1.3.2010 | 20:28
Er skammur tími sex sinnum styttri en örskammur tími?
Þekkt er það lögmál úr sjónvarpsheiminum að hætta er á að áhorfendur skipti yfir á aðra stöð ef hlé verður á útsendingu efnis, til dæmis vegna auglýsinga. Þykir sjónvarpsmönnum þá mikið liggja við að hvetja áhorfendur til að skipta ekki yfir.
Þessar hvatningar geta þó tekið á sig næsta hvimleiða mynd. Ein þeirra er þegar sjónvarpsfólk tönnlast á því að eitthvað efni hefjist "eftir örskamma stund", og er það orðinn kækur á sjónvarpsstöðvunum að nota þetta orð og verðfella það í leiðinni og afbaka.
Þetta sést best á því sem gerðist hjá Sjónvarpinu í kvöld. Þar sagði umsjónarmaður Kastljóssins fyrst frá því að Kastljós myndi hefjast "eftir örskamma stund." Þessi "örskamma stund" reyndist verða 12 mínútur.
En stuttu síðar sagði Bogi Ágústsson réttilega að veðurfregnir kæmu "eftir skamma stund." Sá tími var 2 mínútur.
Veðurfregnirnar komu sem sagt á undan Kastljósinu sem fullyrt var að kæmi eftir örskamma stund.
Og nú spyr ég: Hvernig getur hin "örskamma stund" verið sex sinnum lengri en hin "skamma stund."
Aðall fjölmiðla á að vera að segja satt. Í kvöld sannaðist það óvart að fullyrðingarnar um "örskamma stund" sem sífellt er tönnlast á eru oftast ósannar.
Þá er skárra að segja "farið ekki langt" þótt það sé líka næsta hvimleið síbylja.
Á ekki alltaf við, til dæmis þegar maður ekur á 90 kílómetra hraða á leið frá Reykjavík til Egilsstaða og fær síðan fyrirskipunina: "Farið ekki langt!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2010 | 20:13
"Hin gömlu kynni gleymast ei..."
Enn er maður minntur á mátt örlaganna þegar gamall skólafélagi úr M.R. fellur frá.
Þorsteinn Geirsson var einn af stórkostlegum hópi menntskælinga sem stóð að einhverri bestu Herranótt allra tíma, Þrettándakvöldi 1959.
Í slíkum hópi myndast vinabönd og kynni sem aldrei rofna þótt sambandið sé kannski ekki alltaf mikið í gegnum árin.
Æfingarnar og undirbúningurinn fyrir Þrettándakvöld voru viðamikil enda leikritið krefjandi og mikill metnaður lagður í að gera þessa sýningu sem besta.
Kynnin sem tókust á milli þátttakenda voru ekki síður náin en á milli bekkjarfélaga, en Þorsteinn var einu ári yngri en ég og fleiri, sem tókum þátt í þessari sýningu.
Ævinlega síðan hefur okkur verið vel til vina og með samúðarkveðjum til ættingja og vina Þorsteins vil ég senda þakkir fyrir allar ánægjustundirnar sem við áttum veturinn 1958-59.
![]() |
Andlát: Þorsteinn Geirsson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2010 | 15:30
Á jörðin eftir að éta tunglið?
Fréttin um að stjarna sé að éta fylginhnött minnir mig á bók, sem ég las þegar ég var um tíu ára gamall og hét "Undur veraldar."
Í henni voru ýmsar skemmtilegar greinar um vísindi og góð útttekt á tilraunum til að klífa fjallið Everest, en það hafði þá ekki enn tekist. Enn lifa í huga mínum nöfnin Mallory og Norton, ef ég man þá hið síðarnefnda rétt.
Ein vísindagreinin fjallaði um það tunglið myndi smám saman nálgast jörðina og þyrfti hlutfallslega afar lítið til að raska því jafnvægi sem ríkt hefur á milli jarðar og tungls.
Leitt var að því líkum að það eitt að beisla sjávarföllin, sem tunglið veldur, nægði til að ríða baggamuninn.
Síðan var því lýst í smáatriðum hvaða áhrif það hefði þegar tunglið færi að nálgast jörðina uns það félli loksins niður til jarðar með þeim ósköpum að eyða myndi öllu lífi á jörðinni.
Nú eru liðin 60 ár frá því að ég las þessa bók og það væri fróðlegt að vita hvort gangur tunglsins í kringum jörðina sé í algerlega hárnákvæmu jafnvægi, burtséð frá hæpnum ályktunum um sjávarfallavirkjanir.
Ef það kemst upp að jafnvægið sé ekki nákvæmt út í ystu æsar væri það ágætt rannsóknarefni, þótt það væri mjög langt fram í tímann.
Eitt var þó rétt í umfjölluninni um sjávarfallavirkjanirnar, sem sé það að orkuþörf mannkyns ætti eftir að vaxa svo mjög að hann yxi með veldishraða og yrði að stórkostlegu úrlausnarefni, miklu stærra en menn ímynduðu sér þá.
Og staðreyndin er sú að síðustu 60 ár hefur orkunotkun mannkyns tvöfaldast á hverjum áratug en það þýðir um eða yfir 50 falda aukningu yfir þetta tímabil ef það er í veldishraða eða exponental eins og það heitir víst á fræðimálinu.
Nýlega mátti nálgast mjög áhugaverðan fyrirlestur bandarísks prófessors við háskóla í Colorado þar sem hann sýnir fram á hve hættuleg sú hugsun geti verið að til dæmis 7% aukning einhvers fyrirbæris á ári sé æskileg.
Hann nefndi mörg dæmi um að slík aukning þætti æskileg á hinum ýmsu sviðum, einkum varðandi neyslu og orkunotkun.
7% aukning á ári þýðir 100% aukningu, eða tvöföldun á 10 árum, fjórföldun á 20 árum, áttföldun á 30 árum, 16 földun á 40 árum, 32 földun á 50 árum og 64 sinnum aukningu á 60 árum.
Á svipaðan hátt kann örlítil nálgun tunglsins að virðast smávægileg í byrjun en síðan vex hröðunin æ meira eftir því sem tíminn líður.
![]() |
Stjarna étur fylgihnött |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)