Söngvarakeppni eða söngvakeppni?

Ummæli þess efnis að Anna Bergendahl, sem söng lag Svía í undankeppni Evróvision, hafi verið besti flytjandinn, sýna að söngvakeppnin er í hugum flestra flytjendakeppni að því er virðist.

Þarna virðast síast inn áhrif frá alls kyns hæfileikakeppni sem úir og grúir af, allt frá keppni framhaldsskólanna til American Idol. 

Persónulega finnst mér þetta bagalegt. Ég tel þvert á móti að leita eigi að besta laginu, ekki besta flytjandanum. 

Annars væri réttara að breyta nafni keppninnar úr "...song contest..." í "singers contest..." eða úr söngvakeppni í söngvarakeppni. 


mbl.is Svíum brugðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að skoða tölurnar á umbúðunum.

Á þessu ári hefur staðið yfir átak hjá mér til að létta mig og er takmarkið að léttast um tíu kíló.

Ekki er ætlunin að þetta gerist hratt heldur hægt og bítandi. Margföld reynsla er fyrir því að léttingaráhlaup séu árangurslítil því að aftur sæki í sama farið þegar átakinu er lokið. Ég miða við eitt kíló á mánuði og ætla mér því að ljúka þessu fyrir jól. 

Síðan á að taka við strangt aðhald til að halda sig við þetta 82-83 kíló. 

Þetta hefur gengið ágætlega. 6,5 kíló eru farin á fimm mánuðum. 

Allt fram á allra síðustu ár hef ég notað harðsnúin hlaup og hreyfingu til að halda í horfinu. 

En nú eru hnén illa slitin og hlaupin því ekki möguleg enda bönnuð að læknisráði. Hann bannaði mér þó ekki að læðast hratt. 

Þegar þannig er ástatt er aðeins eitt ráð til, og það er hitaeininga- , hvítasykurs - og fitubókhald.

Til að hafa einhverja vísbendingu um það hvernig mataræðinu sé best háttað er nauðsynlegt að vita innihald þess sem maður borðar og það má lesa á umbúðum flestra matvara. 

Ég er ekki í ströngu aðhaldi heldur er sunnudagurinn nammidagur og allt í lagi að njóta góðra máltíða í veislum eða gera sér dagamun af og til.

En það er hið jafna og sígandi aðhald hversdagsins sem gildir,  afnám ýmissa ósiða og að hafa innihald hins étna á hreinu. 

Þá finnst sumt mjög fljótlega út, til dæmis það að þriðjungur súkkulaðis er hrein fita og í mörgum súkkulaðivörum er líka mikið af hvítasykri og hitaeiningarnar eru margar. 

Smjör og Smjörvi eru 80% fita og því má segja að hver smjörklípa fari beint framan á magann. 

Ég hef lengi tekið eftir því að margt feitt fólk drekkur Diet Kók eða Pepsi Max. 

Auðvitað telur það að drekka ekki ekta Kók eða Pepsi en þegar lesið er á umbúðirnar sést að þótt sykurinn sé vafalaust óhollur í þessum drykkjum eru hitaeiningarnar ekkert margar í hverjum 100 grömmum, ekkert fleiri en í Appelsíni eða mörgum ávaxtadrykkjum.

Feita fólkið, sem drekkur diet-drykki fitnar greinilega við það að skófla í sig súkkulaði eða innbyrða matvörur sem innihalda margar hitaeiningar í formi fitu og kolvetna. 

Þegar maður fer að lesa á umbúðirnar kemur margt fróðlegt í ljós sem kemur oft á óvart og nýtist vel í grenningunni.

Þetta snýst um þrennt:  1. Rannsaka innihaldið.  2. Horfa langt fram og taka sér góðan tíma.  3. Hreyfa sig, helst í lengri skorpum en 20 mínútna löngum. 

 

 


mbl.is Kaloríusprengja sem maður hristir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smækkuð útgáfa af Móðuharðindunum.

Síðustu daga hefur fólk á Suðurlandi kynnst veðurlagi sem er mjög undir áhrifum frá gosinu í Eyjafjallajökli þótt því sé lokið í bili. Það lýsir sér á þurrum góðviðrisdögum þannig að á morgnana sé ágætt veður, en síðan byrjar að blása sólfarsvindar sem þyrla upp öskunni sem féll í gosinu og kaffæri austustu sveitir Suðurlands.

Síðan breiðist þessi örfína öskumóða yfir allt Suðurland og verður það þykk, að skyggni fer víðast hvar jafnvel niðurfyrir tíu kílómetra svo að ekkert sést til fjalla. 

Ef vætutíð verður mikil í sumar mun þetta ekki verða eins algengt en ævinlega áberandi þegar þornar. 

Í morgun var sæmilegt skyggni í Rangárþingi fram yfir hádegi en síðan náði sólfarsvindurinn sér á strik með svalri hafgol sem blés á móti ríkjandi norðanátt í fjallahæð. 

Land er dökkt á öskufallssvæðunum og hitnar því meira en ella á björtum morgnum. Loftið stígur þá upp og fer á flakk í vindstrengjum sem blása af ýmsum áttum. 

Síðdegis í gær var maður aumur í augunum vegna hins fína og ósýnilega ryks, sem smýgur um allt. 

Vitað er að gosefnin í Móðuharðindunum voru í þvílíku magni að þetta Eyjafjallagos er bara örlítið sýnishorn sem gefur þó smá vísbendingu um það við hvað þjóðin mátti búa hið hræðilega tímabil sem fékk réttilega nafnið Móðuharði. 


mbl.is Væta fyrir sunnan - þurrt fyrir norðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband