Að skoða tölurnar á umbúðunum.

Á þessu ári hefur staðið yfir átak hjá mér til að létta mig og er takmarkið að léttast um tíu kíló.

Ekki er ætlunin að þetta gerist hratt heldur hægt og bítandi. Margföld reynsla er fyrir því að léttingaráhlaup séu árangurslítil því að aftur sæki í sama farið þegar átakinu er lokið. Ég miða við eitt kíló á mánuði og ætla mér því að ljúka þessu fyrir jól. 

Síðan á að taka við strangt aðhald til að halda sig við þetta 82-83 kíló. 

Þetta hefur gengið ágætlega. 6,5 kíló eru farin á fimm mánuðum. 

Allt fram á allra síðustu ár hef ég notað harðsnúin hlaup og hreyfingu til að halda í horfinu. 

En nú eru hnén illa slitin og hlaupin því ekki möguleg enda bönnuð að læknisráði. Hann bannaði mér þó ekki að læðast hratt. 

Þegar þannig er ástatt er aðeins eitt ráð til, og það er hitaeininga- , hvítasykurs - og fitubókhald.

Til að hafa einhverja vísbendingu um það hvernig mataræðinu sé best háttað er nauðsynlegt að vita innihald þess sem maður borðar og það má lesa á umbúðum flestra matvara. 

Ég er ekki í ströngu aðhaldi heldur er sunnudagurinn nammidagur og allt í lagi að njóta góðra máltíða í veislum eða gera sér dagamun af og til.

En það er hið jafna og sígandi aðhald hversdagsins sem gildir,  afnám ýmissa ósiða og að hafa innihald hins étna á hreinu. 

Þá finnst sumt mjög fljótlega út, til dæmis það að þriðjungur súkkulaðis er hrein fita og í mörgum súkkulaðivörum er líka mikið af hvítasykri og hitaeiningarnar eru margar. 

Smjör og Smjörvi eru 80% fita og því má segja að hver smjörklípa fari beint framan á magann. 

Ég hef lengi tekið eftir því að margt feitt fólk drekkur Diet Kók eða Pepsi Max. 

Auðvitað telur það að drekka ekki ekta Kók eða Pepsi en þegar lesið er á umbúðirnar sést að þótt sykurinn sé vafalaust óhollur í þessum drykkjum eru hitaeiningarnar ekkert margar í hverjum 100 grömmum, ekkert fleiri en í Appelsíni eða mörgum ávaxtadrykkjum.

Feita fólkið, sem drekkur diet-drykki fitnar greinilega við það að skófla í sig súkkulaði eða innbyrða matvörur sem innihalda margar hitaeiningar í formi fitu og kolvetna. 

Þegar maður fer að lesa á umbúðirnar kemur margt fróðlegt í ljós sem kemur oft á óvart og nýtist vel í grenningunni.

Þetta snýst um þrennt:  1. Rannsaka innihaldið.  2. Horfa langt fram og taka sér góðan tíma.  3. Hreyfa sig, helst í lengri skorpum en 20 mínútna löngum. 

 

 


mbl.is Kaloríusprengja sem maður hristir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

"Að læðast hratt", ég hnaut um þessa setningu hjá þér Ómar og datt í hug lognið í Hrútafirði, það er stundum nokkur "ókyrrð í því". Þegar ókyrðin verður mjög mikil tala þeir um "ferska loftið".

Gangi þér annars sem best í átaki þínu, við erum fleiri sem þyrftum að hafa þann viljastyrk sem þarf til að hugsa um eigin líkama.

Gunnar Heiðarsson, 28.5.2010 kl. 16:59

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef þú hættir að svolgra lítra af kókaín-ropvatni og graðga í þig heilu fliss-súkkulaðistykkjunum (Snickers) á hverjum degi sem Guð gefur yfir, verður þú horfinn af yfirborði jarðar fyrir höfuðdaginn, Ómar minn.

Og málið er dautt.

Þorsteinn Briem, 28.5.2010 kl. 18:12

3 identicon

Mér finnst nú bumban ekki vera að kvelja þig Ómar.

Annars er ágæt uppistaða fyrir daginn (verð að setja þetta í mig vegna maga-vandræða & bakflæðis) bara hafragrautur og ... baunasúpa. Þvílík snilld! Gott að hafa smá beikon í henni og sjóða hana í mauk.

Þér er því boðið í baunasúpu næst er þú ert á ferð.

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.5.2010 kl. 19:12

4 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

Mikið er ég sammála Jóni.Linsubaunasúpur og réttir með baunum eru mjög góðir ef maður hefur hugmyndaflug,fyrir utan eru linsubaunir fullar af járni, ummm allar baunir eru góðar bara að kunna að elda þær. Hafragrautur er sinfonía í maga og meltingu. Góða helgi

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 28.5.2010 kl. 19:51

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég borða 4 sinnum á dag. Og svo eitthvað snarl á milli. Popcorn er ekki matur enn það er ég að éta ásamt súkkulaðikúlum meðan ég er á netinu. Núna eru það pulsur vafðar með beikoni á pönnu því ég get ekki notað grillið. Svo þetta venjulega maiskorn blandað með bráðnu smjöri. Linsubaunir eru góðar með beikonpulsunum. Hafragrautur er fínn til að líma veggfóðr með og var ég bara 5 ára þegar ég skyldi að hafragrautur væri ekki matur. Enn sjálfsagt betra enn ekki neitt. Skrítið að feitu fólki skuli vera ráðlagt endalaust hvernig á að megra sig enn ekkert fyrir okkur sem getum étið endalaust án þess að það festist eitt aukagramm á okkur. Það vantar meira jafnrétti í umræðunna...

Óskar Arnórsson, 29.5.2010 kl. 06:38

6 identicon

Ómar, til hamingju með lífsstílsbreytinguna. Ég er einmitt sjálfur að taka mig á í sykurfíkninni og ætlunin er að hrista björgunarhringinn af mér.

Óskar, þú ert nú ekki alveg sloppinn þótt þú fitnir ekki. Fitan í súkkulaði og smjöri fer ekki endilega utan á þig, heldur stíflar hún mikilvægar æðar líkamans með tímanum. Þótt þú sjáir ekki vandamálin þýðir ekki endilega að þau séu ekki til staðar.

Hvet svo alla til þess að lesa innihaldslýsingar. Rétt eins og Ómar segir, það eru jafnmargar (ef ekki fleiri) kaloríur úr hvítum sykri í ávaxtasöfum, sem maður hefði oft haldið að væru hollir, heldur en gosdrykkjum. Ekki láta blekkja ykkur með því hvað er hollt og hvað ekki. Kynnið ykkur málið. :)

Jón Flón (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 12:04

7 identicon

Gleymdi einu með baunasúpuna góðu. Það eru stundum aukaverkanir. En þarf ekki að halda Frúnni á "lofti"

Jón Logi (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband