Er skammur tími sex sinnum styttri en örskammur tími?

Þekkt er það lögmál úr sjónvarpsheiminum að hætta er á að áhorfendur skipti yfir á aðra stöð ef hlé verður á útsendingu efnis, til dæmis vegna auglýsinga. Þykir sjónvarpsmönnum þá mikið liggja við að hvetja áhorfendur til að skipta ekki yfir. 

Þessar hvatningar geta þó tekið á sig næsta hvimleiða mynd. Ein þeirra er þegar sjónvarpsfólk tönnlast á því að eitthvað efni hefjist "eftir örskamma stund", og er það orðinn kækur á sjónvarpsstöðvunum að nota þetta orð og verðfella það í leiðinni og afbaka. 

 Þetta sést best á því sem gerðist hjá Sjónvarpinu í kvöld. Þar sagði umsjónarmaður Kastljóssins fyrst frá því að Kastljós myndi hefjast "eftir örskamma stund."  Þessi "örskamma stund" reyndist verða 12 mínútur.

En stuttu síðar sagði Bogi Ágústsson réttilega að veðurfregnir kæmu "eftir skamma stund." Sá tími var 2 mínútur.

Veðurfregnirnar komu sem sagt á undan Kastljósinu sem fullyrt var að kæmi eftir örskamma stund.  

Og nú spyr ég: Hvernig getur hin "örskamma stund" verið sex sinnum lengri en hin "skamma stund." 

Aðall fjölmiðla á að vera að segja satt. Í kvöld sannaðist það óvart að fullyrðingarnar um "örskamma stund" sem sífellt er tönnlast á eru oftast ósannar.

Þá er skárra að segja "farið ekki langt" þótt það sé líka næsta hvimleið síbylja.

Á ekki alltaf við, til dæmis þegar maður ekur á 90 kílómetra hraða á leið frá Reykjavík til Egilsstaða og fær síðan fyrirskipunina: "Farið ekki langt!" 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað þá með öll augnablikin sem maður hefur upplifað? Mörg þeirra eru jafnvel lengri en andartak sem hefur líka verið lengur en skamma stund.

Það þarf einhver að setja upp reglur um þetta fyrir Sjónvarpið og skýrar viðmiðanir. Hér er byrjunartillaga:

Augnablik = alltaf minna en 5 sek.

Andartak = Alltaf innan við 10 sek.

Bíddu aðeins = Allt að 30 sek.

Handan við hornið = Allt að 60 sek.

Eftir smá stund = 1 mínúta og 30 sek. mest.

Eftir örskamma stund = 2 mín, og 30 sek. í mesta lagi.

Eftir skamma stund = Mest 5 mínútur.

Handan auglýsinga = (hér þarf að fylgja með tímalengd auglýsinga)

Afsakið hlé = Á meðan klúðrið er leiðrétt. Tími til að fá sér kaffi og pissa, jafnvel smyrja sér eitt ristabrauð.

Afsakið, gjald.rot = Tími til kominn að gera eitthvað annað en að horfa á sjónvarpið.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 23:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband