18.3.2010 | 21:12
Rétt forgangsröðun, því miður.
Það er áreiðanlega hart fyrir Obama að hætta við Asíuferð sína, ekki hvað síst til Indónesíu, þar sem í gamla barnaskólanum hans hefur verið mikið um að vera við að undirbúa heimsókn gamals nemanda þangað.
En það er bara ekkert smámál að koma einhverjum böndum á hið slæma heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna sem engum Bandaríkjaforseta á undan honum hefur tekist að breyta hið minnsta.
Þetta er aðalmál forsetans innanlands og ef honum mistekst núna mun honum ekki takast það síðar þegar Demókratar hafa misst fylgi í kosningum, eins og nokkuð fyrirsjáanlegt er.
Þar með yrði hann kominn í svipaðan flokk og Carter, sem var velviljaður hugsjónamaður sem vildi gera vel en kom litlu í verk, enda var hart að honum sótt á erfiðum tímum og er visst samsæri republikana og Írana í gíslamálinu gott dæmi um það.
Miðað við stöðuna núna og minnkandi fylgi Obama er forgangsröðun hans á verkefnum vafalaust rétt, hvernig sem fer.
![]() |
Obama hættir við ferð til Asíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2010 | 20:13
Bæði höfuðborg og landsbyggð blæðir.
Þær staðreyndir sem kvikmyndagerðarmenn kynntu í dag eru sláandi og bæta má mörgum fleirum við.
Sú ímynd hefur skotið rótum í hugum margra að kvikmyndagerð þjóni aðeins kaffihúsafólki úr 101 Reykjavík. En raunveruleikinn er sá að bæði landsbyggð og höfuðborg blæðir við það að lemstra íslenska kvikmyndagerð.
101 Reykjavík er notað sem skammaryrði þar sem búin er til sú ímynd að þar ráfi helst óreglufólk, letingjar og auðnuleysingjar, sem liggi uppi á ríkinu og lepji vín og bjór á kaffihúsum.
Þetta er alröng mynd eins og glöggt mátti sjá í kynningu á fólki sem hefur unnið við þetta úti á landi og kom fram á milli atriða á Edduverðlaunahátíðinni nýlega.
Íslensk kvikmyndgerð hefur líka laðað að sér erlent kvikmyndagerðarfólk, sem hefur fengið íslenskt kunnáttufólk í vinnu hjá sér. Eða halda menn að atriðið í Bond-myndinni við Jökulsárlón hafi aðeins skapað vinnu í 101 Reykjavík?
Ég hef eytt öllu mínu fé og ómældri vinnu í kvikmyndagerð undanfarin níu ár. Nánast allan þennan tíma hefur vettvangur minn verið úti á landi en ekki í reykjarkófi reykvískra kaffihúsa.
En samkvæmt skilgreiningunni sem margir tönnlast á voru Fjölnismenn og Jón Sigurðsson mestu ónytjungar Íslands á sínum tíma þegar þeir sátu á kaffihúsum í Kaupmannahöfn á meðan landar þeirra hírðust í moldarkofum, þræluðu í sveita síns andlitis og löptu dauðann úr skel.
![]() |
Fimm milljarðar tapast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.3.2010 | 12:03
"Hver á sér meðal þjóða þjóð...?"
"Hver á sér meðal þjóða þjóð /
er þekkir hvorki sverð né blóð /
en unir sæl við ást og óð /
og auð, sem friðsæld gaf?..."
Þannig orti Hulda á sínum tíma en nú er öldin önnur. Undir kjörorðinu "tafarlausar aðgerðir!" er ekki lagður neinn mælikvarði á það sem þurfi að gera til að þjóðin afli sér á auðs af hvaða tagi sem vera skal, helst jafn hratt og hún gerði á árunum 2002-2008.
Þegar búið er að strika út öll viðmið í þeim efnum er hægt að setja upp eftirfarandi atvinnustefnu:
1. Á Íslandi skal reisa öll þau álver sem mögulegt er að reisa þótt það kosti alla orku landsins. Í álverunum öllum fá að vísu aðeins 2% vinnuaflsins vinnu en skítt með það því að eftirfarandi kostir, merktir 2-4, koma til viðbótar.
2. Ef tilboð kemur erlendis frá um að nýta okkar dreifbýla land til geymslu á kjarnorkuúrgangi ber að taka því tafarlaust, enda þörfin brýn á heimsvísu þar sem aðrar þjóðir vilja ekki sjá slíka starfsemi þótt sögð sé hættulaus og örugg.
3. Ef tilboð kemur erlendis frá að reisa hér olíuhreinsistöðvar vegna þess að engin önnur vestræn þjóð hefur viljað reisa slíkar í 20 ár, ber að drífa í því máli.
4. Ef það getur skapað atvinnu að bjóða herjum heims Ísland til heræfinga eftir því sem mögulegt er verður að keyra á það umsvifalaust.
5. Á grundvelli atriðis númer 4 skal stefna að því að bandaríska herliðið komi aftur. Ef það tekst ekki má reyna við Rússa, sem ekki hafa sýnt okkur þann mikla fjandskap sem nágrannaþjóðir okkar hafa sýnt okkur í hinu vestræna "umsátri um Ísland."
6. Allir þeir sem sjá eitthvað athugavert við þetta eða samþykkja það ekki til fullnustu, lið fyrir lið, skulu skilgreinast sem fólk sem er "á móti atvinnuuppbyggingu" og ber að flokka með vinstri grænum á svipaðan hátt og allir þeir sem ekki gengu alveg í takt við hægri flokkana á öldinni sem leið voru flokkaðir sem kommúnistar.
Auðvelt er að sjá útfærslu þessa á sumum af þeim bloggpistlum sem hafa verið skrifaðir um mál af þessu tagi.
Fyrst "auður sem friðsæld gaf" reyndist takmarkaður, er augljóst hvert stefna ber í þessum efnum.
Rétt er að halda því til haga að sá sem skrifar þennan pistil var og er fylgjandi aðild að NATO og var fylgjandi veru varnarliðs hér á landi á meðan á Kalda stríðinu stóð.
Eftir að Kalda stríðinu lauk hætti hann stuðningi við varnarliðið og skal því flokkast sem kommúnisti þaðan í frá samkvæmt þeim skilningi að á hann og annað náttúruverndarfólk megi klína mesta skammaryrði okkar tíma: vg, hvort sem viðkomandi er í þeim flokki eða ekki.
![]() |
Vilja ekki sjá herþotuæfingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)