28.12.2010 | 23:04
Getur orðið að plágu.
Þar sem ég bý hefur það verið árvisst að um jól byrjar einhver hér í nágrenninu, sem virðist hafa yfir ótakmörkuðu magni af flugeldum og sprengjum að ráða, að sprengja þessar birgðir sínar í tíma og ótíma.
Engin takmörk virðast vera á því á hvaða tíma sólarhrings þetta gerist og þetta ástand varir allt að tíu fyrstu daga janúarmánaðar og hefur þessi ófögnuður þá staðið linnulítið í þrjár vikur.
Af þessu hlýst oft mikið ónæði en í samræmi við mikið umburðarlyndi okkar Íslendinga er ekkert gert við þessum brotum á reglugerðum um svona starfsemi sem virðast vera bókstafurinn einn.
þrjár vikur.
![]() |
Sprengingar heyrast víða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.12.2010 | 14:06
Hefur gerst áður.
Þegar Gunnar Thoroddsen myndaði ríkisstjórn 1980 varð mikill meirihluti þingflokks Sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu og þingflokkurinn því klofinn í herðar niður sem og Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur.
Upp komu háværar raddir um að reka Gunnarsmenn úr flokknum en framsýnni menn höfðu í huga fordæmi frá 1944 þegar fimm þingmenn Sjálfstæðismanna vildu ekki styðja Nýsköpunarstjórn Ólafs Thors.
Þeir voru ekki reknir úr þingflokknum og lögðust síðan á sveif með stjórninni og tóku fullan þátt í flokksstarfnu á öllum sviðum.
Svipað var gert 1980-83, enginn rekinn úr flokknum eða þingflokknum, en þegar Gunnarsmenn sátu þingflokksfundi véku þeir af fundi ef málefni stjórnarandstöðunnar bar á góma.
1983 bauð flokkurinn síðan fram heill og óskiptur og þá nutu menn framsýni og sáttfýsi Geirs Hallgrímssonar, sem hafði þó neyðst til að taka upp andstöðu við stefnu Gunnars og stjórnar hans.
Ágreiningurinn innan Sjálfstæðisflokksins 1980-83 var miklu meiri og illvígari en sá ágreiningur sem hingað til hefur verið uppi í VG.
Þess vegna ætti það ekki að vera sjálfgefið að þingflokkurinn og flokkurinn sjálfur klofni.
En að sjálfsögðu veldur hver á heldur.
![]() |
Ummæli Lilju eðlileg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.12.2010 | 13:26
"Kafaldsbylur" - þetta líkar mér.
Það á ekki bara að gagnrýna heldur líka að geta þess sem vel er gert. Í bloggpistli mínum næst á undan þessum kom fram gagnrýni á enskuskotið og ónákvæmt orðalag í frétt um stórhríð í Bandaríkjunum.
Í fréttinni, sem þessi pistill er tengdur við, er allt annað að sjá og notuð orðin "kafaldsbylur" og "óveður" sem saman lýsa afar vel því illviðri sem hefur geysað á austurströnd Bandaríkjanna.
Þetta líkar mér. Kærar þakkir.
![]() |
Röskun á flugi vegna veðurs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2010 | 09:56
"Snowstorm".
Enn sjáum við ensku vaða uppi í íslensku máli varðandi fyrirbæri, sem ættu að vera fólki töm á tungu í landi okkar. "Snowstorm" er þýtt hrátt sem snjóstormur eða snjóbylur.
Þar á ofan er talað um 50 sentimetra "jafnfallinn" snjó í New York, en snjór getur ekki orðið "jafnfallinn" í snjó"stormi" því að þá dregur hann í skafla. Jafnfallinn snjór fellur aðeins í logni eða litlum vindi.
Íslenska á fjölda orða sem getur lýst því fyrirbæri sem íslenskir fjölmiðlar tönnlast nú á að lýsa með enskum orðum. Um aldir hefur verið talað um hríð eða snjókomu og sé hríðin eða snjókoman mikil kallast það stórhrið.
Hvers vegna er nú verið að benda á þetta hér? Það er vegna þess að hjá nágrannaþjóðunum Grænlendingum og Íslendingum setja snjór og snjókoma mikið mark á tilveruna og besta dæmið um þessa sérstöðu er málfarið, sem af því hlýst.
Mér skilst að í grænlensku sé ekkert orð yfir snjó heldur ótal orð yfir mismunandi tegundur af snjó.
Á íslensku eru "hríð", "stórhríð" og "ofankoma" hliðstæða við hið grænlenska orðafar.
Sérstaða þjóða og lífsbarátta þeirra eru peninga virði þegar kemur að því að laða ferðamenn til landa og láta þá hrífast af og lifa sig inn í kjör íbúanna og sögu þeirra. Einn þáttur í því er að benda á það hvernig aðstæður hafa mótað orðafar landsmanna. Þess vegna er óþarfi að taka upp ensk orð yfir íslensk fyrirbæri úr því að íslensk tunga á sjálf hin ágætustu orð yfir það sem segja þarf.
"Bylur" er eitt af hinum íslensku orðum yfir hríð. Það þarf ekki að bæta neinu við og kalla þetta "snjóbyl" til þess að þýða enska orðið "snowstorm".
![]() |
Hálfur metri af jafnföllnum snjó í Central Park |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)