20.2.2010 | 23:46
Hvað sagði ekki Steingrímur í Nesi?
Í tilefni af svari vitavarðar við spurningu um einsemd kemur mér í hug að í Stikluþætti sem gefinn var út fyrir þremur árum var þáttur frá árinu 1975-76 þar sem rætt var við bændurna Stefán og Sighvat Ásbjörnsyni á Guðmundarstöðum í Vopnafirði, en á bænum hafði tíminn verið stöðvaður árið 1910 og allt var eins og verið hafði þá, rafmangslaus torfhúsog og meira að segja mynd af Friðriki áttunda enn á veggnum.
Bræðurnir höfðu dregið sig út úr skarkalanum og bjuggu þarna einhleypir í einsemd með fóstursystur sinni, sem var kominn á níræðisaldur og orðin mjög lúin.
Ég spurði Stefán hvort honum leiddist aldrei og hann svaraði: "Nei, mér leiðist aldrei. Ég segi eins og Steingrímur í nesi þegar hann hrapaði ofan í gjótu og týndist og fannst ekki fyrr en eftir næstum tveggja sólarhringa leit.
Þá kom hann upp skælbrosandi og næstum hlæjandi og þeir spurðu hvort honum hefði ekki leiðst. En Steingrímur svaraði: "Nei, - það leiðist engum sem er einn ef hann er nógu skemmtilegur sjálfur."
Betur verður það ekki orðað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2010 | 13:20
Allt frá móðuharðindunum.
Móða Skaftáreldanna barst frá Íslandi til Skotlands og þaðan yfir meginland Evrópu. Síðan eru til heimildir og mælingar um það hvernig hún barst austur yfir Rússland og Asíu og þaðan yfir Kyrrahafið og meginland Norður-Ameríku allt til austurstrandar Bandaríkjanna.
Móðan olli kólnun á norðurhveli jarðar næstu ár á eftir og átti óbeinan þátt í frönsku stjórnarbyltingunni vegna áhrifanna á landbúnað í Frakklandi.
Rykið frá Íslandi hefur áreiðanlega haft áhrif í Evrópu fyrr en nú og sumir upphafsstaðir þess eru ekki bundnir við svæði sem nýlega hafa komið undan jökli, svo sem sandana fyrir sunnan jökla.
Merkilegt má raunar telja að allt hið mikla leirfok sem kom af Skeiðarársandi í kjölfar flóðanna á sandinum haustið 1996 skyldi ekki mælast sérstaklega í Evrópu en það kanna að vera vegna þess að annað hvort hafa mælingarnar ekki verið eins góðar þá eða að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvaðan rykið var komið.
Við Íslendingar getum raunar þakkað fyrir að erlendis séu menn uppteknir við að skoða rykið sem afleiðing hnattrænnar hlýnunar í stað þess að átta sig á því stór hluti ryksins sem kemur frá Íslandi er til orðið vegna rányrkju okkar á landinu allt frá landnámi með tilheyrandi uppblæstri og leir- og sandfoki.
![]() |
Má rekja meira ryk í andrúmsloftinu til bráðnunar jökla? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)