15.4.2010 | 14:17
Katla miklu meira áhyggjuefni.
Nokkrar sláandi staðreyndir gera að verkum að truflanirnar erlendis af völdum gossins í Eyjafjallajökli geta sýnst smámunir miðað við það sem nágranni hennar, Katla, getur gert af sér. Ég gerði viðmælendum mínum hjá erlendri sjónvarpsstöð grein fyrir þessu nú rétt áðan og þar með því, að aðaláhyggjuefnið og viðfangsefnið gæti orðið að fást við það, að fari allt á versta veg, geti Kötlugos stöðvað allt farþegaflug í Evrópu, ekki aðeins í nokkra daga, heldur jafnvel margar vikur.
Rökin fyrir því að taka þetta til alvarlegrar athugunar eru meðal annars þessi:
1. Katla hefur oftast gosið í kjölfar gosa í Eyjafjallajökl og hefur bilið á milli gosa verið allt frá nokkrum mánuðum upp í tvö ár. Það verður því að vera viðbúið að meiri líkur en minni séu á því að Katla gjósi í kjölfarið nú, ef þessi forsaga er höfð í huga, einkum vegna þess hve langt er síðan stórt gos varð í Kötlu.
2. Katla er mun öflugra, hættulegra og varasamara eldfjall en Eyjafjallajökull. Askjan er margfalt stærri, ísinn yfir eldstöðinni miklu þykkari og margfalt meiri að efnismagni, og því verður lítið eða ekkert af kvikunni, sem upp kemur, fljótandi hraun, heldur aska.
3. Dæmi um afleiðingar þessa má sjá í mismun stærðar flóðanna, sem koma frá þessum eldstöðvum. Flóðin úr Kötlu geta verið meira en hundrað sinnum stærri en flóðin úr Eyjafjallajökli.
4. Heklugosið 1947 bar ösku til Skandinavíu og þó einkum Skotlands en þetta hafði engin áhrif á farþegaflug í Evrópu þá, því að þá var allur flugflotinn knúinn bensínhreyflum, en um þá gildir að þeir eru ekki næmari fyrir ösku en venjulegir og sams konar hreyflar í bílum. Nú eru aðstæður gerbreyttar að þessu leyti.
Talsverð aska kom upp í Heklugosinu 1970 og olli búsifjum hér á landi, en hún barst í norðvetur frá fjallinu og eitraði mest jörð í Víðidal í Húnaþingi.
![]() |
Aldrei áður jafn mikil röskun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.4.2010 | 08:20
Grundvallarmunur á þotuhreyflum og bulluhreyflum.
Talsverðs misskilnings virðist gæta hjá fólki og jafnvel hjá þeim, sem fást við flug, varðandi muninn á þotuhreyflum og venjulegum bulluhreyflum lítilla flugvéla, sem ganga fyrir bensíni.
Bann á flugumferð í blindflugi og á þotum byggist á því að, eins og orðið blindflug ber með sér, getur flugmaður í blindflugi, sem flýgur inn í öskumettað loft illa varast það ef hann flýgur um svæði sem vindar bera ösku inn á.
Um litla flugvél í sjónflugi sem knúin er bulluhreyfli, sem er af nákvæmlega sömu gerð og hreyflar bensínknúinna bíla, gildir svipað og að um bíl væri að ræða.
Ekkert loft kemst inn í hreyfla þessara flugvéla og bíla nema hún smjúgi í gegnum loftsíu.
Skrúfuþotuhreyfla, líkt og á Fokker F50, landhelgisgæsluvélinni og þyrlunum, þekki ég ekki eins vel og bulluhreyfla og hreina þotuhreyfla, en reikna með því að eðlis síns vegna séu hreyflar skrúfuþotuhreyfla viðkvæmari fyrir ösku en bulluhreyflar í bílum og litlum flugvélum.
Eftir reynslu af flugi í 22 eldgosum í tæpa hálfa öld tel ég mig hafa nokkra reynslu af því hvað varast beri í flugi á litlum bensínknúnum flugvélum. Helst þarf að varast að aska falli á framrúður slikra flugvéla, vegna þess að þessar rúður eru úr viðkvæmu plastkenndu plexigleri.
Forðast ber að láta skrúfuspaðana lenda í grófu sand- eða öskufoki og með reynslunni og með því að nota upplýsingar veðurstofunnar fæst vitneskja um það hvernig fara á að því að fljúga litlum bensínknúnum flugvélum án skemmda.
![]() |
Eldgosið truflar flugumferð í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
15.4.2010 | 00:20
Skaftártunga! Ekki Tungur Halla og Ladda.
Mjög er misjafnt hve fjölmiðlamenn þekkja land sitt vel. Skaftártunga er eintöluorð og sá hluti Skaftár, sem fellur um þessa sveit er stundum kölluð Tungufljót, ekki Tungnafljót.
Það fór ekki á milli mála, hvaðan stelpurnar voru, sem Halli og Laddi sungu um og nefndu "tvær úr Tungunum. Þær voru úr Biskupstungun og engum hefði á þeim tíma dottið í hug að spyrja, hvort þær væru úr Skaftártungum.
Blaðamaður Fréttablaðsins talaði í forsíðufyrirsögn um Hvanngil sem "nærri gosstöðvunum" þegar hið rétta var að þær voru á allt öðru svæði og fjarri gosstöðvunum.
Annað kemur líka upp í hugann. Amma mín og afi sögðu mér ýmsar sögur af öskufallinu, sem Katla sendi austur yfir sveitir, en afi var af Síðunni og hún ættuð úr Landbroti en ólst upp á Svínafelli í Öræfum.
Nú rifjast upp þessar sögur þeirra sem þau sögðu mér barni.
Þannig getur ein frétt kallað fram bæði afa og ömmu og Halla og Ladda.
![]() |
Öskufall berst austur yfir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)