlega að sem bestu niðurstöðu, sem hafi breiðan stuðning.
![]() |
Þing allrar þjóðarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.11.2010 | 14:23
Fyrsti prófesteinninn á "núllsýnina": Vegrið.
Í fyrra varð slys á Hafnarfjarðarvegi sem kostaði þrjú mannslíf. Með köldum útreikningi má finna út að þetta eina slys hafi kostað meira í peningum en það kostar að setja vegrið á alla þá vegarkafla sem eru eins og sá þar sem þetta slys varð.
Eru þá ótalið þjáningar og tilfinningarlegt tjón sem varð í þessu slysi.
Ef þarna hefði verið vegrið hefði ekki orðið þarna banaslys og ef vegrið eru á öllum samsvarandi köflum er þessari hættu útrýmt.
Verður slíkt vegrið sett upp? Ef menn meina eitthvað með því að útrýma banaslysum í umferðinni eins og rætt var um á umferðarþingi, er þetta sú framkvæmd sem blasir fyrst við af öllu að eigi að gera.
Núllsýnin er nauðsynleg jafnvel þótt viðurkenna verði að aldrei verði að fullu hægt að koma í veg fyrir banaslys.
Núllsýnin er nauðsynleg til þess að hreyfa við ástandi sem okkur hættir til að halda sé óumbreytanlegt.
Það þarf hugsjónir og raunsæi í bland. Núllsýn hefur áður verið sett fram hér á landi.
Það var á níunda áratugnum þegar sett var fram núllsýnin um fíkniefnalaust Ísland árið 2000.
Sú núllsýn gerði ekki ráð fyrir mannlegu eðli og undanskildi áfengi, sem er eitt af allra hættulegustu fíkniefnunum.
Persónulega veit ég að hægt er að hafa núllsýn á vímu- og fikniefni og fátt hefur reynst mér betur um dagana. En að hægt sé að láta alla fallast á hana á örfáum árum var því miður fráleit von og er enn.
Segja má með gildum rökum að ekkert sé eins lífshættulegt og að fæðast því að það er hundrað prósent víst að fæðingin hvers mans muni að lokum hafa dauða hans í för með sér.
Samhengið er einfalt: Ef komið verður í veg fyrir allar fæðingar deyr enginn.
En auðvitað dettur engum í hug að koma í veg fyrir fæðingar né leggja niður umferð eða aðrar þær athafnir mannsins sem hafa hættu í för með sér. Á hinn bóginn er það öllum fyrir bestu að leitast við að haga þannig lífi okkar og móta þannig aðstæður okkar og hagi að við getum sem flest lifað við hámarks andlega og líkamlega velsæld og öryggi sem lengst.
![]() |
Enginn á móti því að fækka banaslysum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2010 | 14:00
Þjált og gott orð: "Flugáhafnarmeðlimir"?
Orðið áhafnarmeðlimur er eitt hvimleiðasta orðið sem ég þekki. Menn eru sagðir vera áhafnarmeðlimir á skipum þótt við eigum helmingi styttra prýðisorð yfir það hugtak, skipverjar.
Notkun þessa orð nær nýjum hæðum, eða eigum við að segja lægðum í frétt af yfirvofandi verkfalli hjá Finnair þar sem sést eitthvert lengsta orð, sem um getur.
Þetta dýrlega orð er: "flugáhafnarmeðlimur." Sjö atkvæði -19 stafir.
Orðið "skipverji" þjónaði okkur Íslendingum mjög vel um áratugaskeið þangað til hið ógnarlanga orð áhafnarmeðlimur varð að tískuorði.
Hliðstætt væri að nota orðið "flugverji", - í fleirtölu "flugverjar" um samsvarandi starfsmenn um borð í flugvél.
Opinberlega nota Flugmálastjórn og aðrir, sem tengjst flugi, orðið "flugliðar".
Það tekur kannski smá tíma að venjast þessu stutta, hnitmiðaða og þjála orði, "flugliðar" en getur varla verið erfiðara en að venjast orðinu "flugáhafnarmeðlimir."
Berum saman orðalag tengdrar fréttar eins og það er nú og eins og það gæti orðið.
Óbreytt:
"...vegna yfirvofandi verkfalls flugáhafnarmeðlima..."
Breytt:
"...vegna yfirvofandi verkfallls flugliða..."
Niðurstaða: Þrátt fyrir að orðið flugáhafnarmeðlimur sé ógnarlangt og flókið eru yfirgnæfandi líkur fyrir því að það verði notað áfram sem og orðið áhafnarmeðlimur.
Engin rök virðast geta haggað því að svona nútíma kansellístíll þyki fínn og viðeigandi.
Hið merkilega er, að sjálft "kannsellíið" , Flugmálastjórn Íslands, notar orðið "flugliðar", en fjölmiðlarnir hins vegar orðið "flugáhafnameðlimir."
![]() |
Finnair aflýsir flugferðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2010 | 09:38
Gróin vantrú.
Áltrú Íslendinga, sem þeir tóku fyrir fimmtíu árum, virkar oft líkt og venjuleg trúarbrögð á borð við Kristni og Íslam á þann veg, að ef menn hafi viðkomandi trú, séu það svik að trúa á neitt annað.
Dæmi um þetta er sú gróna vantrú og mótbárur sem heyrast gegn ferðaþjónustunni og um þessa vantrú er hægt að nefna ótal dæmi.
Þegar frumherjarnir hér á landi u bjóða upp á hvalaskoðunarferðir var það afgreitt sem "geimórar", svo fjarstætt þótti þetta.
Þegar faghópur um ferðamennsku á vegum Rammaáætlunar ber saman annars vegar virði Norðlingaölduveitu gagnvart virkjanahagsmunum og hins vegar gagnvart ferðamennskuhagsmunum, eru framkvæmdir vegna virkjunarinnar og hagsmundir af þeim taldir vega mikið, en framkvæmdir til að opna aðgengi að tveimur stórfossum í Þjórsá fyrir ferðafólk ekki einu sinni settar á blað, hvað þá gildi þeirra sem ferðamannastaðir.
Menn sem meta loðnuvertíð og vorvertíð mikils hafa allt á hornum sér yfir því að ferðaþjónustan eigi sína "vertíð" á sumrin og sé því ekki stöðug atvinnugrein.
Sagt er að kuldi, myrkur, þögn, hríðarveður og fjarlægð frá öðrum löndum útiloki ferðamannastraum á veturna þótt í Lapplandi sé allt þetta selt yfir vetrartímann fleiri ferðamönnum en koma hingað allt árið og það í landi sem er lengra frá öðrum löndum en Ísland.
Á sínum tíma var litið á það sem hálfgert böl að evrópsk börn héldu að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og skrifuðu honum bréf.
Finnar í Rovaniemi tóku þá bara jólasveininn af okkur og stórgræða á ferðamannastraum þangað hans vegna.
Sagt er að ferðamannastraumur eyðileggi náttúruna meira en ef landi er sökkt í aurug miðlunarlón eða stór jarðvarmaorkuver sett niður á hverasvæðum.
Erlendis má þó sjá sjá ótal dæmi þess að miklu meiri ferðamannastraumur sé ekki látin skemma land sem er jafnviðkvæmt og viðkvæmustu svæðin hér.
Sagt er að ferðaþjónustan skapi bara láglaunastörf þótt annað komi á daginn þegar hagtölur eru skoðaðar og vitað sé að til þess að bjóða upp á góða þjónustu í ferðaþjónustu þarf fjölmenntað fólk, enda hafa rannsóknir sýnt að sjávarútvegur og ferðaþjónusta skapa 2-3falt meiri virðisauka en stóriðjan.
![]() |
155 milljarða gjaldeyristekjur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)