Gróin vantrú.

Áltrú Íslendinga, sem þeir tóku fyrir fimmtíu árum, virkar oft líkt og venjuleg trúarbrögð á borð við Kristni og Íslam á þann veg, að ef menn hafi viðkomandi trú, séu það svik að trúa á neitt annað.

Dæmi um þetta er sú gróna vantrú og mótbárur sem heyrast gegn ferðaþjónustunni og um þessa vantrú er hægt að nefna ótal dæmi. 

Þegar frumherjarnir hér á landi u bjóða upp á hvalaskoðunarferðir var það afgreitt sem "geimórar", svo fjarstætt þótti þetta. 

Þegar faghópur um ferðamennsku á vegum Rammaáætlunar ber saman annars vegar virði Norðlingaölduveitu gagnvart virkjanahagsmunum og hins vegar gagnvart ferðamennskuhagsmunum, eru framkvæmdir vegna virkjunarinnar og hagsmundir af þeim taldir vega mikið, en framkvæmdir til að opna aðgengi að tveimur stórfossum í Þjórsá fyrir ferðafólk ekki einu sinni settar á blað, hvað þá gildi þeirra sem ferðamannastaðir. 

Menn sem meta loðnuvertíð og vorvertíð mikils hafa allt á hornum sér yfir því að ferðaþjónustan eigi sína "vertíð" á sumrin og sé því ekki stöðug atvinnugrein. 

Sagt er að kuldi, myrkur, þögn, hríðarveður og fjarlægð frá öðrum löndum útiloki ferðamannastraum á veturna þótt í Lapplandi sé allt þetta selt yfir vetrartímann fleiri ferðamönnum en koma hingað allt árið og það í landi sem er lengra frá öðrum löndum en Ísland.

Á sínum tíma var litið á það sem hálfgert böl að evrópsk börn héldu að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og skrifuðu honum bréf. 

Finnar í Rovaniemi tóku þá bara jólasveininn af okkur og stórgræða á ferðamannastraum þangað hans vegna. 

Sagt er að ferðamannastraumur eyðileggi náttúruna meira en ef landi er sökkt í aurug miðlunarlón eða stór jarðvarmaorkuver sett niður á hverasvæðum.  

Erlendis má þó sjá sjá ótal dæmi þess að miklu meiri ferðamannastraumur sé ekki látin skemma land sem er jafnviðkvæmt og viðkvæmustu svæðin hér. 

Sagt er að ferðaþjónustan skapi bara láglaunastörf þótt annað komi á daginn þegar hagtölur eru skoðaðar og vitað sé að til þess að bjóða upp á góða þjónustu í ferðaþjónustu þarf fjölmenntað fólk, enda hafa rannsóknir sýnt að sjávarútvegur og ferðaþjónusta skapa 2-3falt meiri virðisauka en stóriðjan.  


mbl.is 155 milljarða gjaldeyristekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Enda eru það bara ekta íslenskir jólasveinar sem stjórna landinu - með öllum sínum kostum og göllum.

Sumarliði Einar Daðason, 30.11.2010 kl. 10:13

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er auðvitað fjölmargt við þennan pistil að athuga... eins og fyrri daginn, þegar þú ert í þessum gír, Ómar.

Í hugum margra lesenda þessarar síðu, er ég eflaust eins og trúboði "Álkirkjunnar". Samt hef ég nú alltaf haft augun galopin fyrir "einhverju öðru" ... er nú ekki staðfastari í trúnni en það. Verð sennilega aldrei biskup innan safnaðarins.

Ef ég hefði staðið frammi fyrir tveimur valkostum þann 15. mars árið 2003, þegar skrifað var undir samning við Alcoa á Reyðarfirði, annar kosturinn væri Alcoa en hinn "eitthvað annað" (t.d. gagnaver), sem skapað hefði álíka mörg störf, þá hefði ég sennilega valið "eitthvað annað".

Fólk tók álverinu auðvitað fagnandi hér og Alcoa hefur ekki valdið vonbrigðum, nema síður sé. Almenn ánægja er með aðkomu fyrirtækisins að ýmsum málefnum á Mið-Austurlandi, ekki síst á sviði íþrótta, menningar og félagsmála. Ég held þó að þessi almenna ánægja geri Austfirðinga ekki sjálkrafa að meðlimum innan "Álkirkjunnar".

Læt þetta duga í bili. Það er fleira þarna sem þarf leiðréttingar við.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.11.2010 kl. 13:16

3 identicon

Sæll Ómar,

 Þessi pistill er góður, eins og þér er vant. Reyndar koma margir ferðamenn hingað til þess að forðast "túristastaði". Þeir vilja vera hér í hálfgerðu einrúmi. Hitti tvo franska ferðmenn síðasta sumar í Landmannalaugum. Það sem þeim kom "spánskt,, fyrir sjónir var að á eins fallegum stað og Landmannalaugum væru frekar fáir ferðamenn. Vildu þeir meina að þetta væri mjög stór kostur. Eins sveið þeim í augun að keyra um hálendið og sjá háspennumöstur (alveg sammála þeim). 

Hér er dæmi um "eitthvað annað,,:

Í staðinn fyrir Ál skulum við leita í næsta flokk lotukerfisins. Si (kísill, 14 flokkur) er verðmætur málmleysingi, fyrir þær sakir að með því að hreinsa hann er hægt að búa til hálfleiðara með svokallaðri dópun, annað hvort n-dópun eða p-dópun. Hálfleiðarar eru undirstaða rafeindaiðnaðar í dag. Að hreinsa kísil er gríðarleg nákvæmnisvinna, það þarf MJÖG hreinar aðstæður. Þetta eru verksmiðjur sem menga lítið sem ekkert. Nú þegar eru tvö tilboð frá erlendum aðilum hjá Iðnarráðaneytinu um að reisa kísilhreinsunarstöð, sennilega verður ein þeirra í Þorlákshöfn eða Grindavík. Tilvalið væri að skella hinni verksmiðjunni á Bakka hjá Húsavík. Og það sem best er við þessar verksmiðjur að starfsfólk per megavattsstund er margfalt fleira en hjá álveri.
Gagnaver eru góð til sín brúks, en skapa fáum atvinnu.

Gróðurhús eru eitthvað sem Íslendingar mættu byggja meira af. Í Hollandi, þar sem raforka er mun dýrari en á Íslandi, er nóg af gróðurhúsum. Jarðaber sem berast til Íslands yfir vetrarmánuðina eru meðalannars ræktuð í þessum Hollensku gróðurhúsum!!! Það gildir sama regla um gróðurhús og hjá Kísilhreinsunarverksmiðjum, þau skapa mikið fleiri störf per megavatt en álver nokkurntímann. Hugmynd Bjarkar Guðmundsdóttur um að breyta álverunum í Helguvík í ylver er góð.

Huga þarf að stórskipahöfn t.d. við Eyjafjörð þegar siglingaleiðirnar um eða við norðurpólinn bráðna að hluta. Ekki þarf að minnast á hvað það myndi skapa mörgum atvinnu.

Svo langar mig að benda á metanól-framleiðsluna hjá CRI á Reykjanesi (Svartsengi). www.cri.is

Kveðja,

Jóhann, 3 árs B.S. nemi í lífefnafræði

(Bið að afsaka stafsetningavillur, þessi athugasemd var skrifuð í flýti)

Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 30.11.2010 kl. 14:05

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta virðist allt skothelt þar til fjárfestar eiga að leggja peninga á borðið. Þá kemur stundum eitthvert hik....

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.11.2010 kl. 15:27

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það kemur auðvitað hik þegar það sést á forgangsraðarlista stjórnvalda að Alcoa er efst á blaði. Síðan þarf ekki nema barnaskólasamlagningu á orkunni, sem er til ráðstöfunar, að álverið tekur ALLA orkuna og ekki aðeins það, MEIRI orku en er fyrir hendi.

Samt eru Alcoa og kínverskur álrisi áfram efst á forgangsröðunarlista Íslendinga. 

Ómar Ragnarsson, 30.11.2010 kl. 19:18

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Stjórnvöld koma hvergi nærri ákvarðanatöku um álver á Bakka. Það er einfaldlega ekki á þeirra könnu. Stjórnvöld geta hins vegar lagt steina í götu framkvæmdaaðila og það hafa þau gert svikalaust.

Það var mikið talað um "ruðningsáhrif" álversins í Reyðarfirði. Síðari tíma rannsóknir hafa leitt í ljós að ruðningsáhrifin voru engin, eins og glögglega kemur fram í nýútkominni skýrslu um samfélags og efnahagsleg áhrif framkvæmdanna.

Það eitt stendur eftir, sem ekki einu sinni bölsýnisfólkinu tókst að spá fyrir um, og spáði það þó öllu til andskotans, en það var að of mikið var byggt af íbúðarhúsnæði á svæðinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.12.2010 kl. 00:49

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

... þar með eru neikvæð áhrif framkvæmdanna upptalin.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.12.2010 kl. 00:51

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Reyndar get ég ekki neitað því að talsvert neikvæð umhverfisáhrif eru af háspennulínum í landi Seljateigs, við norðanverðan botn fjarðarins. Landið er í einkaeigu og eigendur þess fengu eitthvað fyrir sinn snúð. Nokkrir hektarar af skógrækt fara þar fyrir lítið, a.m.k. hvað útivist varðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.12.2010 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband